Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2016

Ágæta starfsfólk og stjórn Úrvinnslusjóðs, góðir ársfundargestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Úrvinnslusjóðs.

Sehr geehrter Herr Schmitz. Herzlich willkommen nach Island.

Das ist uns eina Ehre Sie hier zu baben – und Ich bin sicher, dass Ihr Beitrag heute die Debatte über Abfallvermeidung und Kreislaufwirtschaft erfolgreich wird.

Á undanförnum árum hefur margt áunnist í meðhöndlun úrgangs á Íslandi. Endurvinnsla hefur aukist og dregið hefur úr urðun. Mikilvægt er einnig að huga að fræðslu og hvernig við getum nýtt hráefni og auðlindir betur.

Í raun þurfum við öll að breyta hugsunarhætti okkar og þróa samfélag sem hefur skilvirka auðlindanýtingu í fyrirrúmi og er þar enginn undanskilinn. Hönnuðir, framleiðendur, innflytjendur, smásalar og neytendur – allir þurfa að líta í eigin barm. Sama á við um stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög.

Í byrjun þessa árs kom út fyrsta stefna ráðherra um úrgangsforvarnir, „Saman gegn sóun“. Auk þess að fjalla um hvernig við drögum úr myndun úrgangs er tilgangur stefnunnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að draga úr hráefnisnotkun og að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Lokatakmarkið er að allar vörur sem eru framleiddar séu endurvinnanlegar til að tryggja hringrás auðlinda. Í stefnunni, sem gildir til 12 ára, er sérstök áhersla lögð á níu efnisflokka.

Í fyrsta lagi matvæli, þá plast frá árinu 2018, textíll frá 2020, raftæki frá 2022, og síðan grænar byggingar og pappír.

Matvæli og það að draga úr sóun er í forgangi nú til að tryggja eftirfylgni skýrslu starfshóps um matarsóun, sem kom út í apríl í fyrra. Þess má einnig geta að átak til að draga úr matarsóun er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, þar sem það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Unnið hefur verið að mörgum verkefnum tengdum matarsóun síðustu misserin; vefgáttin matarsóun.is hefur verið opnuð, unnið er að leiðbeiningum fyrir matvælaframleiðendur, matreiðslunámskeið, þar kennd eru handtök við betri nýtingu matar, hafa vakið lukku, viðhorf Íslendinga til matarsóunar hafa verið könnuð og Umhverfisstofnun hefur nýlega lokið við gerð ítarlegrar rannsóknar um matarsóun.

Niðurstöður þeirrar rannsóknar voru sláandi. Hver Íslendingur hendir 62 kg af mat á ári, þar af er 23 kg af nýtanlegum mat sóað. Þetta eru ótrúlegar tölur, en ljóst er að mikil tækifæri eru til að bæta úr á þessu sviði.

Þá eru áskoranir framundan við að draga úr notkun einnota plasts, en að undanförnu hefur staðið yfir vinna innan ráðuneytisins til að draga úr notkun þess. Umræðan um skaðsemi plasts hefur aukist meðal almennings þar sem það getur valdið neikvæðum áhrifum á heilsu og umhverfi. En þó lengi hafi verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plastsins í heiminum þá hefur þróunin, því miður verði þveröfug.

Plastið sem er víðsvegar í hafinu og umlykur okkur öll er alvarleg þróun. Við sem þurfum að varðveita auðlindir hafsins, þá auðlind sem við eigum allt okkar undir. Plastið hefur neikvæð áhrif á okkar helstu útflutningsgreinar, á sjávarútveg og svo á ferðaþjónustu sem nýtir m.a. strandsvæðin.

Til að vekja fólk til umhugsunar og stuðla að aukinni vernd fyrir umhverfið hefur ráðuneytið komið af stað aðgerðaráætlun til að draga úr notkun plastpoka 2016-2018.

Kveðið er á um víðtæka samvinnu og öfluga aðkomu verslunarinnar að verkefnum og gert ráð fyrir að þær komi sér saman um samstarf til að draga úr notkun léttra burðarplastpoka. Unnið verður að fræðslu og kynningu fyrir almenning og starfsfólk í verslunum, en verslunin og Umhverfisstofnun munu vinna sameiginlega að raunhæfum leiðum. Til að ná sem bestum árangri er mikilvægt að skapa jákvæða og lausnamiðaða umræðu til að sem flestir tileinki sér notkun á fjölnota burðarpokum.

Ennfremur þá þarf að auka vitund almennings á því að við flokkun á sorpi þá má finna aðrar leiðir en notkun á plastpokum.

Til að hægt sé að mæla árangurinn þá var Úrvinnslusjóði falið að undirbúa uppskiptingu tollflokka til að hægt yrði að taka saman tölulegar upplýsingar á burðaplastpokum á Íslandi.

Loks má nefna að framangreindri vinnu við að draga úr notkun plastpoka verður fylgt eftir með tillögum að frekari aðgerðum til að minnka notkun plasts í umhverfi okkar.

Næsta áskorun verður innleiðing um hringrænt hagkerfi sem hefur það meginmarkmið að stuðla að bættri nýtingu auðlinda. Í tillögunum er lögð sérstök áhersla á framleiðendaábyrgð og gegnir Úrvinnslusjóður lykilhlutverki þar, t.d. varðandi rafgeyma, rafhlöður og raftæki. Tillögum um framlengda framleiðendaábyrgð er ætlað að lækka kostnað við kerfin, bæta afköst og forðast hindranir á markaði.

Ágætu ársfundargestir.

Það er ánægjulegt að finna hvað áhugi og skilningur almennings, sveitarfélaga og atvinnulífsins á úrgangsmálum hefur aukist mikið síðustu misseri. Það hefur stuðlað að aukinni umhverfisvernd og ekki síst að auknu verðmæti.

Leggja þarf áherslu á sjálfbæra auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu og leggja aukna áherslu á nýtingu hráefna.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir þeirra góða starf á liðnum árum, fyrir ykkar framlag til úrgangsmála og fyrir ánægjulega samvinnu.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðs ársfundar og vona að þig eigið ánægjulegan dag framundan.

Ihnen Herr Schmitz wünsche ich einen angenehmen Aufenthalt hier in Island.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira