Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á málþingi Verkís um úrgangsstjórnun

Góðan daginn,

Ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag. Umræðuefni dagsins er mikilvægt – úrgangsstjórnun – og verður æ mikilvægara í heimi þar sem ósjálfbær neysla hefur farið úr böndunum og rík þörf er á að við endurhugsum það hvernig við nálgumst auðlindir Jarðar. Við þurfum að draga úr myndun úrgangs og við þurfum að nýta þann úrgang sem til fellur miklu, miklu betur en við gerum nú. Það sem við þurfum er ný hugsun og ný nálgun – við þurfum að hugsa um kerfið sem hring, ekki línulegt.

Eitt af áherslumálum mínum sem ráðherra er framtíðarsýn sem felst í því að stuðla sem best að myndun svokallaðs hringræns hagkerfis, eða hringrásarhagkerfis, sem aftur felur í sér bætta nýtingu auðlinda. Í ráðuneytinu hefur að undanförnu verið unnið að málum er lúta að hringrásarhagkerfinu og við erum að meðal annars að bæta við mannafla ráðuneytisins hvað þetta varðar. Málefnið er afar brýnt og ég vil sannarlega ná að lyfta því í starfi mínu sem umhverfis- og auðlindaráðherra.

Eins og þið þekkið gengur hringræna hagkerfið út á það að vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs myndi því sem næst lokaða hringrás. Einn af lykilþáttunum í hringrásarhagkerfinu er ákveðin forgangsröðun samkvæmt svokölluðum úrgangsþríhyrningi sem skal leggja til grundvallar við meðhöndlun úrgangs. Úrgangsforvarnir eru efstar í þríhyrningnum – að draga úr myndun úrgangs.

Forvarnir gegn úrgangsmyndun felast í því að nýta auðlindir okkar sem best og að koma í veg fyrir framleiðslu eða notkun ónauðsynlegs varnings. Viðfangsefnið er að þróa samfélag sem hefur skilvirka auðlindanýtingu í fyrirrúmi og að fólk öðlist skilningi á gagnsemi fyrirbyggjandi aðgerða sem koma í veg fyrir myndun úrgangs.

Úrgangsforvarnarstefnan „Saman gegn sóun“ var gefin út á árinu 2016 og gildir til 12 ára. Níu áhersluflokkar eru þar í brennidepli. Markmið stefnunnar er að bæta nýtingu auðlinda, draga úr hráefnisnotkun, myndun úrgangs og losun gróðurhúsalofttegunda og minnka dreifingu á skaðlegum efnum. Átak í matarsóun var í fókus árin 2016-2017 og var myndaður samstarfshópur um aðgerðir gegn matarsóun, fræðsluvefgáttin matarsoun.is var stofnuð, fræðsluherferðin „notaðu nefið“ var sett af stað og viðhorfskönnun framkvæmd. Ýmsir viðburðir hafa einnig verið haldnir og ýmiss konar fræðsluefni gefið út. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er einnig gert ráð fyrir fjármagni í verkefni um minni matarsóun.

Minna plast er í brennidepli í úrgangsforvarnarstefnunni 2018-2019. Nýjustu rannsóknir hafa sýnt að plastúrgangur í hafi skapar hættu fyrir vistkerfi þess og berst inn í fæðukeðjuna. Á síðustu árum hefur vakning orðið í fataiðnaði um efnainnihald í fatnaði og umhverfislega ábyrgð fataiðnaðarins. Árin 2020-2021 verður áhersla lögð á vistvænni textíl í úrgangsforvarnarstefnunni. Gert er ráð fyrir að skoðaður verði grundvöllur fyrir samstarfsverkefni með kaupmönnum, skoðaðar verða leiðir til að styðja við frekar endurnotkun fatnaðar og auka sjálfbærni í tískuiðnaði. Árin 2022-2023 verður áhersla síðan lögð á raftæki og grænar byggingar verða í brennidepli 2024-2025, svo dæmi séu nefnd.

Ef horft er til aðildarríkja Evrópusambandsins þá er magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi með því hæsta sem gerist. Magnið er eingöngu meira í Danmörku. Árið 2016 var meðaltal innan ESB 480 kg á íbúa en á Íslandi var magnið 662 kg á hvern íbúa. Magn heimilisúrgangs dróst saman um 9% í ESB á tímabilinu 2002-2016, sem er öfugt við þróunina hérlendis. Það er því til mikils að vinna að við drögum úr magni úrgangs á Íslandi.

Evrópusambandið samþykkti nýlega metnaðarfulla löggjöf þar sem settar eru fram nýjar og endurskoðaðar reglur um úrgangsstjórnun og lagalega bindandi markmið fyrir endurvinnslu. Takmarkið við setningu löggjafarinnar var að hún myndi stuðla sem best að myndun hringrásarhagkerfisins. Aðildarríki eru hvött til að gera ráðstafanir, og ekki síst að nýta hagræna hvata, til að styðja við rétta forgangsröðun þannig að hagkvæmast sé að vinna efst eða ofarlega í úrgangsþríhyrningnum. Löggjöfin mælir fyrir um beinar aðgerðir, svo sem um sérstaka söfnun ýmissa úrgangsflokka, og í henni eru sett fram ný og metnaðarfyllri markmið fyrir ákveðna úrgangsflokka. Tillögurnar fela það m.a. í sér að á árinu 2035 verði einungis heimilt að urða 10% af heimilisúrgangi og að endurvinna skuli lífrænan úrgang heima fyrir eða safna sérstaklega til endurvinnslu. Í ráðuneytinu er hafin vinna við innleiðingu þessarar löggjafar.

Áhersluatriði í aðgerðum Evrópusambandsins við að koma á hringrásarhagkerfi tengjast m.a. plastmengun. Evróputilskipun sem miðar að því að takast á við þær tíu plastvörur sem oftast finnast á evrópskri strönd eða í hafi er til umfjöllunar í Evrópusambandinu. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að dregið verði úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr plasti, merkja skuli ýmsar plastvörur og ábyrgð sett á framleiðendur um meðhöndlun úrgangs. Einnig er lagt til nýtt söfnunarmarkmið fyrir plastdrykkjarvöruumbúðir og gert ráð fyrir fræðsluherferðum gegn einnota plasti. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði samþykkt í Evrópusambandinu í vor og að strax hefjist undirbúningur að innleiðingu hér á landi.

Ég hef lagt ríka áherslu á aðgerðir til að berjast gegn plastmengun og mun gera það að áhersluatriði í stefnu Íslands um hringrásarhagkerfið, ásamt betri nýtingu á vörum og tækjum og aðgerðum gegn matarsóun. Samráðsvettvangur sem ég skipaði um gerð tillagna að aðgerðum vegna plastmengunar skilaði mér í lok síðasta árs tillögum sínum um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá atvinnulífinu, sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, Alþingi og ráðuneytum. Yfirferð á tillögum hópsins hafa að undanförnu verið til skoðunar í ráðuneytinu og verður endanleg aðgerðaáætlun gefin út innan skamms. Þegar hefur þó verið ráðist í aðgerðir á borð við vitundarvakningu um ofnotkun á plastvörum og bann við afhendingu burðarplastpoka í verslunum en frumvarp þess efnis liggur nú fyrir Alþingi.

Umhverfisstofnun hefur verið falið að vinna tillögur að endurskoðaðri stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs, sem gert er ráð fyrir að verði samþætt tillögum um hringrásarhagkerfið. Þar verða sett fram skýr, mælanleg markmið til næstu 12 ára og sérstakar aðgerðir tengdar þeim markmiðum. Gert er ráð fyrir að drög að áætluninni fari fljótlega í opinbert umsagnar- og kynningarferli af hálfu Umhverfisstofnunar. Þess er vænst að hægt verði að gefa stefnuna út á árinu 2019. Eins er í farvatninu að fara vandlega yfir tillögur frá starfshópi um drykkjarvöruumbúðir sem skilað hefur ráðuneytinu mikilvægum tillögum sem lúta meðal annars því hvernig auka megi skilahlutfall drykkjarumbúða.

Fram undan eru með öðrum orðum spennandi tímar og ég er ákaflega ánægður með að þetta mikilvæga viðfangsefni fái nú aukinn sess á hinu pólitíska sviði. Ég stefni á að halda málþing um hringrásarhagkerfið síðar á árinu þar sem sýn og nánari tillögur stjórnvalda verða kynntar. Þá liggur fyrir Alþingi tillaga um 100 milljóna króna árlega fjárveitingu til eflingar hringrásarhagkerfinu sem hluti af fjármálaáætlun næstu fimm ára.

Ég óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum og vona að málþingið og umræðurnar hér á eftir verði góðar og gjöfular.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira