Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. janúar 2010 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á ráðstefnu um landnotkun

 

Ágætu gestir,

Það er mér mikil ánægja að vera boðið til að fylgja úr hlaði þessari ráðstefnu - ráðstefnu sem fjallar um landnotkun á Íslandi sem er afar mikilvægt en jafnframt yfirgripsmikið málefni. Ég vil þakka skipuleggjendum ráðstefnunnar; Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi og Háskólafélagi Suðurlands fyrir þeirra frumkvæði að skipuleggja þennan viðburð og draga þannig athygli að þessu brýna viðfangsefni. Hér eru sannarlega á mælendaskrá fyrirlesarar sem hafa yfirburða þekkingu á mismunandi þáttum landnotkunar á Íslandi.

Hér í dag er land, og notkun þess, til umfjöllunar. Fyrirbærið „land“ er um margt sérstakt viðfangsefni. Land er takmörkuð auðlind, endanlegt að stærð, sem við Íslendingar eigum eitthvað um 103 þúsund ferkílómetra af. Öllu þurrlendi heimsins er þannig ráðstafað útfrá lögsögu einstaka þjóðríkja, eina undantekningin er Suðurskautslandið sem er undir alþjóðlegri lögsögu. Þannig er land eitthvað sem ekki er hægt að bæta við samkvæmt hefðbundnum leikreglum þjóða. Vegna þess að land er takmörkuð auðlind og ber að taka ákvarðanir um nýtingu þess í anda sjálfbærrar þróunar, þ.e. að það sem ég tek get ég skilað aftur. Land skiptir máli fyrir okkar sem hér búum í dag en síðast en ekki síst ófæddar kynslóðir sem okkur ber skylda til að standa í skilum við. Skipulag landnotkunar snýst því um að ráðstafa því landi sem hver þjóð hefur yfir að ráða, á sem skynsamlegastan hátt og í anda sjálfbærrar þróunar.

Við Íslendingar sem þjóð erum einstaklega rík af landi, bæði af gæðum og magni. Af gæðum segi ég, því landslag hér er einstaklega fjölbreytilegt frá einum stað til annars. En einnig af magni. Hér eru um 3 íbúar á hvern ferkílómetra lands, meðan sambærilegar tölur eru 58 íbúar á Írlandi, 125 í Danmörku og um 483 í Hollandi. Jafnframt er Ísland að verða eitt mesta borgríki heims. Um 94% íbúa landsins búa nú í því sem flokkast þéttbýli þ.e. bæjum með 200 íbúum eða fleiri og nærri tveir þriðju hlutar búa í einum hnapp á suðvesturhorni landsins. Því er allur meginþorri landsins afar strjálbýll, enda sé ég að áherslur ráðstefnunnar hér í dag snúast um fyrst og fremst um landnotkun í dreifbýli. Það að hafa yfir svona miklu landi að ráð leggur hins vegar ríkar skyldur á herðar okkar.

Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á landnotkun og jafnframt töluverð umræða um skipulag hennar. Á ekki svo mörgum árum er til dæmis hægt að greina fjöldamargar umfangsmiklar breytingar sem tengjast landnotkun og gera miklar kröfur til skipulags. Ég vil hér nefna nokkur dæmi um slíkar breytingar :

• Hvað hefðbundinn landbúnað varðar, þá hefur orðið mikill samdráttur í sauðfjárrækt. Sauðfé hefur fækkað um helming í landinu á 30 árum; þannig hafa þarfir þeirra atvinnugreinar gjörbreyst, sem áður nýtti þorra alls úthaga.

• Framræslu votlendis hefur að mestu verið hætt og vaxandi áhugi er á aukinni endurheimt. Umfang skógræktar hefur aukist verulega og mikill áhugi er á frekari ræktun nýrra skóga. Kornrækt hefur aukist verulega og eru þar talin mikil tækifæri. Stór svæði hafa jafnframt verið tekin til uppgræðslu og er mikil þörf á að auka þau verkefni . Allt þarf þetta að vera í samræmi við alþjóðaskuldbindingar Íslands um líffræðilega fjölbreytni og varðveislu íslenskrar náttúru sem er mikilvægur þáttur náttúruverndar.

• Náttúruverndarsvæðum hefur fjölgað og ná þau nú yfir nærri 20% landsins. Þar munar mestu um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs Evrópu. Náttúruvernd er ekki aðeins mikilvæg í sjálfu sér, heldur má færa að því rök að hún sé nauðsynleg fyrir ferðaþjónustu, sem er orðinn einn stærsti atvinnuvegur landsins og gerir einkum út á náttúru landsins. Þessu tengt er aukin útivist landsmanna, sem er af hinu góða, en þar er betri skipulagningar þörf, ekki síst vegna stóraukinnar umferðar vélknúinna ökutækja í óbyggðum og oft utan vega.

• Vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir hafa breytt ásýnd landsins á stórum svæðum, jafnt á öræfum sem í nágrenni höfuðborgarinnar og uppi eru áform um verulega aukna orkunýtingu.

• Það hafa verið miklir fólksflutningar á Íslandi. Við höfum upplifað mikinn tilflutning á fólki úr dreifbýli í þéttbýli. Því er víða fámenni til sveita í landstórum sveitarfélögum. Á móti kemur að æ fleiri þéttbýlisbúar vilja eiga afdrep í sveitinni. Það kallar á umfangsmiklar frístundabyggðir og jafnvel búgarðabyggðir, sem þarf að koma fyrir. Nýjum landeigendum fylgja jafnframt oft breytingar á viðhorfum.

Þetta eru nokkrar helstu áskoranirnar sem skipulag landnotkunar þarf að taka til, en jafnframt mál sem mörg hver skarast og þar sem hagsmunir eru mjög ólíkir og alls ekki alltaf samrýmanlegir. Um það er auðvitað eðlilegt að tekist sé á í samfélaginu, en jafnframt þarf að tryggja að til sé gott regluverk til að skipuleggja landnotkun til framtíðar. Það er verkefni umhverfisráðuneytisins að leiða.

Í grunninn snýst skipulag landnotkunar í einföldu máli um ákvarðanir um „hvað er gert á hverjum stað – en jafnframt hver hefur vald til að taka slíkar ákvarðanir“.

Í þeirri umræðu takast á þrjú stig.

Í fyrsta lagi er land í eigu einhvers. Stór hluti lands er í einkaeigu, einnig er ríkið verulega stór landeigandi og eins eru sveitarfélög eigendur töluverðs lands. Eignarréttur og réttur til beitingar hans er því afar mikilvægur í allri umræðu um skipulag landnotkunar.

Í öðru lagi fara sveitarfélög landsins með skipulagsgerð innan sinnar lögsögu, þar sem þau leitast við að skilgreina einstaka flokka landnotkunar m.a. með gerð Aðalskipulags, sem þau vinna samkvæmt settum reglum.

Og í þriðja lagi leggur ríkisvaldið upp með ýmis mál sem tengjast stefnu og vilja í skipulagi landnotkunar, sem það vil tryggja að geta komið í framkvæmd. Það geta verið áherslur í atvinnumálum, náttúruverndarmálum eða samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt.

Að sjálfsögðu getur orðið ágreiningur milli þessara þriggja þátta. Um það eru fjölmörg dæmi. Einstaklingar sem eiga land leggja upp með hugmyndir um landnotkun sem samrýmast ekki skipulagsáformum sveitarfélagsins. Sveitarfélagið telur sig ekki fá fullnægjandi upplýsingar um vilja ríkisvaldsins í einstökum málaflokkum, og ríkisvaldið telur sig ekki hafa fullnægjandi tæki til að samhæfa áætlanir á landsvísu til að framfylgja málum sem ganga þvert á mörk fleiri sveitarfélaga.

Því þarf stöðugt að huga að fyrirkomulagi á skipulagi landnotkunar þannig að hægt sé að takast á við þessi flóknu viðfangsefni.

Það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að vinna að bættu skipulagi landnotkunar meðal annars með endurbótum á skipulagslögum. Frumvarp til skipulagslaga verður lagt fram á Alþingi, sem nú er að koma saman. Þar verður meðal annars kveðið á um landsskipulagsstefnu, sem mótuð verður í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, þar sem litið verði til landsins sem einnar heildar. Menn hafa haft misjafnar skoðanir á því hvernig best verður að slíkri landskipulagsstefnu staðið, en fulltrúar ríkis og sveitarfélaga hafa rætt þau mál sín á milli og tel ég að við höfum náð þar góðri niðurstöðu.

Því má hins vegar ekki gleyma að andinn í gildandi skipulagslögum snýst um sjálfbæra þróun og heildarsýn hvað varðar landnotkun. Þó svo að skerpa þurfi á skipulagslöggjöfinni þá er vilji löggjafans skýr hvað þetta varðar. Markmið núgildandi skipulags- og byggingarlaga er m.a. að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og kom í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þó svo að verið sé að endurskoða lögin þá er þessi vilji löggjafans til staðar.

Góðir gestir,

Ég hef stiklað á stóru um ýmis mál sem tengjast skipulag landnotkunar.

Eins og ég nefndi í upphafi er land takmörkuð auðlind. Það er því algert aðalatriði að skipulag landnotkunar byggi á þeirri grunnforsendu að landnýting sé sjálfbær og taki fyllsta tillit til stefnu um sjálfbæra þróunar. Annars er slíkt skipulag til lítils.

Landnýting hefur því miður ekki öll verið sjálfbær hér. Í gegnum aldirnar var gengið of mikið á gróðurauðlindir landsins, skógum eytt, votlendi ræst fram og gríðarlega stór hluti jarðvegsauðlindarinnar fauk, og fýkur enn, á haf út í kjölfar ósjálfbærrar nýtingar. Sem betur fer hefur miklu af þessu verið snúið til betri vegar, en betur má ef duga skal. Hluti af þessum vanda má rekja til skipulags landnotkunar, þar sem til dæmis er enn verið beita á gróðurvana svæði þrátt fyrir að til séu önnur svæði sem þyldu þá beit auðveldlega. Sama gæti gerst með margar náttúruperlur okkar, ef ekki verður unnið frekar að skipulagningu og uppbyggingu á móttöku ferðamanna. Ísland er eitt fárra landa þar sem enn má finna óbyggð víðerni og æ fleiri landsmenn og útlendingar líta á slík víðerni og öræfakyrrðina sem auðlind. Óheft umferð vélknúinna ökutækja í óbyggðum raskar þeirri auðlind og leiðir til landspjalla; því er umhverfisráðuneytið nú í samstarfi við sveitarfélögin og í samráði við aðila innan og utan stjórnsýslunnar að kortleggja leyfilega vegslóða og setja inn á skipulag.

Það er megináhersla umhverfisráðuneytisins að skipulag landnotkunar sé með þeim hætti að landnýting sé sjálfbær, þannig að landinu og eiginleikum þess sé ekki spillt fyrir komandi kynslóðum. Sjálfbær þróun þarf því að vera sameiginleg leiðarstjarna ykkar sem fjallið um einstaka þætti landnotkunar. Þetta kann að hljóma eins og einhver klisja sem þið hér inni teljið sjálfsagða, en að fenginni reynslu vil ég ítreka mikilvægi þessara hugsunar.

Einnig vil ég nefna mikilvægi þess að aðgengi almennings að landinu sé tryggt, líkt og við þekkjum frá norrænu löndunum þar sem almannaréttur er tryggður. Hin leiðin í því sem við þekkjum til dæmis frá Bretlandseyjum og kristallast ágætlega í þessu enska orðatiltæki „good fences make good neighbours“ – „góðar girðingar skapa góða nágranna“ – er mér ekki að skapi. Þannig á ekki að halda á skipulagi landnotkunar. Nú stendur einmitt yfir vinna við endurskoðun náttúruverndarlaga þar sem brýnt er að réttur almennings til að fara um landið, óháð eignarhaldi, verði áfram tryggður.

Ágætu gestir, ég vil hér í lokin aftur þakka Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi og Háskólafélagi Suðurlands fyrir frumkvæðið að þessari ráðstefnu. Um leið og þessi ráðstefna er sett, óska ykkur öllum góðs árangurs í viðræðum hér í dag og hlakka til að fá að heyra hverjar niðurstöður ykkar verða.

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira