Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. apríl 2012 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Landvarðafélagsins 2012

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf ársfundar Landvarðafélagsins sem haldinn var 10. apríl 2012.

 

Ágætu landverðir,

Það er mér mikið ánægjuefni að vera gestur ykkar hér í kvöld, ræða við ykkur um helstu verkefni sem standa fyrir dyrum í umhverfisráðuneytinu og stofnunum þess.

Áður en lengra er haldið langar mig að fjalla um mikilvægi landvarðastarfsins fyrir náttúruvernd en ekki síður vegna mikilvægs fræðsluhlutverks – fræðslu fyrir börn og fullorðna. Ég tel það ekki aðeins mögulegt, heldur raunar bráðnauðsynlegt, að efla starf landvarða hér á landi og að landvarðastarfið verði metið að verðleikum á komandi árum. Landvarðastarfið er öðrum þræði mikilvægur liður í að byggja upp atvinnutækifæri á landsbyggðinni, en jafnframt ein sú besta leið sem við höfum til að standa vörð um náttúruna, sem verður því mikilvægara sem ferðamannastraumur eykst.

Eins og ykkur er kunnugt hefur heilsársstörfum landvarða fjölgað á síðari árum og eru starfsstöðvar náttúruverndar og landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar nú í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, á Ísafirði fyrir Hornstrandafriðland, í Mývatnssveit og í Vestmannaeyjum fyrir friðlandið í Surtsey. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru heilsársstarfsstöðvar í Mývatnssveit, í Jökulsárgljúfrum, á Skriðuklaustri, á Höfn, í Skaftafelli og á Kirkjubæjarklaustri. Þar að auki eru heilsársstörf í Þingvallaþjóðgarði.

Það þarf ekki að fræða ykkur um helstu hlutverk landvarða, en að mínu mati er sérstaklega mikilvægt það hlutverk ykkar að fræða almenning um mikilvægi og gildi náttúrunnar. Þetta er mikilvægur liður til að treysta tengsl manns og náttúru, nokkurs konar mótvægisaðgerð við þá fjarlægð sem hefur myndast á síðustu árum og áratugum – eitthvað sem mætti jafnvel ganga svo langt að kalla gjá milli lands og þjóðar. Þar eru landverðir miklir brúarsmiðir.

Þessi fjarlægð hefur vakið margan til umhugsunar, einn þeirra er blaðamaðurinn Richard Louv. Í bókinni Last Child in the Woods lýsir hann áhugaverðum kvilla nútímamannsins, sem væri afleiðing aukinnar þéttbýlismyndunar. Þennan kvilla nefndi hann náttúrubrest eða Nature Deficit Disorder, sem lýsir sér á eftirfarandi hátt: Náttúrubrestur lýsir áhrifum þess að hafa slitnað úr tengslum við náttúruna, sem hefur m.a. í för með sér að mannskepnan hefur tapað færni á að nýta öll skynfæri sín, athyglisbrestur eykst og veruleg aukning verður á ýmiskonar líkamlegum og andlegum krankleika.

Þó svo að náttúrubrestur sé ekki skilgreindur læknisfræðilegur krankleiki þá lýsir fyrirbærið ágætlega því ástandi sem við stöndum frammi fyrir og brýnt er að bregðast við.

Náttúran er í dag frekar hugmynd en raunveruleiki í hugum margra. Í auknu mæli er náttúra eitthvað sem horft er á – jafnvel aðeins í sjónvarpi eða í tölvuleikjum. Hún er neysluvara, ýmist í formi næringar eða fatnaðar – og þar er jafnvel virðisauki í merkimiðum þar sem má lesa „ekta náttúruleg bómull“. Flestir láta náttúruna sjálfa hins vegar afskiptalausa, eru sjaldan eða aldrei í beinu sambandi við náttúruna.

Þetta sambandsleysi hefur verið skoðað af kollegum ykkar á Bretlandi, en National Trust hafði þungar áhyggjur af því að Bretar – og sér í lagi yngsta kynslóðin – væru illa haldnir af náttúrubresti. Í nýútkominni skýrslu „Natural Childhood“ er dregið fram alvarlegt ástand, þar sem innivera er talin alvarlegt vandamál – nú verji Bretar mestum tíma sínum fyrir framan skjáinn, hvort sem er tölvur eða sjónvarp. Veruleg breyting hefur verið í þessa átt á síðustu árum – eða um 40% aukning á 10 ára tímabili. Foreldrar senda börn og unglinga ekki lengur út í búð, börnum er ekið eða þeim fylgt í og úr skóla og svo virðist sem foreldrar vakti börn sín meira en áður. Þannig sé umhverfi barnanna nánast bundið við heimilið, þar sem herbergi þeirra er miðja heimsmyndarinnar – heimsmyndar sem þau kynnast á skjánum.

Minni útivera í náttúrulegu umhverfi hefur leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála á Bretlandi og má þar m.a. nefna offituvandamálið. Áætlað er, ef ekki verður breyting á þessari alvarlegu þróun, að helmingur allra fullorðinna og fjórðungur allra barna muni eiga við offituvandamál að stríða árið 2050. Einnig hefur verið dregin fram sú staðreynd að börn þekkja ekki algengustu fugla eða plöntur í nágrenni sínu.

Vonandi er þetta ekki lýsing á ástandinu hér á landi, en augljóst er að við þurfum að gera átak í fræðslu á sviði náttúru og náttúruverndar.

„Að sjá til himins, að sjá grósku lífríkis er grundvallarþörf og sameiginleg öllum mönnum,“ er haft eftir Octavia Hill sem fyrir 100 árum tók þátt í að stofna National Trust. Ef markmið okkar er að skapa betra umhverfi – hvort heldur er fyrir lífríkið í heild eða manninn sérstaklega – er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að virðing fyrir náttúrunni sem byggir á kynnum af henni unga aldri er grunnur að velferð framtíðar. Því er brýnt, svo vitnað sé í bók Richard Louv, að ef við ætlum að tryggja umhverfishyggju og vernda umhverfið að vernda „barnið í náttúrunni“ – tegund sem er í útrýmingarhættu.

Hér hafa landverðir lykilhlutverki að gegna. Landverðir þurfa að ná almennings, en sérstaklega til barna og ungmenna, hvort heldur er innan verndarsvæða eða utan þeirra. Þá er mikilvægt að mínu mati að heilsárslandverðir treysti samstarf og tengsl við heimamenn og taki þátt í að byggja upp ábyrgð samfélagsins á að vernda náttúrulegt umhverfi og virðingu fyrir umhverfi sínu og heilsu.

Ég vil að lokum segja ykkur frá því sem helst er á döfinni á stjórnarheimilinu þessa dagana.

Í fyrsta lagi er ánægjulegt að segja frá því, að fyrir þingi liggur tillaga til þingsályktun um breytta skipan stjórnarráðsins, sem felst í því að setja á laggirnar eitt atvinnuvegaráðuneyti og að koma á nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þetta gæti orðið eitt stærsta skref ríkisstjórnarinnar til að efla stöðu umhverfis- og náttúruverndarmála á kjörtímabilinu, að lyfta umhverfissjónarmiðum upp á þann stall sem þeim sannarlega ber og að til þeirra sé litið miklu víðar.

Þá er vinna í gangi við heildarendurskoðun á lögum um náttúruvernd, sem munu m.a. byggja á hvítbók sem kynnt var síðastliðið haust og umræðum á síðasta umhverfisþingi. Miðað er við að frumvarpsdrög líti dagsins ljós snemmsumars – og ég vona að viðstaddir geti gefið sér tíma frá landvörslunni til að skila inn athugasemdum, sem hægt verður að nota til að styrkja frumvarpið enn frekar áður en það verður lagt fyrir þingið í haust.

Svo hefur rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verið lögð fyrir þingið, en þar er sannarlega um tímamót að ræða. Forsöguna þekkið þið jafn vel og ég – um hina eilífu togstreitu sem hefur ríkt varðandi blessað landið okkar – en vonandi er núna hægt að stíga skref í átt til sátta. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að sérstök fjárveiting fylgi til Umhverfisstofnunar, svo hægt verði að hefja friðlýsingarferli þeirra svæða sem fara í verndarflokk. Með því gæti friðlýstum náttúruperlum fjölgað hratt á næstu árum.

Og að lokum er rétt að minnast á það sem líklegast brennur mest á þeim sem hér sitja; hugmyndum um að sameina yfirstjórn allra þjóðgarða og friðlýstra svæða í einni stofnun. Það er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar þar sem gert er ráð fyrir að rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þjóðgarðanna, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land. Það blasir því við að ekki sé æskilegt að þeir þrír þjóðgarðar sem stofnaðir hafa verið hér á landi heyri undir þrjár stofnanir og tvö ráðuneyti.

Ykkar hlutverk og verkefni er ærið. Náttúruvernd og -varsla er hluti af því að tryggja nauðsynlega viðhorfsbreytingu sem verður til þess að skipa náttúrunni þann sess sem henni ber og um leið stuðla að réttri forgangsröðun á nýrri öld.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira