Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á Pálsvöku

Ágæta samkoma,

Eins og segir í kynningu á þessu áhugaverða málþingi verður umræða um náttúruna, verndun hennar, nýtingu og merkingu að eiga sér traustar fræðilegar stoðir. Páll Skúlason var einn þeirra sem lagði sín lóð á vogarskálarnar til þess að umræðan yrði einmitt þannig – reist á traustum fræðilegum stoðum. En hverju hefur umhverfis- og náttúrusiðfræðin skilað umhverfis- og náttúruverndarbaráttunni? Ég er ekki rétti maðurinn til leggja mat á það og mun ekki reyna það, en eins og þetta snýr að mér, þá hafa siðfræðingar og heimspekingar á borð við Aldo Leopold og Pál Skúlason hjálpað mér við að ná rótfestu í minni eigin náttúruheimspeki – mínum eigin kjarna, sem ég verð reglulega að heimsækja til að vita hvað það er sem drífur mig áfram, fær mig til að vakna á morgnana, og taka til hendinni í þeim störfum sem ég hef sinnt í græna geiranum. Arfleifð Páls er okkur mörgum að mínum mati einstaklega dýrmæt.

Í Hugleiðingum við Öskju veltir Páll fyrir sér hvernig túristar í leit að tengslum við sjálfa sig og veruleikann, komast til botns í hugrenningum sínum, annars vegar við náttúrufyrirbærið Öskju og hins vegar í þaulskipulögðu borgarlandslagi Parísar. Hann segir: ,,Til Öskju streyma líka túristar í leit að tilgangi lífsins. Skyldi þeim fremur takast að finna hann þar en á háværum strætum og iðandi mannlífi Parísarborgar?“

Í mínum huga er svarið jákvætt og ég byggi það á eigin tilfinningu og reynslu. En reynsla mín er ekki sú sama og ykkar. Hvert um sig eigum við okkar upplifun, okkar reynslu og okkar viðmið. Að hafa hossast á brettinum á höstum Zetor traktor í fimm klukkutíma með föðurbróður mínum með rollur og lömb á vagninum á leið inn í Hítardal, að fá það einstaka tækifæri að sinna plöntuvistfræðirannsóknum hjá Þóru Ellen í Þjórsárverum, að vinna sem landvörður í Snæfelli, steinsnar frá Kárahnjúkavirkjun, leysa af í Hvannalindum þar sem ég fór ekki í bað í heila viku, og taka þátt í plönturannsóknum í Fögruhlíð við Langjökul þar sem við þurftum að bíða í 48 klst til að sæta lagi og komast yfir Fúlukvísl, að upplifa reynslu og upplifun stúdenta í ferðum með Þorvarði Árnasyni eða upplifun vina á ferðalagi um hálendi Íslands – allt þetta og margt fleira hefur mótað mig sem náttúruverndara. Ég hef fest ákveðnar rætur.

Og, það sem Páli tekst svo vel er að fanga þessar upplifanir og reynslu mína og margra annarra og setja í samhengi við mikilvægi villtrar náttúru fyrir okkur mennina. Þess vegna eru orðin hans svo mikilvæg fyrir þau sem lesa verk hans. Að því sögðu, skal tekið fram að ég kom fyrst til Parísar í fyrra.


Ég gef Páli aftur orðið: ,,Að koma til Öskju er eins og að koma til jarðarinnar í fyrsta sinn, öðlast jarðsamband“ segir Páll í sínum hugleiðingum. Í hans huga hefur það því einfalda og skýra þýðingu að koma til Öskju: ,,Það er að uppgötva jörðina og sjálfan sig sem jarðarbúa. Að vera jarðarbúi er að finna líf sitt bundið jörðinni, ef ekki beinlínis sprottið af henni, finna að hún er forsenda lífsins. Ég er ég, þú ert þú og við erum við af því við veljum okkur stað, erum, getum ekki verið við sjálf nema andspænis Öskju (eða öðru sambærilegu tákni jarðar) og getum horfið þangað sífellt aftur, ef ekki í raunveruleikanum þá í huganum. Við stöndum á jörðinni, byggjum, yrkjum og rústum hana, ef svo ber undir, af því við fæðumst til hennar og getum eingöngu fundið sjálf okkur andspænis henni, í ljósi hennar eða faðmi. Hún er því upphaf og endir allra tilfinninga okkar fyrir veruleikanum í heild sinni. Og þá líka fyrir sjálfum okkur sem íbúum heimsins. Hún er forsenda þess að við séum við, séum saman og með sjálfum okkur.“
Takk Páll.

Í ár eru 10 ár liðin frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Við lítum til baka og erum stolt af því að hafa tekið þetta skref. Árið 2030 þurfum við að geta enn litið til baka og verið stolt af því að hafa tekið enn stærra skref.

Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, líffræðingur og rithöfundur hvatti okkur til dáða árið 1998 þegar hann reit: ,,Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga."

Eitt af þeim atriðum sem sannfærði mig um að taka boði um að verða umhverfis- og auðlindaráðherra er að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á vernd og friðun landsvæða. Þar er stóra verkefnið að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Það var því einkar ánægjulegt að ganga frá skipun þverpólitískrar nefndar í gær til þess að undibúa þann gerning. Með þverpólitískri nefnd er ætlunin að ná samstöðu um þetta mikilvæga verkefni, þannig að það geti orðið okkar allra.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði nær að mínu mati einkar vel utan um einkenni hálendisins þegar hún segir: ,,Sérstaða miðhálendis Íslands liggur í fjölbreytni landslagsins, framandleika þess og í andstæðunum sem þar birtast í ólíkum náttúrufyrirbærum, litum, formum, mynstrum, þögnum og hljóðum, kyrrð og hreyfingu.“

Hér á Íslandi erum við rík af víðernum, ríkari en aðrar þjóðir í Evrópu. Burtséð frá öllum skilgreiningum og rannsóknum þá liggur það fyrir að stór óbyggð svæði þar sem áhrifa mannsins gætir lítið sem ekkert eru að hverfa af plánetu okkar. Og hér á Íslandi hverfa þau hratt því víðernin hafa minnkað um 68% á síðastliðnum 80 árum. Spila þar mannvirki eins og virkjanir, línulagnir og vegir stærsta rullu. Ég hef látið eftir mér hafa að mér finnist það siðferðileg skylda okkar að standa vörð um það stóra verðmæta svæði sem við höfum í höndunum. Okkur ber að gæta víðernanna okkar fyrir komandi kynslóðir, okkur sjálf og gesti okkar. Ljóst er að yfir 80% af þeim gestum sem sækja landið og okkur heim koma hingað vegna íslenskrar náttúru. Náttúru sem á engan sinn líkan í víðri veröld.

Ég hef jafnframt bent á að við getum búið til tækifæri úr þessu – efnahagsleg tækifæri sem við getum nýtt fyrir byggðaþróun í landinu. Í leiðinni tryggjum við vernd þessara svæða og möguleika fólks til þess að öðlast upplifun sem það fær hvergi annarsstaðar og komast í tengsl við jörðina sem við búum og okkur sjálf. Ég er sannfærður um að þegar stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands verður að veruleika þá verður það stærsta einstaka framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum.

Ágætu málþingsgestir!
Það er mikilvægt að standa vörð um náttúruna því í henni getum við fundið okkur sjálf. Náttúruvernd er því mikilvæg mannkyninu öllu. Í náttúrunni finnum við tengsl, náum sálfræðilegri endurheimt, eða hlöðum batteríin, sem borgarsamfélagið getur illa gefið okkur og öðlumst jarðsamband. Og með traustar fræðilegar stoðir allra vísindanna eigum við ekki að vera í nokkrum vafa um gildi náttúruverndar. Við eigum svo margt undir ósnortinni náttúru, svæðum eins og Öskju. Við getum alltaf valið okkur að fara til Parísar í hinn manngerða heim en við getum illa breytt manngerðum heimi aftur í ósnortinn.

Ég ætla að gera orð Aldo Leopold, sem oft er kallaður faðir náttúrusiðfræðinnar, að lokaorðum mínum hér í dag, og þakka fyrir þann heiður að fá að taka þátt í þessu mikilvæga málþingi:
„A thing is right when it tends to preserve the integrity, stability and beauty of the biotic community. It is wrong when it tends otherwise.“

Þakka ykkur fyrir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira