Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra  á Umhverfisþingi 2015

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á IX. Umhverfisþingi sem haldið var á Grand Hótel Reykjavík, föstudaginn 9. október 2015.

Góðir gestir,

Það er mér heiður og ánægja að bjóða ykkur velkomin á Umhverfisþing sem haldið er í níunda sinn. Þátttaka á þessu þingi undirstrikar mikinn áhuga á þeim málum sem eru hér til umfjöllunar í dag. Þingið lofar góðu því talan níu er mögnuð, bæði í þjóðtrú og stærðfræði.

Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma í samspili náttúru og ferðamennsku og ég hlakka til að heyra þau fjölmörgu og fjölbreyttu erindi sem flutt verða í dag. Fyrirfram vil ég þakka öllum þeim sem miðla hér af þekkingu sinni á þessum mikilvægu málefnum.

And now in English –

I would especially like to thank our key-note speaker, Susan Davies, Director of Scottish Natural Heritage, for taking the tour all the way from Scotland to Reykjavik to share with us experience and knowledge from Scotland on how nature conservation and nature based tourism can go hand in hand. We are honoured to have you here, Susan, and looking forward to hearing your lecture here today.

Og svo vil ég sérstaklega þakka nemendum frá grunnskólunum á Hellu, Hvolsvelli og Þjórsárskóla fyrir að vera með okkur og kynna verkefni sem þau vinna að við endurheimt vistkerfa í sinni heimabyggð.  

Staðan og umræðan um umhverfismál minnir mig um margt á baráttuna um jafnréttismál í upphafi stjórnmálaferils míns.

Það er ákveðinn skyldleiki með þessum viðfangsefnum.

Líkt og jafnréttismálin eru umhverfismálin meðal mikilvægustu mála samtímans. Þau eru ekki einangrað viðfangsefni, heldur varða allar okkar ákvarðanatökur - stórar sem smáar - og þurfa ávallt að vera okkur leiðarljós. Það á jafnt við um ákvarðanir ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs, svo og athafnir hvers og eins í daglegu lífi. Á þessu byggist velferð okkar í framtíðinni. Þannig má segja að lykillinn að framtíðinni sé í okkar eigin höndum.

Vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi umhverfismála. Gott dæmi um það er jákvætt frumkvæði Samtaka atvinnulífsins á dögunum þegar þau héldu umhverfisdag atvinnulífsins og veittu umhverfisverðlaun í fyrsta sinn.

Í störfum mínum hef ég lagt áherslu á nýtni og góða umgengni náttúruauðlinda. Í því felst meðal annars bætt nýting, fullvinnsla hráefna sem einnig dregur úr úrgangi, að þróa nýja orkugjafa til að minnka orkusóun og hverskonar umhverfistengd nýsköpun.

Undirstöður nægtarborðsins verða að vera traustar.

Ágætu gestir;

Það má segja að umhverfismál séu mál málanna á alþjóðavettvangi, enda úrlausnarmálin mörg. Á sama tíma er mikilvægt að horfa til þess sem betur má fara á heimavelli.

Ráðuneytið hefur unnið hörðum höndum að því að styrkja stofnanakerfið sitt. Á árinu hafa forstjórar rannsóknarstofnana ráðuneytisins sameinast um að efla faglegt starf og vísindalega þekkingu á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands.

Lögð er áhersla á uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða til að skapa traustan grunn fyrir markvissa ákvarðanatöku og betri nýtingu fjármuna. Er það í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að auka skilvirkni stjórnsýslunnar.

Afrakstur þessarar vinnu er meðal annars sá að nú er unnið að frumvarpi um sameiningu Náttúrufræðistofununar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.

Þá liggur fyrir tillaga um að sameina starf ríkisins á sviði skógræktar; það er að sameina landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins í nýja stofnun.

Loks er starfshópur að störfum við að meta leiðir til að samþætta stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu, ekki síst með það að markmiði að mæta auknu álagi vegna ferðamennsku á viðkvæmum svæðum.

Landnotkun hefur breyst á undanförnum áratugum og við blasir fjöldi verkefna varðandi skipulag svo sem í landbúnaði, náttúruvernd, landgræðslu, skógrækt og ferðamennsku. Því er brýnt að unnar verði áætlanir um landnotkun sem fela í sér stefnumótun til langs tíma.

Landsskipulagsstefnu, sem ég lagði fram á haustþingi, er einmitt ætlað að setja fram leiðarljós um landnotkun, nýtingu lands og landgæða. Það tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana.

Þá hef ég mælt fyrir lagafrumvarpi á Alþingi um stefnumarkandi áætlun að uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Frumvarpið snýr að þeim svæðum sem eru undir álagi vegna mikillar ásóknar ferðamanna og er ætlað að tryggja nauðsynlega innviði og lagfæringar til að koma í veg fyrir náttúruspjöll, draga úr raski og dreifa álagi um leið og öryggi ferðamanna er aukið.

Með samþykkt frumvarpsins fáum við betri yfirsýn yfir fjárþörf og forgangsröðun verkefnum. Tryggja þarf sjálfbærni og skipuleggja til lengri tíma þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að tryggja vernd náttúrunnar meðal annars gagnvart sívaxandi nýtingu ferðaþjónustunnar. 

Ríkisstjórnin hefur sameinast um að taka þennan atvinnuveg föstum tökum og hefur ný ferðamálastefna verið kynnt undir heitinu Vegvísir í ferðaþjónustu. Þar kemur skýrt fram að íslensk náttúra er helsta aðdráttaraflið fyrir gesti sem sækja landið heim.

Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að við sem gætum náttúrunnar höfum þá yfirsýn sem innviðafrumvarpinu er ætlað að veita.

Það er því ekki tilviljun að áhersla Umhverfisþings að þessu sinni er þessi mikla áskorun sem við stöndum frammi fyrir – Verndun náttúrunnar samfara sívaxandi nýtingu í þágu ferðamennsku.

Í því samhengi er rétt að nefna endurskoðun náttúruverndarlaga en frá því að ég tók við starfi umhverfis- og auðlindaráðherra um síðustu áramót hef ég lagt ríka áherslu á að ljúka endurskoðun þeirra.

Þau mál hafa verið umdeild, en það var mér sérstakt ánægjuefni nú í upphafi þings að mæla fyrir frumvarpi til breytinga á nátturverndarlögum, sem nú er til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Bind ég vonir við að með framlagningu frumvarpsins verði hægt að ná sátt um ný náttúruverndarlög sem efla munu náttúruvernd til muna frá því sem nú er og þannig skapa sterka og framsýna umgjörð um verndun íslenskrar náttúru. Er miðað við að ný náttúruverndarlög taki gildi 15. nóvember næstkomandi.  

Íslensk náttúra er þó víðar en á landi. Haf- og strandsvæðin eru einnig mikilvægar náttúruauðlindir og hefur eftirspurn eftir fjölbreyttari nýtingu þeirra farið stöðugt vaxandi. Skort hefur á heildstæða sýn yfir starfsemi á haf- og strandsvæðum við landið og því áforma ég að leggja fram frumvarp á komandi þingi sem mun gera ráð fyrir stefnumótun og gerð skipulags á þessum svæðum.

Einnig er mikilvægt að draga úr súrnun sjávar og almennt að draga úr mengun hafsins en talið er að um 80% af mengun þess komi frá landsstöðvum. Ógnvænlegar fréttir berast af plastmengun sjávar.

Ágætu þinggestir;

Árið 2015 verður vonandi minnst sem tímamótaárs í umhverfismálum á alþjóðlegum vettvangi. Ársins þar sem þjóðir heims sameinuðust um sautján heimsmarkmið um sjálfbæra þróun til framíðar, þar sem umhverfismál eru miðlæg.

Við bindum miklar vonir við komandi aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem verður í París í lok árs.

Ætlunin er að ganga frá samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2020, þegar ákvæði Kýótó-bókunarinnar renna út. Það sem er mikilvægast við væntanlegt Parísarsamkomulag er að öll helstu ríki munu þar taka þátt.

Ísland er nú í flokki þeirra ríkja sem hafa tekið á sig hvað metnaðarfyllstu skuldbindingar í loftslagsmálum.

Ísland ber skuldbindingar til 2020 innan sameiginlegs markmiðs Evrópuríkja og hefur tilkynnt vilja til að halda þessu fyrirkomulagi áfram með því að taka þátt í sameiginlegu markmiði með Noregi og ríkjum ESB um minnkun losunar um 40% til 2030.

Ríkin eiga eftir að ganga frá hlutdeildarskiptingu í þessu markmiði, en ljóst er að um metnaðarfullt markmið er að ræða. Með þessu fyrirkomulagi gilda sömu loftslagsreglur hér á landi og í öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu.

Við skulum ekki gleyma því að staða Íslands í loftslagsmálum er góð. Það er einstakt á heimsvísu að rafmagn og hitun komi nær öll frá endurnýjanlegum orkulindum.

Mörgum ríkjum finnst mikið til þessa koma og þannig getum við orðið fyrirmyndarland í þeim efnum eins og t.d. jafnréttismálum.

Loftslagsvandinn er langtímaverkefni og verður ekki leystur í einu skrefi. En lausnir og tækniþróun sem grillir í gefa tilefni til ákveðinnar bjartsýni.

Nú er lag að taka næsta skref og nýta endurnýjanlega orku á fleiri sviðum. Þar blasa tækifærin við og við þurfum að hugsa stórt.

Minn metnaður stendur til að gera betur og í ráðuneytinu er nú unnið að því að setja raunhæf markmið í loftslagsmálum til lengri tíma.

Sem dæmi má nefna að nýta þarf rafmagn á bílaflotann í mun meira mæli en nú er gert. Þar er góð þróun í gangi en henni þarf að hraða með markvissum aðgerðum.

Gera þarf átak í að setja upp fleiri hleðslustöðvar og finna leiðir til að fleiri geti eignast rafmagnsbíla. Það er ekki ábyrgt að bíða eftir því að aðrar þjóðir verðir komnar á rafbíla langt á undan okkur.

Við eigum að styrkja og stuðla að loftslagsvænni tækni í sjávarútvegi. Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa þróað framsæknar lausnir og að þeim grænu sprotum viljum við hlúa.

Við ætlum að efla skógrækt og landgræðslu, sem græðir landið og bindur kolefni úr andrúmslofti um leið. Ríkisstjórnin hefur þegar lagt aukna fjármuni í slíkar framkvæmdir, svo sem gróðursetningar trjáplantna og hverskonar landgræðslu.

Ennfremur eru möguleikar á að endurheimta votlendi á svæðum sem eru ekki nýtt í dag, en slíkar aðgerðir gagnast bæði loftslaginu og lífríkinu.

Þá er matarsóun stórt vandamál í þessu samhengi en 30% matvæla heimsins endar í ruslinu. Framleiðsla og flutningur þeirra losar gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda, fyrir utan annað álag á móður jörð og vatnsbúskap heimsins.

Ég hef því lagt áherslu á að unnið sé gegn matarsóun, á öllum stigum, allt frá framleiðenda til neytenda.

Sömuleiðis legg ég ríka áherslu á að skógrækt og landgræðsla geti stutt náttúruvernd – við getum endurheimt náttúrulega skóga jafnhliða því að gróðursetja nytjaskóga á bújörðum.

Árið 2015 er alþjóðlegt ár jarðvegs. Jarðvegur er afar mikilvægur þáttur í náttúruvernd enda er hann órjúfanlegur hluti vistkerfa. Moldin var og er okkur Íslendingum mikilvæg og lengstum snerist líf og velsæld þjóðarinnar um frjósemi moldarinnar og afrakstur hennar, hvort sem var til beitar eða ræktunar.

Hér hefur verið unnið að jarðvegsvernd í hartnær eina öld. Margt hefur sem betur fer áunnist. Heilu sveitirnar stóðu frammi fyrir því að sandstormar og jarðvegseyðing ógnaði þeirra tilvist og allri búsetu.

Fyrir frumkvæði, þrautseigju og útsjónarsemi frumkvöðla náðist að bjarga þessum sveitum. Þessu tekst okkur oft að gleyma.

Á Degi íslenskrar náttúru í ár ákvað ég því að leggja sérstaka áherslu á jarðveg og jarðvegsvernd.

Veitti ég tvennar Náttúruverndarviðurkenningar til einstaklinga sem hafa tekist á við landgræðslu og skógrækt við sorfnar strendur og á hrjóstrugum heiðum og sýnt þannig í verki að þeim er annt um landið.

Við lifum sannarlega á tímum spennandi og krefjandi verkefna þar sem það eru forréttindi að gegna starfi umhverfis- og auðlindaráðherra.

Náttúra landsins er – ásamt sögu okkar, tungu og menningu - okkar helsta „fjöregg“. Óvíða eru sköpunarkraftar náttúrunnar eins sterkir að verki - óvíða er velferð heillar þjóðar eins háð gæðum náttúrunnar – óvíða eru lífsgæði eins samofin því að vel takist til með sambúð manns og náttúru - og hér á landi. En líkt og illa fór fyrir skessunum tveimur sem léku sér gáleysislega að fjöregginu sínu í ævintýrinu um Hlina kóngsson, þurfum við gæta að „fjöreggjum“ íslenskrar náttúru í hvívetna. 

Við lifum af gæðum náttúrunnar og umgengni um hana varðar okkur öll. Það felast miklar áskorandi í því að feta skynsamlega leið milli verndunar og nýtingar.

Okkur hefur tekist að stjórna okkar sjávarútvegi. Við verðum að tryggja að Rammaáætlun feti þá jafnvægislist sem lagt var upp með og svari erfiðum spurningum um orkunýtingu og vernd.

Hvernig tryggjum við að ferðaþjónustan verði sjálfbær og fyrirbyggjum að átroðningur valdi ekki varanlegu tjóni á náttúrunni?

Þetta eru allt grundvallarspurningar sem varða allt okkar samfélag - þar sem vega þarf saman sjónarmið þess að auka velferð og lífsgæði þjóðarinnar samtímis því að vernda náttúrugæði til framtíðar og stjórna nýtingu svo hún verði sjálfbær.

Okkur Íslendingum er svo sannarlega haldið við efnið hvað varðar krafta náttúrunnar og sköpun jarðar, hvort sem það eru eldgos, jökulhlaupin eða jarðskjálftarnir. Sköpunarsögu jarðar var lýst á ágætri bók sem verkefni sem lauk á viku – við erum hins vegar ávallt minnt á að því verki lauk alls ekki þá, nýir viðaukar við sköpunarsöguna eru skrifaðir hér á hverju ári! 

Góðir gestir;

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?

Svona orti - og jafnframt spurði - skáldkonan Hulda í ljóði sínu til dýrðar íslenskri náttúru fyrir margt löngu. Auðvitað er ekkert eitt svar við spurningu Huldu enda finnst hverjum sinn fugl fagur.

Staðreyndin er hins vegar sú að sérstaða íslenskrar náttúru er orðin okkar helsta tekjulind mæld á kvarða gjaldeyristekna þjóðarbúsins.

Þá má ekki gleyma að sérstaða íslenskar náttúru er ekki síst fólgin í fjölbreytninni – það leynist fegurð í íslensku þúfunni ekki síður en mikilfenglegum fjöllum. Við eigum þjóðgarð sem er meðal þeirra stærstu í álfunni en jafnframt friðum við bakkabörð og ása hér innan marka Reykjavíkur.

Það eru sameiginlegir hagsmunir náttúrverndar og ferðaþjónustu að okkur takist vel að stíga í takt dans verndar og nýtingar.

Og þegar ég segist vilja efla vitund atvinnulífsins um mikilvægi náttúruverndar og umhverfismála almennt á ég ekki síst við ferðaþjónustuna. Þar þurfum að við að stórefla samstarf um verndun og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar. 

Ég hlakka til að verða margs fróðari um lausnir, hugmyndir, strauma og stefnur í þeim efnum og ber þá von í brjósti að sá fróðleikur hjálpi okkur öllum að taka heillavæn skref, náttúrunni til góða.

Úrlausnarefnin eru mörg og brýn og okkur varla til setunnar boðið.

Að svo mæltu skipa ég Hildu Jönu Gísladóttur, sjónvarpsstjóra á N4, þingforseta og fel henni fundarstjórn.

Ég segi hér með níunda Umhverfisþing sett. 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum