Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Norrænu ríkin þétta raðirnar eftir COVID-19

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra  - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fundaði með norrænum viðskiptaráðherrum til að ræða þver-norræna nálgun á leiðir til að efla viðskipti, ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar, þjónustugreinar og nýsköpunarmiðuð fyrirtæki á Norðurlöndunum í kjölfar COVID-19 faraldursins. 

 „Mér fannst mikilvægt að kalla til þessa fundar því að nú sem aldrei fyrr skiptir máli að Norðurlöndin, sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta, nýti samtakamáttinn og sameiginlega krafta sína.  Rannsóknir sýna að þau markaðssvæði sem við sækjum hvað mest fram á horfa á Norðurlöndin sem eitt svæði. Við vitum líka að það er mikilvægt að vera tilbúin að sækja fram þegar rofar til.  Við þurfum því að hafa hraðar hendur; að greina styrkleika okkar sem svæðis og finna sameiginlega fleti til samstarfs. Við horfum fram á breyttan heim, en vitum samt sem áður hverjir styrkleikar Íslands eru og getum auðveldlega styrkt þá enn frekar með góðu samstarfi Norðurlandanna,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem hafði frumkvæði að fundinum. 

 

Öll Norðurlöndin takast nú á við flóknar áskoranir tengdar COVID-19, jafnt hagrænar sem samfélagslegar. Aðgerðirnar sem gripið verður til í framhaldinu munu ráða úrslitum um það hvernig Norðurlöndunum gengur að sækja fram þegar þessu tímabili er lokið og þegar störf og samfélagið fara aftur í fastari skorður. 

 

Heimsmynd okkar kann að verða breytast til frambúðar en norrænu ráðherrarnir eru þess fullvissir að Norðurlöndin geta verið í forystuhlutverki þegar kemur að því að aðlaga sig að nýjum veruleika. Það verði gert með því að treysta á sameiginleg norræn gildi með sérstakri áherslu á sjálfbærni og samþættingu.

 Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á fjarfundinum ásamt Hildi Sverrisdóttur, aðstoðarmanni ráðherra

Til að vinna að þessum markmiðum samþykktu norrænu ráðherrarnir í dag að stofna þver-norrænan hóp sem, með aðstoð norrænu ráðherranefndarinnar, leggur áherslu á að vera hraðall og mun gera útlínur að norrænum vegvísi fyrir nánara samstarf  á sviðum þar sem ríkin geta unnið saman með það að markmiði að endurræsa hagkerfi sín eftir COVID-19.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum