Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Kári Kristjánsson fær nátturuverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti

Fyrir tíu árum, á 20 ára afmæli umhverfisráðuneytisins, ákvað þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, að efna til viðurkenningar til handa þeim sem unnið hefði markvert starf á sviði náttúruverndar. Viðurkenningin skyldi kennd við Sigríði Tómasdóttur í Brattholti til að heiðra minningu þeirrar merku baráttukonu og náttúruverndarsinna, en Sigríður var brautryðjandi og fyrirmynd í náttúruvernd á Íslandi þegar hún snemma á síðustu öld barðist af mikilli elju fyrir verndun Gullfoss.

 

Sigríður var fædd árið 1871 í Brattholti og bjó þar alla sína tíð. Brattholt er efsti bær í Biskupstungum, fjarri alfaraleiðum og öðrum bæjum en við jaðar hálendisins, sem var afréttur jarðarinnar og beitiland. Foreldrar Sigríðar eignuðust þrettán börn en aðeins sjö komust til fullorðinsára; einn drengur og sex stúlkur. Pilturinn fór snemma að heiman og einnig elsta systirin og þá var Sigríður næst í röðinni. Hún gekk í öll störf heimilisins, inni og þá ekki síður utan húss með föður sínum. Sigríður var mikill ferðagarpur, fór langt upp til heiða í smalamennskur og einnig í kaupstaðarferðir til Reykjavíkur. Reykjavíkurferð frá Brattholti tók viku - þrjá daga hvora leið - enda yfir miklar ár og heiðar að fara, með klyfjahesta. Venjulega voru farnar þrjár slíkar ferðir á ári. Gekk Sigríður þar sem oftar í störf sem aðeins þóttu karlmanna á þeim tíma.

 

Á uppvaxtarárum Sigríðar var hart í ári, harðir vetur og stutt sumur og gróður lands verulega farinn að láta á sjá eftir þúsund ára búsetu. Erfiðleikar flæmdu marga á brott sem yfirgáfu harðbýlið og fluttu til grænni landa vestan hafs. Þeir sem eftir voru hlutu að leita allra leiða í landnýtingu til að komast af. Það hillti undir nýja tíma og þær ótrúlegu fregnir bárust að mala mætti gull og verða ríkur með því einu að virkja vatnsföll og fossa. Í Brattholtslandi var einn mesti foss landsins, Gullfoss í Hvítá. Til hans litu stórgrósserar fljótt hýru auga. En þá var Sigríði að mæta. Árum saman barðist hún gegn virkjun fossins, fór gangandi eða ríðandi til Reykjavíkur til að ræða þar við málsmetandi menn eða standa í málaferlum og svo fór að fossins njótum við enn.

 

Hvað var það sem mótaði afstöðu Sigríðar og gerði hana svo ólíka skoðunum annarra? Umræða um náttúruvernd, það að taka frá land og nýta það ekki á hefðbundinn hátt heldur bara njóta þess, var framandi á Íslandi þess tíma þótt hún þekktist í útlöndum. Hvernig gat Sigríður, þessi afdala stúlka, fengið slíkar hugmyndir?

 

Brattholt var ekki í alfaraleið. Þó lágu þar troðnar götur um hlaðvarpann, í gegnum túnið, upp með Hvítá og að fossinum mikla. Þegar líða tók á 19. öldina varð það æ algengara að ferðamenn kæmu frá Evrópu til náttúruskoðunar á Íslandi og um aldamótin fóru sumir Íslendingar að ferðast líka. Nær allir vildu þessir ferðamenn skoða hinn fræga Geysi og fossinn Gullfoss þar skammt frá. Og allt þetta fólk fór um hlaðið í Brattholti því ekki var lagður vegur að Gullfossi fyrr en seinna. Oft var óskað eftir því í bænum að fá fylgd að fossinum og var það þá oftar en ekki að Sigríður sem fylgdi ferðamönnum. Þá heyrði hún ekki aðeins framandi tungur heldur varð líka vitni að viðhorfum sem hún þekkti ekki. Okkur er svo tamt að sjá ekki fegurðina og það sem er sérstætt í okkar eigin umhverfi, höldum oft að það sem við erum vön sé venjulegt og alls staðar. Oft hafði Sigríður gengið um nágrenni fossins þegar hún eltist við fé búsins en kannski sjaldnast gefið sér tíma til að eyða löngum tíma í það eitt að horfa á hann. En nú kom þarna auðugt fólk og vel ríðandi til þess eins að dvelja við fossinn, horfa á hann, njóta hans og dásama. Sigríður var ekki skólagengin en hún var bæði vel greind og listhneigð og hún hefur fljótt áttað sig á hver væru mestu verðmæti fossins og lærði sjálf að njóta hans. 

 

Sú saga hefur verið sögð að Sigríður hafi líka fljótt séð að mikilvægt væri að sýna fólki fossinn og að auðvelda því að komast að honum. Þegar fréttist af konungskomu til Íslands árið 1907, og að konungur kæmi sem aðrir ferðamenn að Gullfossi með fríðu föruneyti, á Sigríður að hafa laumast með rekuspaða að fossinum til að laga göngustíginn að honum til að auðvelda fólki að fara um. Á hún að hafa falið rekuna undir pilsi sínu og haldið til verka þegar aðrir sváfu til að síður sæist hvað hún var að bauka.

 

Góðir gestir.

 

Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2020 er Kári Kristjánsson – stundum nefndur landvörður Íslands.

 

Kári er fæddur á Riftúni í Ölfusi hinn 20. maí árið 1950. Hann starfaði lengi við námskeiðahald hjá Vinnueftirliti ríkisins yfir vetrartímann en var lausari við á sumrin og gekk því til liðs við Náttúruverndarráð sem landvörður árið 1989. Starf hans varð að sýna fólki undur Íslands, upplýsa það og fræða. Allan 10. áratug síðustu aldar starfaði Kári sem landvörður á sumrin í Herðubreiðarlindum og Öskju og síðar í Hvannalindafriðlandi. Aldamótaárið 2000 var hann ráðinn í fullt starf sem aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Jökulsárgljúfrum á vegum Náttúruverndar ríkisins, síðar Umhverfisstofnunar, og starfaði þar til ársins 2004, um helming þess tíma sem starfandi þjóðgarðsvörður. Árið 2004 þegar Lakagígar urðu hluti af stækkuðum Skaftafellsþjóðgarði var Kári ráðinn sem sérfræðingur á svæðinu með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri. Kári varð starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hans árið 2008 og hefur starfað þar síðan; frá 2008–2015 sem aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í fullu starfi en síðustu fimm ár í hálfu starfi sem bakhjarl landvarða á hálendinu og umsjónarmaður með innviðum þjóðgarðsins þar. Kári hefur unnið störf sín af miklum áhuga og eldmóði þar sem íslensk náttúra hefur í senn verið viðfangsefnið í vinnunni og áhugamálið. Kári hefur léð náttúruvernd hug og hjarta og hefur verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum.

 

Frá árinu 1994 hefur Kári kennt náttúruvernd og aðferðafræði landvörslu á námskeiðum fyrir verðandi landverði, sem Umhverfisstofnun hefur haft veg og vanda af síðustu ár. Hann er fyrirmynd og leiðbeinandi fjölmargra sem vinna eða hafa unnið við landvörslu. Ég sjálfur er gott dæmi um það.

 

Á Náttúruverndarþingi árið 1993, í stjórnartíð Arnþórs Garðarssonar, var Kári kosinn sem aðalmaður í Náttúruverndarráð. Þar sat hann til ársins 2000 þegar ráðið var lagt niður. Kári var fulltrúi Náttúruverndarráðs í Ferðamálaráði fjögur ár af þessum tíma. Hann aflaði sér fljótt mikils trausts og virðingar meðal samráðsmanna sinna vegna óvenju mikillar þekkingar á landinu, á hugmyndafræði náttúruverndar og á starfi landvarða. Hafði hann þar sem annars staðar gott til málanna að leggja á sinn hógværa og hægláta hátt.

 

Landvarsla í orðsins víðustu merkingu hefur verið atvinna Kára í hartnær 30 ár en í starfi sínu hefur hann farið langt út fyrir það sem starfsskylda má teljast og ekki talið vinnustundirnar. Hann gjörþekkir hálendið, hefur gengið um það allt út og suður á sínum gúmmískóm. Vill ekki ganga á hörðum gönguskóm því að þeir geta farið svo illa með landið. Hann hefur þó aldrei gengið á Herðubreið því honum finnst óþarfi að hreykja sér svo hátt og standa á kolli vinkonu sinnar! Hann er snillingur í að segja frá landinu og smita fólk af virðingu fyrir því, bæði í orðum sínum og gjörðum. Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni, menningu og sögu einkennir Kára í störfum hans og hann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra. Hann er læs á land, menn, dýr og málefni. Kári hefur þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru. Sú gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum er úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengisreglur og verndargildi.

 

Kári fagnaði sjötugsafmæli í maí síðastliðnum en íslensk náttúra nýtur ennþá krafta hans sem starfsmanns Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem hann þeytist enn um hálendið þvert og endilangt til að aðstoða landverði við tæknileg mál, viðhald og uppbyggingu innviða og ekki síst til að veita þeim andlegan og faglegan stuðning við fræðslu- og eftirlitsstörf sem geta tekið mikið á. Það þekki ég af eigin raun. Það er ekkert verkefni óleysanlegt, ekkert fjall of hátt eða fljót of stórt – og Kári gerir allt úr engu að því er virðist. Það er alltaf gott að eiga Kára að. Hann er ekki bara landvörður Íslands heldur ráðagóður hugvitsmaður. Þegar við, sem þekkjum til Kára og starfa hans, skoðum ævi, viðhorf, verk og framgöngu Sigríðar í Brattholti sjáum við góðan samhljóm á milli þeirra tveggja. Það er því sannarlega við hæfi að Kári hljóti nú viðurkenningu með hennar nafni.

 

Kæri Kári, ég vil biðja þig um að taka við Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2020 um leið og ég vil færa þér miklar þakkir fyrir framsýnina, eldmóðinn, eljuna og seigluna í þágu íslenskrar náttúru. Ég treysti því að íslensk náttúra, landverðir og þjóðin öll fái að njóta hugsjóna þinnar áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira