Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 2012 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2012

 

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var 22. mars 2012.

 

Ágæta starfsfólk Veðurstofu Íslands,

Góðir gestir,

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ykkur hér í dag við upphaf ársfundar Veðurstofunnar. Veðurstofan er ein stærsta og öflugasta stofnun umhverfisráðuneytisins og hefur um langt árabil gegnt þýðingarmiklu hlutverki í samfélaginu. Veðurþjónustan hefur í rúm 90 ár verið mikilvægur hlekkur í gömlu grundallaratvinnugreinunum sjávarútvegi og landbúnaði, en hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna í seinni tíð fyrir vaxtarsprotann sem ferðaþjónusta er orðin og aukna útivist landsmanna.

En þessi stofnun hefur mun víðtækara hlutverk en nafnið gefur til kynna og eru þær áherslur sem hafa komið inn í starf Veðurstofunnar í seinni tíð ekki síður mikilvægar fyrir samfélagið. Aukin meðvitund um hættur af margskonar náttúruvá - hvort sem um er að ræða snjóflóð, jarðskjálfta eða eldgos, flóð eða aftakaveður - hefur breytt forgangsröðun hjá Veðurstofunni. Þá er ein áskorun umhverfismála samtímans daglegt viðfangsefni Veðurstofunnar, en þar á ég að sjálfsögðu við loftslagsbreytingar.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með auknu alþjóðlegu samstarfi Veðurstofunnar á undanförnum misserum, finna það traust sem starfsmenn stofnunarinnar hafa meðal erlendra samstarfsaðila og hvernig starf stofnunarinnar eflist með hverju nýju verkefni. Sá aukni áhugi fjölmargra alþjóðlegra stofnana og rannsóknaraðila að vinna með Veðurstofunni að rannsóknarverkefnum eða hreinlega að fela henni að annast verkefni upp á eigin spýtur er augljós vísbending um styrk Veðurstofunnar á sínum fræðasviðum og þann mikla mannauð sem stofnunin býr yfir. Þessi útrás, ef ég má nota það orð, er án nokkurs efa mjög góð fyrir stofnunina og ég er sannfærð um að hún hefur hjálpað ykkur á þeim erfiðu tímum samdráttar í ríkisrekstrinum sem við höfum þurft að horfast í augu við undanfarin þrjú ár.

Um þetta leyti á síðasta ári kynnti Veðurstofan umhverfisráðuneytinu tillögu að umfangsmiklu verkefni sem snýr að því að vinna heildstætt hættumat fyrir íslensk eldfjöll. Stofnuninni hafði þá verið falið að vinna fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina sviðsmyndir og meta möguleg áhrif eldgosa á Íslandi á alþjóðlegt flug, en áhugi var fyrir því innan stofnunarinnar að útvíkka þetta mat til þess að skoða jafnframt áhrif á íslenskt samfélag. Til þess að fjármagna þessa viðbót við alþjóðlega verkefnið voru nýlega gerðar breytingar á lögum varðandi Ofanflóðasjóð, sem gera sjóðnum kleift að styrkja verkefnið næstu þrjú árin og er því nú ekkert til fyrirstöðu að hefja verkefnið af þeim metnaði sem lagt var til á síðasta ári. Ljóst er að verkefninu mun ekki ljúka á þessum þremur árum sem Ofanflóðasjóði er heimilt að styrkja það, en þá verðum við vonandi komin í þá stöðu að gera okkur fulla grein fyrir umfangi þess og geta tekið ákvörðun um framhaldið.

Ágætu gestir,

Nú er farið að styttast í annan endann á vetrinum, við finnum nánast ilminn af vorinu handan við hornið. Við bindum vonir við að slíkt hið sama gildi um ríkisbúskapinn, þar má sannarlega fara að bregða til betri tíðar eftir langvarandi umhleypingar. Ég vil þakka það góða verk sem starfsfólk Veðurstofunnar hefur skilað á síðustu árum – árum sem ekki einasta einkenndust af bágri stöðu ríkissjóðs, heldur og einhverjum áhrifamestu eldsumbrotum í seinni tíð. Störf ykkar við þessar aðstæður eru ekki einungis ykkur sjálfum til sóma, heldur okkur öllum sem finnst við eiga eitthvað í þessum heimilisvini landsmanna til margra áratuga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira