Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. maí 2010 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um umhverfismál á Akureyri

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi sem haldið var á Akureyri 5. maí 2010 undir yfirskriftinni Margt smátt gerir eitt stórt - Hugsaðu hnattrænt og framkvæmdu heima fyrir.

Ágætu fundarkonur og –menn

Ég vil byrja á því að þakka Norrænu upplýsingaskrifstofunni og Akureyrarbæ fyrir það góða framtak að halda þetta málþing. Það sem rætt verður hér í dag er tvímælalaust lykilatriði hvað varðar umhverfismál, - það er að tengja saman umhverfisþætti sem varða alla jarðarbúa við okkar eigin athafnir og nánasta umhverfi, og þá möguleika sem við höfum.

Það fer vel á því að halda málþing af þessu tagi einmitt á Akureyri, því hér eru öflug alþjóðleg tengsl á sviði umhverfismála. Auk norrænu upplýsingaskrifstofunnar má nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem vinnur að því að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum, stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi, skrifstofu CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) sem hefur umsjón með framkvæmd samþykktar sem átta norðurskautsríki gerðu með sér um vernd lífríkis á norðurslóðum og skrifstofu Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum (PAME - The Protection of the Arctic Marine Environment Working Group).

Mörg mikilvægustu verkefnin sem leysa þarf á sviði umhverfismála snúa að mannkyninu í heild. Lausn þessara mála verður aðeins fengin með alþjóðlegum samningum þar sem ráðist er að vandanum með samstilltu átaki.

Montrealbókunin um verndun ósónlagsins er eitt besta dæmið um hvernig hægt hefur verið leysa vandamál af þessu tagi. Haldið var upp á tuttugu ára afmæli bókunarinnar fyrir þremur árum. Frá því hún var undirrituð hefur tekist, með þátttöku yfir 190 ríkja, að draga úr framleiðslu ósóneyðandi efna um 95% og er því nú spáð að ósónlagið nái fyrri styrk sínum á árabilinu 2050 – 2070.

Þessi góði árangur og árangur sem náðst hefur með öðrum alþjóðlegum samningum t.d. um loftborna mengun sem berst milli landa, þrávirk lífræn efni og meðferð og flutning spilliefna hefur auðvitað ýtt undir bjartsýni um að takast megi einnig að ná samkomulagi um að leysa stærsta umhverfisvandamálið hingað til, þ.e. að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Hér er vissulega um risavaxið verkefni að ræða því að til þess að ná þeim árangri sem vísindin segja okkur að sé nauðsynlegur verður að ráðast í stórfelldar breytingar, sértaklega á því hvernig orka er framleidd og notuð. Þessu fylgir mikill kostnaður en í því felast jafnframt mikil tækifæri. Á hinn bóginn liggur fyrir að með því að leggja fram fé og krafta í verkefnið nú, má komast hjá mun meiri útgjöldum og erfiðara verkefni síðarmeir.

Mikið hefur verið rætt og ritað um að samningaviðræðurnar hafi strandað í Kaupmannahöfn í desember. Það fór ekki framhjá neinum að mikið var lagt undir og væntingar til fundarins voru miklar. Eftir að samþykkt var í lok árs 2007 að ljúka samningaferlinu á tveimur árum, komust loftslagsmál á dagskrá allra helstu funda þjóðarleiðtoga heimsins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki Moon, lagði sérstakan metnað í að vinna þessu máli brautargengi.

Mikið var fjallað um loftslagsmál í fjölmiðlum og stundum tekist hart á. Ljóst er einnig að aðilar sem telja hag sínum best borgið með því að hindra framgang málsins beittu sér til að spilla fyrir samningaviðræðunum. Reynt var að varpa rýrð á vísindin þegar tölvuþrjótar brutust var inn í tölvukerfi háskólans í East-Anglia og tölvusamskipti milli loftslagsvísindamanna voru gerð opinber. Einnig var blásin upp villa sem fannst í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og reynt að nota hana til þess að gera starf nefndarinnar tortryggilegt. Með því að leka til fjölmiðla, við upphaf Kaupmannahafnarfundarins, drögum að samningstexta sem dreift var til skoðunar í þröngum hópi var reynt að ala á tortryggni milli samningsaðila.

Þetta sýnir okkur hve hér er á margan hátt um erfitt pólitískt verkefni að ræða. Ákvarðanirnar sem taka þarf byggjast á niðurstöðum vísindalegra rannsókna og það er ekki auðvelt fyrir óinnvígða að skilja þessar niðurstöður að fullu og draga eigin ályktanir. Við, bæði almenningur og þeir sem veljast til að taka ákvarðanir, verðum því að geta treyst þeim túlkunum sem vísindamennirnir leggja fram.

Í annan stað þurfa ríki, sem búa við ákaflega ólíkar aðstæður, að ná samkomulagi um fjölmörg mál m.a. samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, fjármögnun og tækniþróun, aðlögun að loftslagbreytingum og efnahagsþróun í þróunarríkjum sem leiðir ekki til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Mikilvægi loftslagsmálanna endurspeglast vel í því að til Kaupmannahafnarfundarins komu yfir eitt hundrað þjóðarleiðtogar. Þótt ekki hafi náðst fram lagalega bindandi samningstexti eins og vonir stóðu til þá var gengið frá svokölluðu Kaupmannahafnarsamkomulagi og hafa nú yfir 120 ríki lýst sig samþykk því.

Þótt deilt sé um þýðingu samkomulagsins er þar tekið á flestum þeim meginþáttum sem lúta að væntanlegum samningi, þar á meðal að aðgerðir miðist við að hitastig jarðar hækki að jafnaði ekki meira en 2°C, aðlögun að loftslagsbreytingum, niðurskurði í losun gróðurhúsalofttegunda, skógareyðingu og fjármögnun.

Samningaviðræður eru nú að hefjast á nýjan leik innan vébanda Sameinuðu þjóðanna og hafa verið skipulagðir fjórir samningafundir á þessu ári. Vonast er til að verulegum áfanga verði náð á næsta aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í vetur og að hægt verði að ganga frá samningi eigi síðar en í lok næsta árs.

Með samningum um Evrópska efnahagssvæðið verður Ísland þátttakandi í Evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir árið 2012, þegar flugstarfsemi verður felld undir kerfið. Ári seinna munu íslensk stóriðjufyrirtæki einnig falla undir kerfið. Þá koma þessi íslensku fyrirtæki til með að standa jafnfætis öðrum evrópskum fyrirtækjum og lúta þeim lögmálum sem gilda innan markaðskerfisins. Önnur almenn losun frá Íslandi stendur fyrir utan þetta kerfi.

Til þess að afstýra fyrirsjáanlegum vandamálum sem þessi tvískipting losunar frá Íslandi hefði gagnvart Kyoto-bókuninni, hafði ég frumkvæði að viðræðum við Evrópusambandið um sameiginlegar skuldbindingar Íslands og ESB. Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í desember ákvörðun um að fela framkvæmdastjórn ESB að leggja fram tillögu að samningi við Ísland um sameiginlega framkvæmd á markmiðum nýs loftslagssamnings, sem verði fullgiltur jafnhliða nýjum alþjóðlegum loftslagssamningi.

Með sameiginlegum skuldbindingum Íslands og ESB gagnvart nýju alþjóðasamkomulagi eftir 2012 er komið í veg fyrir að Ísland þurfa að taka á sig tvíþættar skuldbindingar, í gegnum alþjóðlegt samkomulag annars vegar og EES-samninginn hins vegar, og sömu reglur munu gilda fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju á Íslandi og í öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu. Í ljósi þessa var á Kaupmannahafnarráðstefnunni sett fram markmið Íslands um allt að 30% niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda að því gefnu að samkomulag næðist um sameiginlegar skuldbindingar Íslands og ESB.

Síðasta sumar skipaði ég verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Verkefnastjórnin vinnur nú að því að ljúka gerð tillagna um aðgerðir. Drög að tillögunum voru kynnt í desember og voru þau birt á heimasíðu ráðuneytisins. Unnið hafði verið að undirbúningi þessa máls með gerð sérfræðingaskýrslu, sem kom út í fyrra, um möguleika á að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi.

Verkefnisstjórnin hefur kynnt átta meginaðgerðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem hún leggur til að verði viðfangsefni stjórnvalda á komandi árum. Samgöngur eru meðal þeirra þátta þar sem við getum tekið okkur verulega á m.a. með því að efla almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngu. Hvetja má til notkunar eyðslugrennri ökutækja með breytingum á sköttum og gjöldum á bíla og eldsneyti. Við eigum mikla möguleika á að binda kolefni með aukinni skógrækt og landgræðslu, og draga úr útstreymi með endurheimt votlendis. Möguleikar finnast einnig á samdrætti í útstreymi frá fiskiskipaflotanum og fiskmjölsverksmiðjum. Hér koma sveitarfélögin til með að gegna mikilvægu hlutverki.

Við tökum sameiginlega á með öðrum þjóðum um að leysa vandann og koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar gróðurhúsaáhrifa. Það er hins vegar alveg ljóst að þegar alþjóðasamningar eru gerðir verða vera skýr tengsl milli orðs og athafna. Það er nefnilega þannig að án efnda heima í héraði verður árangurinn af samningagerðinni lítill.

Takk fyrir

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira