Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Karen Ellemann verður nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Karen Ellemann hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2007 og gegnt ýmsum ráðherraembættum í ríkisstjórn Danmerkur. Hún tekur við störfum framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar 1. janúar 2023 en Ísland tekur við formennsku í ráðherranefndinni sama dag.

Karen Ellemann er stjórnmálamaður með víðtæka þekkingu á sviðum sem vega þungt í norrænu framtíðarsýninni til ársins 2030. Hún hefur verið jafnréttisráðherra, umhverfisráðherra og félagsmála- og innanríkisráðherra. Auk þess hefur hún nokkrum sinnum verið sá ráðherra í Danmörku sem hefur farið með málefni norræns samstarfs.

Karen Ellemann er menntaður grunnskólakennari og sinnti ýmsum stjórnunarstöðum í einkageiranum áður en hún haslaði sér völl á hinu pólitíska sviði árið 2005. Hún hefur einnig verið í forystu fyrir Norræna félagið og sýnt mikinn áhuga á norrænu samstarfi. Karen Ellemann hefur heldur ekki hikað við að segja skoðun sína umbúðalaust þegar henni finnst að norrænu löndin geti unnið betur saman.

„Ég er mjög ánægð með það traust sem mér er sýnt. Í ljósi heimsástandsins er norrænt samstarf mikilvægara en það hefur verið í mörg ár. Ég horfi þess vegna til þess með eftirvæntingu að takast á við þetta ákaflega spennandi verkefni ásamt öllu norrænu samstarfsfólki í Kaupmannahöfn og í stofnuninni sem starfar um öll Norðurlönd“, segir Karen Ellemann.

Karen Ellemann tekur við starfi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar af Paulu Lehtomäki.

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Samstarfsráðherra Norðurlanda er sá ráðherra í ríkisstjórnum Norðurlandanna sem fer með ábyrgð á norræna ríkisstjórnarsamstarfinu innan Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir hönd forsætisráðherra hvers lands. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, er samstarfsráðherra Norðurlandanna á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum