Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á afmælisráðstefnun Landmælinga Íslands

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á 60 ára afmælisráðstefnu Landmælinga Íslands sem haldin var 20. maí 2016.

 

Ágætu gestir,

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa afmælisbarnið, Landmælingar Íslands hér á Akranesi, sem fagnar  60 ára afmæli sínu á þessu ári. Þetta er góður og ekki síður virðulegur aldur, stofnunin er búin að slíta barnskónum og hefur náð að þroskast og dafna vel.

Ég heimsótti Landmælingar Íslands fljótlega eftir að ég tók við embætti ráðherra eins og aðrar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið. Sá góði andi sem ég varð vör við hjá starfsfólkinu á Akranesi hreif mig strax í heimsókninni og mér varð líka ljóst að hér væri unnið mikið vísinda- og rannsóknastarf.

Það kom mér á óvart í þessum heimsóknum til stofnana, hve víða var verið að vinna að kortagerð og að grunnurinn í þá vinnu var sóttur til Landmælinga Íslands. Þetta finnst mér sýna hversu mikil grundvallarstofnun Landmælingar Íslands er og án efa enn mikilvægari í dag en áður fyrr.

Í mínum huga er mikilvægi Landmælinga Íslands af tvennum toga. Annars vegar búum við í þessu landi, sem alltaf er að breytast, það  teygist, lækkar og hækkar. Hér eru tíð eldgos sem breyta landi og við verðum vitni að aðstæðum eins og í Höfn í Hornafirði þar sem land er að lyftast.

Hins vegar upplifum við nú gífurlegan fjölda ferðamanna sem vill sækja landið heim. Af þessum sökum þurfum við að kortleggja landið vandlega og undirbúa okkur betur fyrir það hvernig við miðlum upplýsingum um það.

Sannarlega hefur hlutverk Landmælinga breyst mjög mikið úr því að vera framleiðslustofnun prentaðra korta yfir í það að byggja upp grunngerð landupplýsinga, traust hnita- og hæðarkerfi og að veita aðgengi að grunnupplýsingum um yfirborð og náttúru Íslands án þess að taka gjald fyrir. Slík gögn eru ekki síst mikilvægur hlekkur við vöktun á náttúruvá og við framkvæmd almannavarna.

Ennfremur eru kortagögn orðin hluti af daglegu lífi fólks sem hægt er að nýta af margvíslegum toga s.s. vegna öryggisþáttar og í markaðslegum tilgangi. Ég hef lengi gengið með þá hugmynd að búa til svokallaðar ferðamannagönguleiðir sem geta orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, ekki síst íslenska.

Markmiðið er fyrst og fremst að fræða og varðveita söguna fyrir þær kynslóðir sem á eftir okkur koma. Í grófum dráttum er hugmyndin að búa til gönguleiðir sem gætu legið saman og tengt sögu, menningu og náttúru. Í ferðalaginu gæti fólk t.d. notið þess að fræðast um sögu liðinna tíma í gegnum snjallsíma út frá stafrænum landakortum.

Það er ekki annað að sjá en að Landmælingar Íslands blómstri á Akranesi og flutningurinn hingað hafi tekist vel þrátt fyrir talsverðan hamagang á sínum tíma. Ég er alveg sömu skoðunar og þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, var þegar Landmælingar Íslands voru fluttar til Akraness.

Ég vil sjá fleiri stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins. Rök um stærðarhagkvæmnina eiga ekki alltaf við og vildi ég sjá fleiri stofnanir fluttar frá höfuðborgarsvæðinu en til þess. Það gæti orðið stofnunum til góða eins og reyndin er með Landmælingar Íslands

Góðir gestir,

Mig langar að nefna nokkur verkefni sem ráðuneytið er að vinna að í samstarfi við sínar stofnanir sem án efa snertir starfsemi Landmælinga Íslands.

Samþykkt Alþingis á landskipulagsstefnu til ársins 2026 markar tímamót í skipulagsmálum þar sem horft er til lengri tíma í samgöngum, byggðamálum, náttúruvernd og orkunýtingu. Skipulagsmál og landupplýsingar eru nátengd og geta ekki án hvors annars verið. Landupplýsingar veita upplýsingar um afmörkun landa og lóða.

Öllum er ljóst að við sem erum varðliðar umhverfisins stöndum frammi fyrir nánast óþekktum áskorunum, sem er hinn sívaxandi fjöldi ferðamanna.

Brýnt er að skilgreina betur hvað er ferðamannasvæði enda er náttúran frá fjöru til fjalla á Íslandi, einstök auðlind sem ber að vinna með af virðingu og alúð. Ég bind miklar vonir við ný lög um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Ráðuneytið hefur styrkt starfsemi sína til að mæta þessu verkefni til að sinna málefnum tengdum ferðaþjónustu og nýtingar hennar á náttúrunni, áætlanagerð og stefnumótun í tengslum við innleiðingu nýrra laga um innviðauppbyggingu.

Fulltrúar þriggja ráðuneyta sem og sveitarfélaga sitja í verkefnisstjórninni og gera tillögur um verkefni og forgangsröðun framkvæmda.

Ágæti forstjóri Landmælinga Íslands og starfsfólk,

Hjá Landmælingum Íslands á Akranesi starfar glæsilegur hópur sérfræðinga. Ljóst er að framundan er átak við að takast á við mikla tækniþróun og á sama tíma að samræma vinnubrögð allra sem á þessu sviði starfa. Ekki síst þarf samvinna opinberra aðila að aukast enn frekar til að ná meiri árangri og til að koma í veg fyrir tvíverknað og óþarfa kostnað og þar hafa Landmælingar Íslands mikilvægt forystuhlutverk.

Mig langar að lokum að óska starfsmönnum Landmælinga Íslands og okkur öllum til hamingju með 60 ára afmæli Landmælinga Íslands á þessu ári með bestu óskum um bjarta og farsæla framtíð.

Einnig langar mig til að nota tækifærið hér og óska starfsmönnum til hamingju með afar góðan árangur í könnuninni Stofnun ársins 2016, en nú nýlega hlaut stofnunin nafnbótina Fyrirmyndastofnun 2016 og var þar í þriðja sæti í sínum stærðaflokki stofnana. Landmælingum Íslands er þessi nafnbót orðin góðkunn, enda hefur stofnunin verið í fremstu röð Fyrirmyndarstofnana síðustu árin, sem er mikill árangur og sýnir hversu vel stofnunin er starfrækt og hvað starfandi er hér góður.

Kærar þakkir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum