Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. júní 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi ÍSOR 2016

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Íslenskra orkurannsókna þann 2. júní 2016.

 

Ágætu fundargestir,

Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi ÍSOR, í upphafi sumars og í lok þrettánda starfsárs stofnunarinnar.

ÍSOR er ein af fremstu stofnunum Íslands á sviði jarðvísinda og jarðhitafræða og hefur haslað sér völl sem leiðandi fyrirtæki í hagnýtingu jarðhita á heimsvísu.

Skemmtilegt dæmi þessa er að fyrr í vikunni átti ég orðastað við skrifstofustjóra í ráðuneyti mínu sem var nýkominn heim úr ferð til Úganda. Þar rakst hann einmitt á starfsmann ÍSOR, Þráin Friðriksson, í grillboði í sendiráði Íslands í Kampala! Þráinn var þar staddur sem sendifulltrúi Alþjóðabankans að kynna sér aðstæður í landinu og víðar í Afríku. ÍSOR hefur lánað Alþjóðabankanum Þráin í eitt ár til að aðstoða við uppbyggingu þekkingar á jarðhitafræðum innan bankans og sýnir það betur en margt annað hve virt stofnun ÍSOR er á sínu sviði.

Það eru án efa ekki mörg fyrirtæki í heiminum sem veita jafn víðtæka þjónustu og ÍSOR gerir og áunnið sér eins gott orðspor og traust sem jafnframt er mikilvægasta eign hvers fyrirtækis eða stofnunar.

Góðir gestir,

Ísland er land jarðvarmans en jarðfræði landsins og jarðhitinn á stóran þátt í mótun sjálfsmyndar okkar. Í kringum 80% þeirra ferðamanna sem flykkjast til landsins koma hingað til að skoða náttúruna og njóta hennar.

Við heimafólkið höfum lengi notað jarðhitann til að auðvelda okkur lífið og þeir sem muna aðeins lengra en aftur fyrir miðja síðustu öld átta sig á þeim verðmætum sem jarðvarminn hefur skapað.

– í gamla daga var helst að nefna að hverir væru notaðir til að sjóða mat og baka brauð, en í dag njótum við þess helst að soðna hægt og rólega í heitu pottunum!  

Hins vegar gætu sóknarfæri framtíðarinnar ef til vill legið meira í að nýta jarðhita til heilsu- og vellíðunarferðaþjónustu og samþætta við íslenska náttúru.

Rekstur heitu pottanna og annarra hlýrra lífsgæða frá jarðhita, svo sem hitaveitu krefst mikillar þekkingar og þrotlausra rannsókna sem margar eiga rætur sínar í starfi ÍSOR . Þar hefur í gegnum tíðina helsta jarðvísindafólk landsins unnið og er á engan hallað þegar ég nefni sérstaklega Rögnu Karlsdóttur, verkfræðing, hér í dag. Ragna er einn mesti reynslubolti Íslands, og þó víðar væri leitað, á sviði jarðhitafræða og jarðhitavinnslu og tilheyrir hópi brautryðjenda í grunnrannsóknum.

Hún var heiðruð af alþjóðlegum samtökum kvenna í jarðhita fyrir störf sín á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í apríl síðastliðnum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að óska Rögnu hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.

Önnur rós í hnappagat ÍSOR á sl. ári er gríðarlega gott gengi stofnunarinnar í styrkjaumsóknum til rannsóknaáætlunar Evrópusambandsins. Það verður að teljast framúrskarandi árangur að fjórar af fimm umsóknum voru samþykktar. Þetta góða gengi endurspeglar afar mikil gæði þeirra rannsókna sem unnar eru og sterka alþjóðlega stöðu stofnunarinnar, en alls eru þátttakendur í verkefnunum frá 13 Evrópulöndum.

Það er ómetanlegt að fá slík verkefni sem þessi hingað heim til að efla samkeppnishæfni og viðhalda fjölbreyttri þekkingu innan mannauðs ÍSOR. Án efa munu rannsóknirnar gefa ÍSOR byr undir báða vængi til að styrkja sig enn frekar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og efla þar með helsta vaxtarbrodd starfseminnar.

Þekking á náttúruauðlindum landsins er grundvallaþáttur til að tryggja sjálfbæra nýtingu þess. Í ráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á spennandi verkefni þar sem upplýsingar um auðlindir, sem eru til hjá stofnunum, eru dregnar saman, en slíkt er gert nú í fyrsta skipti.

Slík þekking gefur tækifæri á að innleiða bókhald yfir stöðu náttúruauðlinda okkar.

Til langframa þarf einnig að huga betur að rannsóknum og eflingu á þekkingu jarðrænna auðlinda til að geta tekið ákvarðanir um vernd og nýtingu þeirra og hlúð að þekkingu hér innanlands.

Langar mig að nefna að eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég tók við þessu starfi var að taka á móti skýrslu stýrihóps um aukið samstarf stofnana um rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands. Framtíðarsýnin í samræmi við stýrihópinn er að leggja áherslu á uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða sem nýtist samfélaginu með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi.

Gott fólk,

Framundan eru tímar mikilla breytinga og sóknarfæri til nýsköpunar. Undanfarin 200 ár eða svo hefur mannkynið brennt jarðefnaeldsneyti til að knýja áfram mestu framfarir í tækniþróun í gjörvallri mannkynssögunni. Þjóðir heims hafa ákveðið að hverfa af þeirri braut og leita nýrra leiða til að skipta yfir í endurnýjanlega orku.

Jarðhiti er einn þessara umhverfisvænu orkugjafa, en við nýtingu hans til raforkuvinnslu losnar 19 sinnum minna magn af gróðurhúsalofttegundum en við hefðbundna raforkuvinnslu úr jarðefnaeldsneyti.

Sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er til þriggja ára er ætlað að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum til að raunverulegum árangri verði náð til að minnka nettólosun. Verkefnin sem eru 16 talsins eru fjölbreytt, stuðla að samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, ýta undir nýsköpun og loftslagsvænar lausnir.

Til mikils er að vinna fyrir bæði okkur Íslendinga og þjóðir heims að nýta jarðhitasvæði meira en orðið er, til orkuframleiðslu í framtíðinni.

Þetta vita fleiri en við og á Parísarfundinum átti ég gott samtal við Madam Segolene Royal, ráðherra vistkerfa, umhverfis og sjálfbærrar þróunar í frönsku ríkisstjórninni, sem er hughrifin af jarðvarmanum og hefur haft forgöngu um samstarf Frakka og Íslendinga á því sviði.

Skemmst er að minnast heimsóknar ráðherrans til Íslands í júlí í fyrra þar sem samstarf þjóðanna í loftslagsmálum var rætt.

Sjálfbær orka er lykilþáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fátækt. Ný heimsmarkmið hafa verið samþykkt og Parísarsamkomulagið undirritað í apríl sl. Hvorutveggja er til marks um það að alþjóðasamfélagið hefur í fyrsta skipti tekið höndum saman um sameiginlega sýn um þróun á næstu áratugum.

Upplifun mín á viðburðunum var að jarðhitavísindin væru mjög hátt skrifuð í heiminum og mér fannst nánast eins og jarðhitinn væri ein helsta von mannkynsins til að bæta umhverfið og draga úr loftslagsbreytingum af völdum orkuvinnslu. Jarðhiti er samkeppnishæf orka og hefur Ísland þekkingu fram að færa til þess að draga úr losun á heimsvísu.

Þetta kveikti óneitanlega neista í brjósti mér fyrir hönd þessarar frábæru stofnunar sem ÍSOR er, og stolt yfir því að svo framúrskarandi rannsóknastofnun á alþjóðlega mikilvægu sviði sé að finna hér á Íslandi.

Ég spái því að ÍSOR muni halda áfram að vaxa og blómstra nú á þessum tímum þegar miklar breytingar eru framundan í orkubúskap heimsins og óska henni alls velfarnaðar á þeirri vegferð.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira