Hoppa yfir valmynd
26. mars 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2019

Ágæta starfsfólk Veðurstofu Íslands og aðrir gestir,

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér í dag á ársfundi ykkar.

Veðurstofan er öflug rannsóknar- og vöktunarstofnun á náttúruöflum landsins. Hún vaktar ekki einungis veðrið, heldur vatnafar, hafís, eldgos og jarðskjálfta. Fyrir land sem býr við kvikara náttúrufar og fjölbreyttari náttúruvá en flest önnur ríki er mikil þörf á að hafa öfluga stofnun á þessu sviði. Veðurstofan nýtur samkvæmt könnunum mikils trausts hjá almenningi. Hún hefur líka notið trausts alþjóðlegra samstarfsaðila, svo sem í veðurþjónustu fyrir flug og í margvíslegum rannsóknar- og vöktunarverkefnum. Það traust sýnir sig meðal annars í því að ofurtölvu dönsku veðurstofunnar var valin staðsetning við Bústaðaveg. Slíkt traust er dýrmætt. Við megum hins vegar ekki taka því sem gefnu; þar að baki liggur mikil og góð vinna og stjórnvöld þurfa að styðja við Veðurstofuna og verkefni hennar.

Það er skýr vilji þess sem hér stendur að styðja við Veðurstofuna í störfum hennar og í þeim nýju áskorunum sem nefndar eru til sögunnar á þessum ársfundi. Auðvitað erum við í þeirri stöðu að Ísland er fámennt land og fjármunir ekki ótakmarkaðir, svo rannsóknum og vöktun á náttúru landsins – og hafsins og lofthjúpsins – hefur kannski ekki alltaf verið sinnt nægjanlega vel. En það er vert að benda á að Veðurstofan hefur eflst á undanförnum árum, meðal annars með sameiningu „gömlu Veðurstofunnar“ við vatnamælingar Orkustofnunar fyrir nokkrum árum, sem gerði hana betur í stakk búna að sinna verkefnum sínum og mæta erfiðum áskorunum.

Ég hef frá og með árinu í ár varanlega aukið fjárframlög til vöktunar á íslenskri náttúru í tengslum við Landsáætlun um uppbyggingu innviða á náttúruverndar- og menningarminjasvæðum. Einnig hef ég beint sérstöku fjármagni inn í frekari grunnrannsóknir í jarðfræði með aukinni jarðfræðikortagerð.

Vöktun á eldstöðvum hefur einnig aukist á undanförnum árum. Vöktun á einstaka eldstöðvum, sem sýna merki um aukna virkni, hefur verið aukin. Þátttaka Veðurstofunnar og annarra í alþjóðlegum rannsókna- og vöktunarverkefnum hefur gagnast vel; þangað sækjum við bæði fjármagn og þekkingu. Veðurstofan hefur lagt fram tillögur um heildstæða vöktun á íslenskum eldstöðvum, sem ég tel rétt að stefna að.

Almennt er unnið að betra og heildstæðara mati á allri náttúruvá, þar sem notuð er svipuð aðferðafræði og við ofanflóð, sem hefur gefist vel. Vatnsflóð, sjávarflóð, eldgos, jarðskjálftar, ofanflóð, aftakaveður – það er margvísleg vá sem steðjar að okkur Íslendingum, en við erum alltaf að læra betur hvernig við getum búið á okkar dyntótta landi með sínu rysjótta veðurfari. Ég vænti mikils af betra áhættumati á náttúruvá, sem gerir okkur kleift að skipuleggja byggð og innviði og viðbúnað gegn válegum atburðum.

Þá kem ég að máli málanna – loftslagsmálunum. Það er varla ofmælt að hér á Íslandi hafi orðið vitundarvakning á síðustu misserum varðandi loftslagsbreytingar. Í síðustu viku tók ég þátt í sérstökum umræðum um loftslagsmál á Alþingi. Á RÚV eru nú sýndir góðir og metnaðarfullir þættir um loftslagsbreytingar. Skólabörn fara í verkfall og krefja okkur um aðgerðir. Þetta er afar ánægjuleg þróun. Hér er bókstaflega framtíð okkar að veði. Við Íslendingar þurfum að taka virkan þátt í hnattrænu átaki til að draga úr losun – og við þurfum líka að búa okkur undir breytingar, sem eru því miður óumflýjanlegar.

Veðurstofan hefur lykilhlutverki að gegna í loftslagsmálum. Hún er tengiliður Íslands við Milliríkjanefnd S.þ. um loftslagsmál, IPCC, og hefur ritstýrt skýrslum um væntanleg áhrif loftslagsbreytinga á Ísland. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá síðustu, sem kom út í fyrra, en hún var afar yfirgripsmikil, metnaðarfull og góð. Ég skynja að Veðurstofan vill ekki bara standa sína plikt í þessum efnum, heldur vill hún sækja fram og bæta og efla rannsóknir, vöktun og miðlun upplýsinga um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.

Ég hyggst styrkja hlutverk Veðurstofunnar á sviði loftslagsbreytinga og á næstu dögum mæli ég fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um loftslagsmál, sem er ætlað að styrkja stjórnsýslu málaflokksins. Vinna við reglulegar vísindaskýrslur verður þar lögbundin í fyrsta sinn, verði frumvarp mitt að lögum. Einnig verður kveðið á um að gerð verði áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum. Við höfum gert áætlanir um að draga úr losun, en aðlögunaráætlun hefur vantað. Úr því verður bætt.

Veðurstofan hefur lagt fram góðar og metnaðarfullar tillögur um eflt starf í loftslagsmálum, innan Veðurstofunnar og í samvinnu við aðrar stofnanir og aðila. Þær sýna metnað og framsýni. Ég hef beðið Loftslagsráð að rýna þær tillögur og almennt að gefa ráð um fyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála. Einnig hef ég falið ráðinu að leiðbeina stjórnvöldum um hvernig best verði unnið að aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum. Ég vil biðja Veðurstofuna að sýna smá biðlund varðandi þessi atriði. Ég tel Loftslagsráð vera mikilvægt tæki til að veita stjórnvöldum aðhald og virkja kraft vísindasamfélagsins, frjálsra félagasamtaka, atvinnulífs og annara að loftslagsmálum. En ég get lofað því að við munum sjá eflingu á starfi í þessum þætti loftslagsmála og að Veðurstofan mun gegna þar mikilvægu hlutverki.

Veðurstofan á sér langa sögu og djúpar rætur. Hún heldur brátt upp á aldarafmæli sitt. Það ná ekki allir svo virðulegum aldri. Afmæli Veðurstofunnar fer saman við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og stjórnvöld vilja virkja afmælisbarnið og tengja verkefni og viðburði í tilefni 100 ára afmælisins við málefni Norðurslóða og Norðurskautsráðið. Við væntum mikils af liðsinni Veðurstofunnar þar. Hún kann að vera virðulegur öldungur, þegar horft er á árin, en er eins og sprækur unglingur þegar kemur að metnaði og vinnugleði.

Ég hef ekki komið hér að öllum þeim málum sem eru á dagskrá á þessum ársfundi og enn síður að öllum þeim verkefnum sem eru á könnu Veðurstofunnar. Tíminn leyfir slíkt ekki. En ég vil ítreka þakkir mínar til Veðurstofunnar og starfsfólks hennar fyrir góð störf. Ég mun leggja mig fram við að styðja Veðurstofuna í hennar störfum, hvort sem lýtur að því að styrkja hennar kjarnaverkefni eða að takast á við nýjar áskoranir.

Því miður get ég ekki setið ársfundinn því mín bíður ríkisstjórnarfundur sem hefst innan skamms. Eigið góðan og gjöfulan fund.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira