Hoppa yfir valmynd
24. október 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Heimsminjamál á norðurslóðum: ráðstefna í samvinnu við UNESCO

Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.  - mynd
Heimsminjamál á norðurslóðum eru í brennidepli á ráðstefnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) í dag. Á ráðstefnunni koma saman fræðimenn og áhugafólk um heimsminjar og hagsmunaaðilar sem tengjast heimsminjum á norðurslóðum og miðlun þeim tengdum. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að ræða möguleika norðurslóðasvæðisins og með hvaða hætti heimsminjasvæði geti verið lyftistöng fyrir sjálfbæra þróun og uppbyggingu. Ráðstefnan er liður í formennskuáætlun Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni í ár.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna í morgun og sagði meðal annars: „Við finnum fyrir miklum breytingum á norðurslóðum þar sem hitastig hækkar nú tvöfalt hraðar en að meðaltali annars staðar. Það getur haft afdrifarík áhrif á heimsminjasvæði og áform okkar um verndun þeirra. Þessar aðstæður kalla á náið samstarf og skýra sýn. Norðurlöndin og samfélög á norðurslóðum búa að langri samvinnuhefð og því er ég bjartsýn að við getum byggt á þeirri reynslu sem sérfræðingarnir sem staddir eru hér í dag búa yfir til þess að stuðla að öruggri verndun heimsminja og aukinni sjálfbærni á norðurslóðum.“

Meðal þátttakenda á ráðstefnunni eru Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, dr. Isabelle Anatole-Gabriel yfirmaður Evrópu og N-Ameríku deildar heimsminjaskrifstofu UNESCO og Einar Á. E. Sæmundssen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum en Mechtild Rössler, aðalframkvæmdastjóri Heimsminjaskrifstofu UNESCO, ávarpaði einnig ráðstefnuna.

Á norðurslóðum eru nú skráðir 15 heimsminjastaðir, sá nýjasti sem bættist á listann er Vatnajökulsþjóðgarður sem var formlega settur á heimsminjaskrá í sumar. Heimsminjasamningur UNESCO um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins grundvallast á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins. Undanfarin ár hafa fleiri fjölþjóðleg svæði bæst á heimsminjaskrána en flóknara eignarhald á slíkum svæðum kallar á aukið samstarf, t.d. vegna náttúruauðlinda, áherslu á sjálfbærni svæðanna og áskoranna vegna loftslagsbreytinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum