Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á morgunarverðarfundi Saman gegn sóun

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfaradi ávarp á morgunverðarfundi Saman gegn sóun sem haldinn var á Hallveigarstöðum 17. mars 2016.


Ágætu gestir,

það er mér sönn ánægja að kynna fyrir ykkur fyrstu almennu stefnuna um úrgangsforvarnir, er nefnist Saman gegn sóun, sem sett er fram skv. lögum um meðhöndlun úrgangs. Ég lít svo á að stefna þessi marki ákveðin tímamót. Hún fellur vel að því sem samfélagið hefur verið að kalla eftir og fjallar um hvernig við getum nýtt auðlindir okkar sem best.

Með réttu hugarfari getum við breytt notkun, endurnýtt hluti og spornað við sóun á sem flestum vígstöðum. Góð umgengni snýst líka um að nýta hlutina vel, láta þá endast svo að sem minnst fari til spillis. Við sem störfum og lifum á þessari jörð berum mikla ábyrgð og verðum að hyggja að auðlindum okkar og nýta af skynsemi svo engu sé sóað. Aðeins þannig er hægt að tryggja sjálfbærni til lengri tíma fyrir þær kynslóðir sem á eftir okkur koma.

Í stefnunni, sem gildir til 12 ára, er sérstök áhersla lögð á níu flokka. Matvæli, plast og textíll verða í forgangi tvö ár í senn. Sérstök áhersla er á matarsóun nú í ár og næsta ári. Áhersla á minni plastnotkun verður síðan frá árinu 2018, textíll frá 2020, raftæki frá 2022, og síðan grænar byggingar og pappír.

Spennandi tækifæri eru framundan til að virkja kraft nýsköpunar og til að skapa græn störf. Við viljum hafa framtíðina græna og þurfa fjárfestar í auknum mæli að koma að borðinu til að taka þátt í þeirri þróun svo fyrirtæki og einstaklingar geti lagt meira af mörkum til umhverfismála.

Gert er ráð fyrir að verkefni sem heyri undir þessa flokka verði til úti í samfélaginu og á meðan hver flokkur er í forgangi samkvæmt stefnunni er mögulegt að sækja um verkefnastyrki til ráðuneytisins fyrir verkefni, sem stuðla að markmiðum stefnunnar verði náð.

Að loknu hverju tveggja ára tímabili verður árangur stefnunnar metinn með hliðsjón af þróun umhverfisvísa viðkomandi flokks. Í stefnunni eru auk þess þrír flokkar sem unnið verður með til lengri tíma, þ.e. aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og úrgangur frá stóriðju.

Við höfum dæmin allt í kring um okkur um það hvernig við getum breytt í okkar daglega lífi til að draga úr sóun. Nýlega höfðum við til umfjöllunar kranavatnið okkar góða sem við getum í auknum mæli notað í stað þess að kaupa og bjóða upp á vatn á plastflöskum. Það eru ekki margir áratugir síðan plastið varð til og einnota umbúðir urðu vinsælli, sem nú valda okkur usla og neikvæðum umhverfisáhrifum.

Í ráðuneytinu er verið að móta tillögur um hvernig hægt sé að stuðla að minni plastpokanotkun. Ég ætla einnig að kalla eftir tillögum um hvernig hægt sé að minnka plastnotkun almennt og mun því setja þá vinnu af stað á næstunni með aðkomu þeirra sem málið varðar.

Til að stuðla að hugarfarbreytingu hjá okkur öllum er mikilvægt að efla fræðslu um nauðsyn þess hvernig sporna má við þessari sóun, koma í veg fyrir úrgang og nýta hráefni til að auka endurnotkun og endurnýtingu. Nýtni þarf þannig að vera okkur leiðarljós og getur hvert og eitt okkar lagt sitt af mörkum. Sóun matvæla á sér stað til að mynda á öllum stigum í keðjunni, hjá framleiðanda, við flutning, í verslunum, á veitingastöðum og hjá neytendum.

Auk fyrrgreindra markmiða er tilgangur stefnunnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að draga úr notkun hráefna og að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi.

Leiðarljósið að lokatakmarkinu er að enginn úrgangur myndist, hvorki sorp né mengun og að allar vörur sem eru framleiddar séu endurvinnanlegar að öllu leyti. Þannig helst stöðug hringrás efna og orku í náttúrunni sem tryggir hringrás auðlindanna.

Fræðsla um forvarnir gegn úrgangi er mikilvæg og því er ánægjulegt að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið unnið, meðal annars í samstarfi við Ísland, námsefni fyrir miðstig grunnskóla um þetta málefni. Námsefnið leggur meðal annars áherslu á komið sé í veg fyrir sóun matvæla og er sett fram á skemmtilegan hátt, til dæmis kemur fram að það þurfi um það bil 175 lítra af vatni til að laga kaffi í einn kaffibolla.

Allt þetta tengist kjörorðum mínum sem umhverfis- og auðlindaráðherra sem eru betri nýtni og góð umgegni.

Matvælasóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar, Saman gegn sóun og má segja að þar með sé eftirfylgni með skýrslu starfshóps um matarsóun, sem kom út í apríl í fyrra, tryggð.

Það er ánægjulegt að sjá að nokkur verkefni, hjá þeim sem tóku þátt í starfshópnum, eru þegar farin að líta dagsins ljós og hvet ég hin til að halda ótrauð áfram og setja aðgerðir af stað sem sporna gegn matarsóun.

Hér á eftir fáum við að heyra af ýmsum aðgerðum sem tilheyra fyrsta áhersluflokknum og eru meðal annars í samræmi við niðurstöður starfshópsins.

Nefna má að unnið er að undirbúningi fyrir fyrstu rannsóknina á matarsóun á Íslandi, opnuð verður ný vefgátt um matarsóun og unnið er að minni sóun hjá framleiðendunum og verslunum með nýju kerfi strikamerkja.
Matarsóun er einnig hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, þar sem það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Baráttan gegn matarsóun hefur verið í brennidepli síðustu misseri, ekki bara á Íslandi heldur einnig á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu. Öll Norðurlöndin hafa á síðustu árum beitt sér fyrir minni sóun matar og hafa sum þeira náð eftirtektarverðum árangri á þessu sviði.

Í Frakklandi taka brátt gildi lög sem skylda alla í virðiskeðjunni til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir matarsóun. Matvöruverslunum af tiltekinni stærð þar í landi verður bannað að henda mat og þeim gert skylt að semja við góðgerðarfélög til að auðvelda matargjafir.

Ég hef verið að íhuga hvaða leiðir við Íslendingar ættum að velja og hvað sé hægt að gera til að stemma stigum enn frekar við matarsóuninni. Hvort við ættum að hafa til hliðsjónar lögin í Frakklandi sem skylda alla í fæðukeðjunni þ.e. frá framleiðanda til matvöruverslana til að grípa til aðgerða.

Mér hugnast ekkert síður þær leiðir sem Danir hafa farið, þar eru ýmsar aðgerðir í gangi.
Til dæmis hafa verslanir verið settar á laggirnar til að sporna við vandanum sem selja auk matvæla útlitsgallaðar vörur. Hér á landi mætti hugsa sér að Rauði krossinn sem hefur gert stórkostlega hluti gæti gert eitthvað sambærilegt og afraksturinn kæmi þeim til góða og þar með þeim sem við þurfum að huga að, þ.e. því fólki sem líður hungur á meðan við sóum.

Ágætu gestir,
að lokum vil ég óska ykkur ánægjulegs og uppbyggilegs fundar og hlakka til að heyra erindin ykkar á eftir. Vona sannarlega að hvert og eitt okkar leggi sitt af mörkum í að sporna við sóun og jafnframt að við hvetjum þá sem í kringum okkur eru að gera slíkt hið sama. Vona að lokum að þið eigið ánægjulegan dag framundan um leið og ég óska ykkur góðs gengis.

Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum