Hoppa yfir valmynd
08. desember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi Samorku um orkuskipti á hafi

Kæru gestir,

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag, sem ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, þegar við kynnum nýlega skýrslu um orkuskipti á hafi.
Ég tel það vera vel við hæfi að eitt fyrsta opinbera ávarp mitt í nýju ráðuneyti skuli vera á sviði orkuskipta.

Orkuskiptin eru eitt af okkar stóru verkefnum framundan eins og rækilega er undirstrikað í stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar. Þar höfum við sagt með skýrum hætti að Ísland ætlar að vera fyrst þjóða til að klára sín orkuskipti og vera óháð jarðefnaeldsneyti, á öllum sviðum, fyrir 2040.

Það er bæði metnaðarfullt en ekki síður ótrúlega spennandi markmið og áskorun.

Orkuskiptin sýna okkur einnig, svart á hvítu, hversu nátengd loftslags- og orkumál eru. Orkuskiptin er lykilþáttur í aðgerðum okkar á sviði loftslagsmála. Og orkuskiptin eru meginstef í Orkustefnu Íslands. Orkumál eru því loftslagsmál og loftslagsmál eru orkumál. Ég tel það því framfaraskref að þessum málaflokkum sé nú sinnt innan sama ráðuneytis.

Saga orkuskipta á Íslandi er um margt merkileg og einstök og hófst fyrir meira en hundrað árum síðan með nýtingu vatnsorku og með nýtingu jarðvarma upp úr miðri síðustu öld. Hreinum orkuskiptum er nánast fulllokið á sviði raforkuframleiðslu og húshitunar á Íslandi; við vorum fyrst ríkja til að ná þeim áfanga. Í dag erum við í þriðja áfanga okkar orkuskipta.

Áherslan hefur verið á orkuskipti í samgöngum undanfarin ár, með góðum árangri, og er smám saman að færast yfir á þungaflutninga, hafsækna starfsemi og flug.

Í dag fengum við kynningu á skýrslu sem DNV (Det norske veritas) hefur unnið fyrir okkur, um orkuskipti á hafi. Að þessu verkefni komu Samorka, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Faxaflóahafnir og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það er traustvekjandi og gott að sjá þessa breiðu aðkomu að verkefninu, sem veit á gott þar sem gera má ráð fyrir að margir þeir sem best þekkja til innan þessa sviðs hafi rýnt skýrsluna vel.

Ný ríkisstjórnarsáttmáli varðar veginn fyrir næstu næstu skref í orkuskiptum Íslands og loftslagsaðgerðum, ásamt nýlegri Orkustefnu fyrir Ísland.

Sem áður segir ætlum við fyrir 2040 að verða óháð jarðefnaeldsneyti og við erum núna stödd í þeim mikilvæga leiðangri að finna hvað eigi að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi og hvernig við getum aðlagað kerfi okkar að breyttum tímum.

Fókusinn í aðgerðum okkar í orkuskiptum í dag og á komandi árum er ekki hvað síst á orkuskipti á hafi og hafsækna starfsemi. Þar eru bæði áskoranir en ekki síður veruleg tækifæri framundan. Og þar, eins og svo víða, er það nýsköpun og hugvit sem mun eiga stóran þátt í að varða veginn.

Þessi skýrsla sem kynnt var hér í dag er gott innlegg og veganesti í þá vinnu sem framundan er. Með skýrslunni hefur DNV stillt upp fyrir okkur samantekt og ólíkum sviðsmyndum sem hægt er að rýna og byggja frekari vinnu á.

Hér er um að ræða gott samstarf á milli stjórnvalda og atvinnulífs. Jafnt stjórnvöld sem atvinnulífið þurfa vitneskju og upplýsingar um fýsilegar leiðir í orkuskiptum, og samanburð á milli ólíkra leiða.

Orkuskipti á hafi eru mögulega á þeim stað sem orkuskipti á landi voru fyrir um tíu árum síðan. Tæknin var þá dýr og ekki orðin fullþróuð fyrir neytendamarkað. Innviðir á borð við hleðslustöðvar fyrir rafbíla voru varla til staðar og margir spurðu hvaða tækni yrði ofan á.

Í staðinn fyrir að sitja með hendur í skauti var lagt af stað þá með ýmsar almennar aðgerðir til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum á landi. Öll tækni fékk tækifæri til að spreyta sig, almennur stuðningur var veittur, hvatar voru settir, markaðurinn þróaðist og neytendur og fyrirtæki tóku við sér.

Fyrst hægt, en síðan með sívaxandi þunga og hraða á allra síðustu árum og mánuðum. Með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 og uppfærðri áætlun 2020 kom stóraukið fjármagn til uppbyggingu innviða til orkuskipta. Þar var meðal annars horft til samvinnu við orkufyrirtæki og aðra í gegnum Orkusjóð, þannig að stuðningi ríkisins fylgdu mótframlög frá öðrum og fjármagnið nýttist sem best.

Í dag erum við því á allt öðrum stað en fyrir tíu árum. Orkuskiptin á landi eru komin vel á veg. Hleðslustöðvar hafa sprottið upp eins og gorkúlur. Ísland getur nú státað sig af því að vera með þeim fremstu á heimsvísu í þeim efnum, samanber nýskráningu rafbíla þar sem Ísland er í öðru sæti á heimsvísu.

Við getum dregið lærdóm af þessari reynslu síðustu ára. Ég hef þá trú, að við, fiskveiðiþjóðin Ísland, eyjasamfélagið í Norður-Atlantshafi, hafi alla burði til þess að ná viðlíka árangri í orkuskiptum á hafi.

Þar eru hinsvegar öðruvísi áskoranir heldur en í orkuskiptum í landi, og farsælt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda að mörgu leyti enn mikilvægara.

Skýrsla DNV er gott innlegg í að vísa okkur veginn. Hún gefur okkur innsýn í hvaða skref er hægt að taka til lengri og skemmri tíma.

Meðal þess sem komið er inn á í skýrslunni er mikilvægi rafeldsneytis og vetnis fyrir næstu áfanga í orkuskiptum okkar á hafi. Sem og að innviðir þurfa að vera til staðar til að við náum markmiðum okkar.

Þessar áherslur ríma vel við vinnu sem unnið hefur verið að undanfarnar vikur og mánuði í Stjórnarráðinu, varðandi gerð Vegvísis um rafeldsneyti og vetni fyrir orkuskipti.

Er þar um eftirfylgni að ræða úr Orkustefnu Íslands og aðgerðaráætlun Orkustefnu.

Það blasir við okkur að rafeldsneyti og grænt vetni muni leika ákveðið lykilhlutverk á næstu árum og áratugum varðandi staðgöngu fyrir jarðefnaeldsneyti, og til að ná okkar markmiðum í orkuskiptum.

Þessi Vegvísir er vel á veg kominn, drög að honum hafa verið kynnt haghöfum og verið er að vinna úr umsögnum. Geri ég ráð fyrir að á næstu vikum verði Vegvísirinn kynntur og gefinn út.

Kæru gestir.

Ég vil að lokum þakka Samorku, Faxaflóahöfnum og SFS fyrir mjög gott samstarf, sem meðal annars hefur leitt af sér þessa skýrslu sem við fengum kynningu á hér í dag.

Ég hef fulla trú á að þetta samstarf muni halda áfram, enda er slíkt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda, og opin umræða, eina leiðin fyrir Ísland til að ná metnaðarfullum markmiðum sínum þegar kemur að orku- og loftslagsmálum.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum