Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Aukið norrænt fjármagn til að mæta Covid-19

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu á fjarfundi í dag að fjármagna aðgerðir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins. Norræna ráðherranefndin hefur þegar gripið til vissra ráðstafana eins og að auka rannsóknarstarf á vegum Norrænu rannsóknarstofnunarinnar, NordForsk. Norrænir heilbrigðisráðherrar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafa átt náið samráð um aðgerðir í bráð og lengd. Öllum fagráðherraráðum innan Norrænu ráðherranefndarinnar verður falið að koma með tillögur um það hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu brugðist með enn markvissari hætti við núverandi ástandi en ljóst er að COVID-19 faraldurinn mun hafa víðtæk áhrif á atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag. 

Á fundinum kom fram skýr vilji til að draga lærdóma af viðbrögðum Norðurlandanna hingað til, sem að sumu leyti hafa verið ólík. Það verði einnig gert til þess að geta metið næstu skref og ekki síst til að undirbúa Norðurlöndin betur fyrir sambærilegum áföllum í framtíðinni.

Samstarfsráðherrarnir voru sammála um að ný framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, sem samþykkt var í fyrra á formennskuári Íslands og leggur áherslu á loftslagsmál og samþættingu Norðurlandanna, ætti áfram að vera leiðarljós norræns samstarfs en með aukinni áherslu á heilbrigðissamstarf. 

„Þessi heimsfaraldur mun ganga yfir, svo mikið er víst, og vonandi fyrr en síðar. En þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði loftslagsmála eru ekki á förum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. „Þess vegna er mikilvægt að um leið og við gerum meira á norrænum vettvangi til að mæta áhrifum COVID-19, vinnum við áfram að markmiðinu um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við Íslendingar skulum nýta uppbyggingarstarfið sem er framundan til að ná því markmiði.“

Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri. Verulega hefur reynt á það vegna sóttvarnaraðgerða og hafa norrænar upplýsingaskrifstofur svarað rúmlega 200 þúsund fyrirspurnum frá íbúum Norðurlandanna á síðastliðnum mánuði. Á fundinum kom fram að vestnorrænt samstarf hefur einnig sannað gildi sitt en Færeyjar og Grænland hafa m.a. átt samstarf um skimun fyrir veirunni. Þá þökkuðu fulltrúar Grænlands íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa aðstoðað við gerð loftbrúar milli Nuuk og Kaupmannahafnar með viðkomu í Keflavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum