Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun grænna daga HÍ 2013

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við setningu grænna daga Háskóla Íslands þann 18. mars 2013.

 

Ágætu gestir,

það er mér mikil ánægja að vera boðin á setningarathöfn grænna daga.  Þetta er mikilvægur vettvangur og á Gaia, félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, hrós skilið fyrir að auka vitund um umhverfismál innan háskólasamfélagsins og stuðla að samvinnu þeirra sem tengjast þessum málaflokki.  Í ár verður sjónum sérstaklega beint að því hvernig sjálfbærnihugtakið getur nýst í hönnun og listum, bæði hér á landi og víðsvegar um heim.  Það er ánægjulegt hlúð sé að tengingunni á milli skapandi greina og umhverfismála.

Sífellt verður ljósara að sjálfbær þróun er eina leiðin til að gera mannskepnunni kleift lifað áfram hér á jörð. Lykilatriði í því er að skipta um neyslumynstur, að efla sjálfbæra framleiðslu og neyslu – en kannski umfram allt að draga úr neyslu. Ef við ætlum áfram að tryggja velsæld, en snúa af þeirri braut að því þurfi að fylgja aukin ásókn í náttúruauðlindir og álag á umhverfið, þá er ekki hægt að halda uppteknum hætti.  Við búum í neyslusamfélagi. Jafnvel mætti segja að við byggjum í ofgnægtar- og ofneyslusamfélagi. Við slíkar aðstæður skiptir hönnun þess sem við neytum gríðarlegu máli, hönnun vöru hefur bein áhrif á umhverfi okkar.  Hönnunin er til að mynda eitt af því sem  stýrir því hversu lengi vara endist, hvenær hún verður að úrgangi og hvernig sá úrgangur er.  Hentar úrgangurinn t.d. til endurvinnslu eða annarrar meðhöndlunar?  Inniheldur hann skaðleg efni sem hafa neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu?  Með vistvænni vöruþróun og skýrri lífsferilshugsun hægt að draga úr hráefnisþörf og orkuþörf viðkomandi vöru í framleiðslu og notkun, auka endingu, og búa svo um hnúta að auðvelt sé að aðskilja einstaka hluta vörunnar og einstök efni í henni til að auðvelda endurvinnslu þegar varan hefur lokið sínu hlutverki. Allt eru þetta lóð á vogarskálar sjálfbærrar þróunar.  Á undanförnum árum hefur mikið breyst til hins betra í vistvænni framleiðslu. Fyrirtæki hafa í síauknum mæli tekið upp hreinni framleiðslutækni og eru í stöðugri leit að tækifærum til úrbóta. Hér stýrir hugsjónin ekki ein för, heldur er hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir á sama tíma og dregið er úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Eitt af mikilvægustu tækjunum í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun er þekking. Umhverfisfræðsla er nauðsynleg til að hægt sé að auka hlut sjálfbærrar neyslu, en jafnframt er mikilvægt að upplýsingar séu samræmdar, einfaldar og skýrar. Það er mikilvægt að neytendur geti á einfaldan hátt tileinkað sér sjálfbæra neyslu og lífsstíl.  Í þessu skyni hefur núverandi ríkisstjórn lagt ríka áherslu á að efla Norræna umhverfismerkið Svaninn, auk þess sem evrópska umhverfismerkið Blómið er að hasla sér völl.   Umhverfismerkingar eins og Svanurinn gera neytendum kleift að treysta því að vara sem þeir velji standist ströng umhverfisviðmið. Mikil þróun er á þessu sviði og unnið því að útbúa umhverfisviðmið fyrir sífellt fleiri vöruflokka, svo sem byggingar, samgöngur, tómstundir og ferðaþjónustu.   Með aukinni áherslu á vistvæn opinber innkaup er hægt að nota stærð hins opinbera sem kaupanda á markaðnum til að efla sjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Góðir gestir,
Hægt er að draga lausnina á flestum umhverfisvanda samtímans saman í einfalt markmið: Við þurfum að minnka neyslu og við þurfum að gera hana grænni. Því miður virðist leiðin að þessu markmiði ætla að vera allt annað en einföld.

Á síðustu áratugum hefur mannkynið gengið svo á auðlindir jarðar að til vandræða horfir.  Rætt er um að við þurfum rúmlega eina og hálfa jörð til að framfleyta mannkyninu eins og staðan er í dag, en þær væru talsvert fleiri ef allir væru jafn neyslufrekir og við Íslendingar. Þetta heitir einfaldlega hallarekstur, það sem upp á vantar er tekið að láni frá komandi kynslóðum með því að ganga auðlindir sem endurnýjast ekki og rýra umhverfisgæði til framtíðar. Við þekkjum of vel birtingarmyndir þessarar þróunar. Þannig eiga athafnir okkar þátt í hlýnun loftslags í heiminum með tilheyrandi ógnum. Líffræðilegri fjölbreytni hrakar og notkun efna í iðnaði og í almennum neytendavörum hafa áhrif á heilsu fólks langt umfram það sem menn sáu fyrir.

Lengi vel töluðu umhverfisverndar fyrir daufum eyrum hjá þeim sem héldu um stjórnartaumana í ríkisstjórnum og hjá alþjóðastofnunum. Það er óhætt að segja að öldin sé önnur. Nú virðast flestir sammála um að græna hagkerfið sé leiðin fram á við, þó menn greini nokkuð á um hvað felist nákvæmlega í því. En þetta var skýrt stef á Ríó+20 á síðasta ári, og hefur komið sterkt fram í skýrslum og stefnumótun hjá OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum – sem er kannski ekki hefð fyrir að líta á sem bandamenn í umhverfismálum.

Þessa hugarfarsbreytingu má líka sjá í því að í mars 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun um eflingu græns hagkerfis á Íslandi með öllum greiddum atkvæðum, þvert á alla flokka. Slíka eindregna samstöðu sjáum við sjaldan inni á þingi. Forsætisráðherra hefur stýrt gerð aðgerðaáætlunar til að hrinda í framkvæmd þeim 50 tillögum sem eru hluti af þingsályktuninni. Stefna Íslands um eflingu græna hagkerfisins er raunhæf og afmörkuð aðgerð – mikilvægt skref í áttina að umhverfisvænni lífsháttum.
Gaia hefur lagt sitt af mörkum og stendur í sjötta sinn að grænum dögum. Háskólinn verður grænni alla þessa viku og ljóst er að dagskráin er fjölbreytt og spennandi. Þetta hefur áhrif, enda er Háskóli Íslands einn stærsti vinnustaður landsins, og ég veit að hér verður fræjum sáð sem munu leiða til aukinnar umhverfisvitundar og þannig bæta umhverfið um ókomna tíð.

Ég segi græna daga Háskóla Íslands hér með setta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira