Hoppa yfir valmynd
01. september 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við upphaf átaksverkefnisins Plastlaus september

Sæl öll og til hamingju með daginn,

Ég er einlæglega glaður yfir því að vera hér í dag og taka þátt í þessari mikilvægu vegferð: Að draga úr notkun á plasti. Þegar ég varð ráðherra undir lok síðasta árs ákvað ég að gera plastmálin að einu af mínum forgangsmálum, enda getum við jarðarbúar ekki haldið áfram með sama hætti og við höfum gert. Plastflöskur hrúgast upp, plasttappar, plastpokar, plastlok, plastmatarbakkar, plaströr, plastglös, plastdiskar, sígarettustubbar, eyrnapinnar – plast og meira plast.

Milljónir tonna af plasti enda í sjónum á hverju ári, meira í dag en í gær, með síversnandi afleiðingum fyrir lífríki jarðar. Í þessari baráttu gegna félagasamtök og fólk um allt land og alla jörð mikilvægu hlutverki. Frumkvæði þeirra er ómetanlegt og hefur valdið vitundarvakningu meðal almennings. Hér á landi er Plastlaus september frábært dæmi, auk þess sem ég gæti nefnt Bláa herinn og strandhreinsun hans, stofnun á borð við Umhverfisstofnun, Hreinsum Ísland hjá Landvernd og margvíslega Facebook-hópa á borð við Plokk á Íslandi.

Kærkomin bylgja hefur orðið meðal almennings og krafan um minni sóun verður æ hærri; krafa um róttækar aðgerðir til að sporna við hnattrænum vanda. Stjórnvöld mega ekki dragast aftur úr og verða að móta lagaumhverfi sem býður upp á róttækar aðgerðir heima fyrir og að tala fyrir umbótum á erlendum vettvangi. Að mínu mati er mikilvægt að nálgast plastmálin frá sem flestum hliðum, þannig að rannsóknir, nýsköpun, stjórnvaldsaðgerðir og virkni almennings búi til farveg fyrir breytingar, bæði í hugarfari og í verki.

Með þetta að leiðarljósi setti ég saman starfshóp sem tekið hefur til starfa og ætlað er að koma með heildstæðar tillögur um hvernig megi draga úr notkun plasts hér á landi, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi. Í hópnum eru sérfræðingar frá ýmsum stofnunum og ráðuneytum, félagasamtökum, nýsköpunargeiranum og úr hópi þingmanna. Starfshópurinn á að koma með tillögur að hvaða rannsóknir og vöktun þurfi að ráðast í, til hvaða stjórnvaldsaðgerða eigi grípa, t.d. skattlagningar á einnota plast eða hreinlega að banna ákveðnar gerðir þess, eða blöndu af hvoru tveggja, hann á að koma með tillögur um hvernig megi best stuðla að nýsköpun, en það er lykilatriði að eiga vörur sem leysa plastið af, þannig að við sköpum ekki nýtt umhverfisvandamál. Tillögurnar munu liggja fyrir 1. nóvember n.k. Á grundvelli þessarar heildstæðu nálgunar mun Ísland vonandi skipa sér í fremstu röð þjóða heims hvað varðar varnir gegn plastmengun.

Þar sem að ég vil gjarnan sjá árangur strax, þá viðurkennist að ég er óþreyjufullur eftir aðgerðum, en það þarf að undirbúa þær vel og sú vinna er hafin og verður vel unnin. Á bjargi byggði hygginn maður hús og það allt saman.

En til þess að taka samt sem áður þátt í þeirri bylgju sem á sér stað í samfélaginu þá hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið úthlutað ákveðnu fjármagni á þessu ári eða 4,5 milljónum í verkefnastyrki til ýmissa plast- og strandhreinsunarverkefna. Það er 13% af þeirri upphæð sem til ráðstöfunar var úr samkeppnissjóði í ráðuneytinu sem ætlað er að styrkja margvísleg umhverfisverkefni. Að auki við þetta mun ráðuneytið styrkja Umhverfisstofnun um 3,5 milljónir króna undir merkjunum Saman gegn sóun. Ferðamenn sem koma til Íslands munu verða fræddir um óþarfa þess að kaupa vatn í flöskum og einnig verður ráðist í gerð kynningar- og fræðsluefnis þar sem fólk verður hvatt til að nota fjölnota.

Ráðuneytið hefur einnig samið við Sjávarlíftæknisetrið BioPol um rannsókn á losun örplasts á Íslandi þar sem meðal annars verður skoðað eftir hvaða leiðum plastið berst til sjávar, en slíkt er grundvöllur fyrir því að geta fyrirbyggt eða dregið úr magni örplasts sem berst til sjávar. Frá báðum þessum verkefnum verður betur sagt nú síðar í þessum mánuði í tilefni af Plastlausum september.

Og kem ég þá að hinum alþjóðlega vinkli. Á vegum umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP, er nú unnið að tillögum um alþjóðlegar aðgerðir í plastmálum. Ég mun beita mér í þágu þessara mála á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í samstarfi þjóða á Norðurslóðum og á Norðurlöndunum, en einstakt tækifæri skapast nú fyrir Ísland að leiða slíka vinnu því við tökum við formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári og einnig í Norðurskautsráðinu.

Ég vil líka nefna að nú strax í september verður ýtt úr vör norrænu verkefni um hreinsun stranda í norrænum smásamfélögum þar sem lögð er áhersla á að styrkja forystuhlutverk umhverfisverndarsamtaka til að leiða slík verkefni heima fyrir. Íslensk umhverfisverndarsamtök taka þátt í þessu og hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið aðstoðað við að koma því samstarfi á.

Og þá aðeins að okkur einstaklingunum. Hvað er samfélag án einstaklinganna sem byggja það? Hvað eru aðgerðir í plastmálum í samfélagi eins og okkar án þátttöku einstaklinganna sem byggja það? Okkar, íbúa þessa lands, er valdið. Og okkar er valið. Við veljum á hverjum einasta degi vörur, tökum ákvarðanir sem skipta umhverfið okkar máli. Saga hvers og eins skiptir hér máli. Plastlaus september hefur þegar skrifað sig inn í sögubækurnar, Tommi Knúts og Blái herinn sömuleiðis, Landvernd og Hreinsum Ísland – Plokkhóparnir á Facebook – og allir þeir sem hönd leggja á plóg.

Árið 2005 keypti ég mér minn fyrsta og eina bíl sem ég hef átt. Hann kostaði 200 þúsund krónur. Ég þurfti að geta keyrt á milli Hóla í Hjaltadal og Sauðárkróks daglega. Jólin 2006 gaf hann upp öndina á miðri Miklubraut við litla kátínu samferðafólks í öðrum bifreiðum. Á þessari stundu ákvað ég að taka upp bíllausan lífsstíl. Það fór pínku úr skorðum þegar ég varð ráðherra, en ég er þó farinn að hjóla að mestu í og úr vinnu aftur! Ári síðar ákvað ég að fara alltaf með margnota dall í fiskborðið í Nóatúni, þó svo að það væri horft á mig í hjólagallanum og með hjálminn. Kannski var fólk bara að horfa á tights buxurnar mínar. Og í dag strengi ég þess heit, í tilefni af Plastlausum september, að draga úr notkun einnota plasts alls staðar þar sem það er hægt, t.d. að hætta að kaupa vatn í flösku, drekka úr plastglösum nota plaströr o.fl. Við þurfum fyrirmyndir og vegna þeirrar stöðu sem ég gegni þá lít ég svo á að mér beri samfélagsleg skylda að reyna að vera fyrirmynd. Allur sá fróðleikur sem hér er í dag hjálpar mér í þeirri viðleitni minni.

Sem baráttumaður fyrir heimi með minna plasti í vil ég þakka þeim dugnaðarforkum sem standa að Plastlausum september hjartanlega fyrir sitt ómetanlega framlag. Ég óska þeim og okkur öllum velfarnaðar í því mikilvæga verkefni sem er framundan.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira