Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra í tengslum við matarsóunarátak Nettó og Samkaupa á Menningarnótt

Sæl verið þið öll,

Ég er sérlegur áhugamaður um mat og það að borða og einlægur baráttumaður gegn sóun svo það er ánægjulegt að vera hérna í dag.

Að berjast gegn matarsóun skiptir miklu máli. Það er nefnilega skrýtin staðreynd að mikill hluti af allri matvælaframleiðslu heimsins fer til spillis. Um þriðjungi af öllum mat sem framleiddur er til manneldis í heiminum er raunar sóað! Einum þriðja af mati í heiminum er með öðrum orðum hent á sama tíma og yfir milljarður manna býr við sára fátækt.

En það er ekki bara undarlegt að fólk sveltur á tímum sóunar heldur er matarsóun risavaxið umhverfismál. Matarsóun er loftslagsmál. Þegar við framleiðum matinn losna út gróðurhúsalofttegundir og þegar við urðum mat sem við hentum í ruslið losna líka gastegundir sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Mengunin er raunar svo mikil af ef við berum saman þá mengun sem verður af völdum matarsóunar við þau ríki sem menga mest í heiminum kemur í ljós að útlosun gróðurhúsalofttegunda af völdum matarsóunar er litlu minni en hjá þeim ríkjum sem eru í tveimur efstu sætunum: Kína og Bandaríkjunum.

Hér á Íslandi er matarsóun á heimilum talin vera yfir 60 kíló á íbúa á ári. Hugsið ykkur hvað við hendum mikið af peningum beint í ruslið! Þarna er matur sem í framleiðsluferlinu hefur oft haft töluverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna svo engum tilgangi því enginn nýtti matinn. Þetta er matur sem eykur síðan verulega við magnið af þeim úrgangi sem þarf að urða og losar svo út enn meiri gróðurhúsalofttegundir en ella.

Magnið af vatni sem fer til spillis vegna matarsóunar er líka gríðarlegt og áætlað er að um 30% af öllu landbúnaðarlandi í heiminum fari undir mat sem síðan er hent.

Það góða er hins vegar að við getum breytt þessu. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum og saman getum við sannarlega minnkað matarsóun.

Gangi okkur öllum sem best við það verðuga verkefni!
Bestu þakkir og njótið kvöldsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira