Hoppa yfir valmynd
05. maí 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra - Umhverfismál og réttindi almennings

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2018.

Umhverfismál og réttindi almennings

Árið 1998 var samþykktur í Árósum í Danmörku tímamótasamningur sem stuðlar að því að sérhver einstaklingur og komandi kynslóðir hafi rétt til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans. Árósasamningurinn svokallaði fjallar því um mannréttindi. Hann veitir þrískipt réttindi þegar kemur að umhverfis- og náttúruverndarmálum: Aðgang að upplýsingum, rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og stefnumótun og rétt til þess að bera ákvarðanir stjórnvalda undir óháða úrskurðaraðila. Tæp fimmtíu ríki eru aðilar að samningnum, í Evrópu og Mið-Asíu og var hann fullgiltur hérlendis árið 2011.

Á málþingi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í aprílbyrjun kynnti ég drög að aðgerðaáætlun um frekari framfylgd samningsins hérlendis. Á næstu vikum mun ég kynna þessi drög fyrir umhverfisverndarsamtökum, stofnunum, sveitarfélögum og samtökum í atvinnulífinu.

Aukin þátttaka og sátt

Þátttaka almennings í ákvarðanatöku er sérstakt viðfangsefni aðgerðaáætlunarinnar en mikilvægt er að finna leiðir til að auka þátttöku snemma í ferli ákvarðanatöku til að byggja undir aukna sátt um áætlanir og framkvæmdir, og fækka deilumálum, þar með talið kærum. Sveitarfélög sem ábyrgð bera á skipulagsgerð og fyrirtæki sem standa í stórum framkvæmdum þurfa að koma hér að málum. Þá verður skoðað hvernig megi auka þátttöku umhverfisverndarsamtaka í starfshópum og lögbundnum nefndum.

Nauðsynlegt er að ráðast í úttekt á framfylgd samningsins er varðar réttláta málsmeðferð. Annars vegar þarf að kanna hvernig íslenskur réttur samrýmist ákvæðum Árósasamningsins um að brot stjórnvalda eða einkaaðila á landslögum sem varða umhverfismál megi bera undir óháða úrskurðarnefnd eða dómsstóla. Hins vegar þarf að meta svigrúm kæruaðila til að velja stjórnsýsluleið eða dómsstólaleið þegar ákvarðanir stjórnvalda sem varða umhverfismetnar framkvæmdir eru uppi á borðum.

Úrskurðarnefndir styrktar

Einn þátturinn snýr að úrskurðanefndum, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur þegar verið styrkt með auknum fjárheimildum til að stytta málsmeðferðartíma fyrir nefndinni. Þá þarf að endurskoða lög um upplýsingarétt um umhverfismál og gæta að samræmi við hin almennu upplýsingalög. Eins verður menntun og fræðsla um Árósasamninginn aukin hjá hinu opinbera og meðal almennings og félagasamtaka.

Mikilvægi Árósasamningsins fyrir lýðræðislega þátttöku almennings í umhverfismálum verður seint fullmetið auk þess sem hann veitir stjórnvöldum og fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Innleiðing samningsins hér á landi var mikilvægt framfaraskref á sínum tíma og hefur hann þegar skilað miklum árangri fyrir umhverfisvernd og íbúalýðræði á Íslandi. Með markvissri framfylgd og endurskoðun á innleiðingu hans er ætlunin að auka samtal og styrkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira