Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi opnunarávarp á málþingi um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði sem haldið var 23. febrúar 2017.

 

Ágætu fundargestir,

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að opna þetta málþing um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði. Það er gott að sjá að hér er lögð áhersla á nýsköpun og græn tækifæri í byggingariðnaði enda mikilvægt að fólk sé lausnarmiðað í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í gegnum aldirnar höfum við mennirnir nýtt auðlindir náttúrunnar, okkur til lífsviðurværis. Við höfum verið full aðgangshörð og ekki gætt að því að viðhalda jafnvægi á milli náttúrulegra ferla vistkerfa Jarðarinnar – þannig hefur okkar nýting leitt til meiri losunar gróðurhúsalofttegunda en jörðin er fær um að taka upp á ný. Ört vaxandi styrkur koltvísýrings í andrúmslofti veldur hlýnun sem hefur ófyrirséð áhrif á veðrakerfi Jarðarinnar og allt líf sem á henni þrífst. Við verðum að snúa þessari þróun við og það þurfa allir að leggja sitt af mörkum.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu Íslands í loftslagsmálum sem gefin var út fyrr í þessum mánuði kemur fram að efnanotkun og losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði hefur aukist stöðugt á árunum frá 1990. Byggingariðnaðurinn á sinn þátt í þeirri þróun og því er mikilvægt að horfa til þess hvernig megi takmarka losun frá honum.

Mannvirki sem byggð eru í dag munu vonandi flest standa í marga tugi, ef ekki hundruð ára. Því gefur auga leið að framsýni þarf að vera allsráðandi við hönnun mannvirkja og að umhverfið sé haft í forgrunni. Huga þarf að efnisvali, tækni og nýtingu auðlinda en helsta áskorunin er að lágmarka umhverfisfótspor af rekstri mannvirkja um ókomin ár. Til þess þurfum við að nýta nútíma þekkingu og þau sjálfbærniviðmið sem til eru. Slíkt er fjárhagslega hagkvæmast þegar til lengri tíma litið því það er erfiðara að breyta eftir á heldur en að gera vel í upphafi. Ávinningur af sjálfbærum byggingum er ekki eingöngu umhverfislegur heldur geta þær einnig haft jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan. Eins og við þekkjum hafa atriði á borð við dagsbirtu, gæði innilofts, græn svæði og gott aðgengi fyrir gangandi og hjólandi mikil áhrif á okkar daglega líf.

Undanfarin ár hefur verið markvisst unnið með hugmyndafræði vistvænna innkaupa í útboðum ríkisins vegna byggingarframkvæmda og rekstri mannvirkja í ríkiseigu. Ríkið hefur sýnt frumkvæði á þessu sviði með því að láta hanna og byggja nýjar opinberar byggingar eftir alþjóðlegum vistvænum vottunarkerfum á borð við BREEAM. Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri og sú sem mun rísa á Kirkjubæjarklaustri eru allt dæmi um slíkar umhverfisvottaðar opinberar byggingar. Reynslan hefur sýnt að vistvænar áherslur á byggingartíma skila sér í betra skipulagi, lægri kostnaði og auknu öryggi á byggingarstað. Það er einnig merkjanlegt að verktakar eru sífellt að verða tilbúnari til að takast á við vistvænar kröfur í byggingum. Þá er í úrgangsforvarnastefnu fyrir árin 2016-2027 lögð áhersla á grænar byggingar til framtíðar. Með því að setja sjálfbæra byggingarstarfsemi í forgrunn má draga úr myndun byggingar- og niðurrifsúrgangs og þannig minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá geiranum, bæta auðlindanýtingu og takmarka dreifingu á efnum sem eru skaðleg umhverfinu.

Góðir gestir

Í sífelldri fólksfjölgun felst mikil áskorun. Reiknað er með að Íslendingum fjölgi um 26% til ársins 2040, fjöldi ferðamanna er nú um 1,8 milljón á ári og sá straumur gæti haldið áfram að aukast. Hætta er á að þessi aukning skili sér beint í aukinni losun ef ekkert er að gert. Við þurfum því að taka höndum saman og læra af þeim bestu - forsendurnar eru  fyrir hendi á Íslandi til að gera vel í þessum efnum. 

Við þurfum að setja framtíðina í forgang. Verkefnið framundan er ekki einfalt en við þurfum að nálgast það með jákvæðni og áræðni.  Þótt okkur stafi ógn af loftslagsbreytingunum fela lausnirnar í sér tækifæri, á stundum fjárhagsleg en ekki síður tækifæri til að búa okkur betra samfélag til framtíðar. Til að svo megi verða þurfum við að efla nýsköpun og þróa nýja tækni og aðferðir svo að við taki tímar sjálfbærni í stað sóunar.

Góðir áheyrendur, ég óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar og vona að okkur takist í sameiningu að hanna mannvirki nútímans með kröfur framtíðarinnar að leiðarljósi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn