Hoppa yfir valmynd
12. mars 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra - Aukið fjármagn til úrskurðarnefndar

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2018. 

Eitt af áhersluatriðum mínum í fjárlögum ársins 2018 var að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í þeim tilgangi að vinna á uppsöfnuðum málum og hraða þannig úrskurðum í kærumálum fyrir nefndinni. Kæruaðilar geta verið framkvæmdaaðilar, einstaklingar eða umhverfisverndarsamtök. Enginn þessara aðila hefur hag af löngum málsmeðferðartíma.

Nokkrar ástæður eru fyrir því hversu langan tíma hefur tekið að úrskurða í kærumálum. Í upphafi þegar úrskurðarnefndin var sett á laggirnar var hún undirmönnuð, kærumálum hefur fjölgað og einstök mál og málaflokkar eru töluvert þyngri en áður.

Lögbundinn úrskurðartími nefndarinnar er þrír mánuðir en sex mánuðir í umfangsmiklum málum. Slíkum málum hefur fjölgað á undanförnum árum. Á árinu 2017 bættist eilítið við málahalann, en á sama tíma styttist afgreiðslutími fyrir nefndinni lítillega. Meðalafgreiðslutími var um níu mánuðir. Flest kærumál tengjast skipulags- og byggingamálum, en leyfisveitingar sem byggja á mati á umhverfisáhrifum hafa verið um 10-20% mála. Hin síðarnefndu eru oft umfangsmikil og flókin.

Ég bind vonir við að þær auknu fjárheimildir sem Alþingi tryggði úrskurðarnefndinni muni á næstu árum leiða til skemmri málsmeðferðartíma fyrir nefndinni, en ljóst er að nokkurn tíma tekur að ná því markmiði. Mikilvægt er að fylgjast grannt með þróun þessara mála.

Að mínu mati er þó ekki nóg að tryggja að málsmeðferðartími kærumála sé innan marka hins lögbundna úrskurðartíma. Það þarf líka að auka sátt um bæði umhverfis- og náttúruvernd og um ýmsar framkvæmdir. Ég tel að í mörgum tilvikum megi ná niðurstöðu sem er viðunandi fyrir sem flesta, þó svo að stundum séu framkvæmdir það stórar að grundvallarágreiningur stendur um hvort ráðast eigi í þær eður ei. Aðkoma almennings og umhverfisverndarsamtaka fyrr í ferli ákvarðanatöku gæti skilað okkur meiri sátt og þar með færri kærumálum. Verkefnið framundan er því ekki síður að finna leiðir til þess að svo megi verða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira