Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. apríl 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2016

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var 12. apríl 2016.

 

Góðir gestir,

Það er alltaf gaman að koma hingað í Veðurstofuna. Kannski er það þó svo að sjaldan hefur verið jafn góður tími fyrir ráðherra að fá tækifæri til að koma hingað og fá að tala um veðrið.

En auðvitað er fátt merkilegra umræðuefni en einmitt veðrið og ekki síst hér á Íslandi. Það er okkur mikil nauðsyn að hafa öfluga og góða Veðurstofu, sem vaktar og upplýsir um hegðun lofthjúpsins og raunar hafs og vatns og jarðskorpunnar líka.

Undanfarin ár hafa verið um margt góð fyrir Veðurstofu Íslands. Viðfangsefnin hafa verið fjölbreytt og oft erfið, en stofnunin og starfsmenn hennar hafa vaxið við hverja raun. Þar skiptir hugarfarið ekki síst máli. Starfsmenn og stjórnendur hafa séð tækifæri í áskorunum og gripið þau. Ég vil láta ykkur vita að ég hef tekið eftir þessu - og við í ráðuneytinu - og við metum það við ykkur.

Veðurstofa Íslands er vísindastofnun; hún er græjustofnun. Það dugar skammt á 21. öldinni að hlaupa upp á Vífilsfell til að gá hvort viðrar til róðra, eins og á tíma Ingólfs Arnarsonar. Það þarf veðurathugunartæki um allt land og mikinn tölvukost til að vinna úr upplýsingum.

Stórt og merkilegt skref var stigið á síðasta ári hvað það varðar, þegar ofurtölva dönsku veðurstofunnar var sett hér upp, sem um verður fjallað hér á eftir. Það kom einhverjum spánskt fyrir sjónir, enda yfir 70 ár frá því að við kvöddum konungdæmið. Við erum þó nærri landfræðilegri miðju danska ríkjasambandsins, enda leggur Grænland til flesta ferkílómetrana þar. Það eru þó fleiri ástæður fyrir þessari ákvörðun og ástæða til að nefna þær, þótt flestir hér inni þekki þær vel.

Ein ástæðan sem gefin var upp af Dönum var loftslagssjónarmið. Það veldur minni losun gróðurhúsalofttegunda að staðsetja tölvuna hér en í Danmörku sjálfri. Rafmagn hér er framleitt með endurnýjanlegri orku. Ég tel að þetta merkilega framtak sýni að við eigum fleiri tækifæri til að fá ofurtölvur og gagnaver til landsins út frá þessum forsendum, ekki síst eftir samþykkt Parísarsamkomulagsins um hertar aðgerðir í loftslagsmálum.

Ég vil vernda íslenska náttúru og tryggja að við förum eftir settum leikreglum um virkjanir og náttúruvernd. Við munum þó halda áfram að nýta endurnýjanlega orku og það væri ánægjulegt ef hún gæti stutt við nýja og spennandi starfsemi á borð við rekstur ofurtölva og gagnavera, auk þess sem við rafvæðum samgöngur. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt fram drög að sínum tillögum og kallað eftir athugasemdum. Mikil og góð vinna hefur verið unnin hjá verkefnisstjórninni og stórum áfanga hefur verið náð með þeim tillögum sem hún lagði fram nýverið.

Önnur ástæða þess að danska veðurstofan setur upp ofurtölvu hér við Bústaðaveg er einfaldlega sú að Veðurstofu Íslands er treyst. Hún hefur skapað sér nafn og tengsl með þeim hætti í alþjóðlegu samstarfi að erlend stofnun kýs að fara í samrekstur á tölvubúnaði, sem er hýstur hér á landi. Þetta er afar ánægjulegt.

Ég hef skipað starfshóp sem falið er það verkefni að vinna frumvarp til laga um að komið verði á fót hamfarasjóði.  Lagt verður til að hamfarasjóður fái það hlutverk að sinna forvörnum og samhæfingu verkefna á sviði náttúruvár og verkefni á sviði forvarna verða aukin. Jafnframt að hafa umsjón með greiðslu bóta, í ákveðnum tilvikum, af völdum náttúruhamfara. Ákvörðun um skipan starfshóps er á grundvelli tillögu starfshóps sem skipaður var til að skoða fýsileika þess að stofna hamfarasjóð.

Alþjóðlegt samstarf er mikilvægt í starfi Veðurstofu Íslands. Ísland varð nýlega fullur aðili að EUMETSAT, evrópsku veðurtunglastofnuninni, þar sem Veðurstofan tekur þátt fyrir Íslands hönd.

Ég heimsótti höfuðstöðvar EUMETSAT í Darmstadt í Þýskalandi í nóvember síðastliðnum, sem var mjög ánægjuleg upplifun fyrir mig. Ég starfaði í Darmstadt á sínum tíma og gat því bæði rifjað upp gamlar minningar og fengið fræðslu um nýjustu geimtækni. Starfsemi EUMETSAT er auðvitað að mestu tæknileg, en hún byggir á alþjóðlegum samningi þjóðríkja og ég tel það mikilvægt að ráðherrar og fulltrúar stjórnvalda kynni sér það góða starf.

Við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu viljum einnig styðja Veðurstofuna annars staðar þar sem þarf, til dæmis varðandi alþjóðlegt samstarf við flugveðurspár og vöktun eldfjalla.

Góðir gestir,

Ég nefndi hér loftslagsmál og Parísarsamkomulagið fyrr, í tengslum við ofurtölvuna, en loftslagsmálin koma víðar við hjá Veðurstofunni.

Ríkisstjórnin samþykkti sóknaráætlun í loftslagsmálum fyrir Parísarfundinn, en hún var einmitt kynnt hér. Sóknaráætlun er fyrsta heildstæða verkefnaáætlun á Íslandi í loftslagsmálum sem fær fjármagn til verka. Þar tengjast nokkur verkefni Veðurstofunni og ég vil aðeins brydda á þeim.

Ráðuneytið fól Veðurstofunni að ritstýra vísindaskýrslu um líklegar afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi, sem von er á fyrir lok þessa árs. Þá er í fyrsta sinn sett upp verkefni um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem einnig verður leitt af Veðurstofunni.

Einnig er að finna í sóknaráætlun verkefni sem ber yfirskriftina „Jöklar Íslands – lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar“. Þar er ætlunin að tvinna saman vöktun Veðurstofunnar á jöklum og jökulsporðum og miðlun þeirra upplýsinga til ferðamanna og almennings af hálfu Vatnajökulsþjóðgarðs og mögulega fleiri aðila.

Ég vænti mikils af öllum þessum verkefnum og tel Veðurstofuna meðal lykilstofnana í margvíslegu starfi stjórnvalda í loftslagsmálum. Ég vil líka þakka Veðurstofunni fyrir ágætt framlag í formi fyrirlesturs um íslenska jökla á Parísarfundinum. Í París var stigið sögulegt skref í loftslagsmálum og Ísland var þar með viðameiri kynningu en nokkru sinni áður og það verður bara að segja eins og er að sú kynning tókst afar vel.

Góðir gestir,

Það er engin lognmolla í samfélaginu, en nú er vor í lofti og rétt að horfa fram á veginn með bjartsýni og starfsgleði í stafni.

Það hefur verið sviptivindasamt á undanförnum árum í íslensku þjóðfélagi og það er mikilvægt á slíkum tímum að sýna festu og standa vörð um mikilvægar stofnanir og starfsemi.

Ég vona að Veðurstofan finni fyrir því að ráðuneytið og stjórnvöld vilja styðja hana og efla til góðra og nauðsynlegra verka. Ég mun halda þeim stuðningi áfram sem ráðherra og búa í haginn fyrir Veðurstofuna, svo hún geti áfram tekist á við sín verkefni, jafnt gamalgróin sem ný.

Ég óska ykkur góðs ársfundar og bið okkur svo öll að ganga út í vorið til góðra verka.

Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum