Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á hátíðardagskrá í tilefni af Degi umhverfisins

Góðir gestir,

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að mæta hér í dag þar sem við fögnum Degi umhverfisins í 24. sinn. Allt frá upphafi hefur dagurinn verið vettvangur fyrir afhendingu viðurkenninga fyrir umhverfismál og í ár verður engin undantekning þar á. En hér á eftir mun ég afhenda Kuðunginn fyrirtæki sem hefur náð framúrskarandi árangri í umhverfismálum og sömuleiðis útnefna grunnskólanemendur Varðliða umhverfisins fyrir verkefni um umhverfismál.

Bæði fyrirtækjaverðlaunin og nemendaverðlaunin eiga sér sterkan samhljóm við þær áskoranir og þrýstihópa sem hafa verið áberandi í umræðu um umhverfismál.

Þannig tengist fyrirtækið sem hlýtur Kuðunginn með beinum hætti einni af stóru áskorununum sem við stöndum frammi fyrir í losunarmálum. Með umhverfisstefnu sinni hefur umrætt fyrirtæki sýnt að með því að axla samfélagslega ábyrgð geta fyrirtæki skilað umtalsverðum árangri í umhverfismálum án þess að vinna gegn markmiðum sínum um hagnað – þvert á móti getur þetta farið vel saman.

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins hefur frá upphafi haft það að markmiði að vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Við þekkjum öll hvernig ungt fólk hefur látið að sér kveða í þessum efnum og hvernig það hefur hvatt okkur fullorðna fólkið til dáða þegar kemur að málefnum loftslags og umhverfisins. Nemendurnir sem hljóta Varðliða viðurkenninguna í dag hafa sýnt hvernig unga kynslóðin getur, með því að horfa gagnrýnum augum á nærumhverfi sitt, verið aflvaki breytinga og leyst ólíkar áskoranir í umhverfismálum.

Góðir gestir,

Það er ánægjulegt að fá að gegna starfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á tímum þegar umhverfismál fá sífellt meira vægi í samfélaginu öllu.

Ísland getur líka verið í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu en til þess þarf að sigrast á stórum áskorunum. Þróun og árangur íslensks samfélags hefur byggst á því að skapa jafnvægi í sambýli fólks og náttúru. Á því þarf að byggja til framtíðar og tryggja með því forsendur til velsældar núverandi og komandi kynslóða.

Hitaveituvæðing Íslands er oft nefnd sem dæmi um framsækni landsins í loftlagsmálum á fyrri tímum. Þessi framsækna aðferð við að nýta jarðhitann sem við erum svo lánsöm að búa yfir heillaði umheiminn. Það nýtti sér auðlindir sínar til aukinnar hagsældar og dró úr brennslu innflutts eldsneytis. Það er mikilvægt að halda þessu á lofti því við getum verið stolt af árangrinum sem með því náðist.

Varðandi þær áskoranir sem að við stöndum frammi fyrir í dag þá viljum við að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins. Ísland hefur líka sett sér sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005.

Tilgreint er í stjórnarsáttmála að leggja eigi áherslu á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar og hraða orkuskiptum á öllum sviðum. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.
Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána og að markmið okkar um forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu náist.

Ísland stendur vissulega framar öðrum þjóðum á sviði orkuskipta. Hreinum orkuskiptum rafmagns og hita er svo gott sem lokið á Íslandi, sem er einsdæmi á heimsvísu, auk þess sem Ísland er í góðu færi að verða meðal fyrstu eða jafnvel fyrst ríkja til að hætta alveg notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta gefur Íslandi möguleika á að vera fyrirmynd í alþjóðlegu samhengi loftslagsmála.

Líkt og önnur ríki stendur Ísland þó einnig frammi fyrir áskorunum. Fram undan eru græn orkuskipti og ljóst er að eftirspurn eftir grænni orku mun aukast á komandi árum. Tækifærin og lausnirnar kalla á græna orku. Án öflugrar þátttöku atvinnulífsins í orkuskiptum munum við ekki ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram.

Þess vegna er líka ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum um þessi brýnustu mál samtímans. Þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð og vilja leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og hámarka jákvæð áhrif.

Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins. Tilnefningar til umhverfisverðlauna eins og Kuðungsins sýna einmitt að mörg fyrirtæki vilja ganga lengra í því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið en reglur segja til um og því ber að fagna.

Góðu gestir,

Markmið okkar í loftlagsmálum eru metnaðarfull og krefjandi en ávinningurinn er ótvíræður og mun nýtast okkur og komandi kynslóðum um ókomna tíð. Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að hlustað sé á raddir vísindamanna, almennings og ekki síður að hlustað sé eftir röddum unga fólksins.

Leiðsögn unga fólksins er ómetanlegt veganesti á þessari leið. Ungt fólk hefur enda ekki bara skoðanir á því hvernig við ættum að haga málum heldur oft á tíðum frábærar hugmyndir og lausnir á ýmsum umhverfisvandamálum sem nútíminn glímir við. Það er því ánægjulegt að fá tækifæri til þess hér á eftir að afhenda grunnskólanemendum viðurkenninguna Varðliða umhverfisins, sem nú er veitt í fimmtánda sinn.

Góðir gestir,
Það er mikilvægt að við horfum bjartsýn til framtíðar og leitumst við að sjá tækifæri í áskorununum. Markmið loftslagsvegferðarinnar er kolefnishlutlaus, réttlát, samkeppnishæf framtíð sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfis og ég er þess fullviss að með samstilltu átaki og skýrum markmiðum séu okkur allir vegir færir.

Takk fyrir og innilega til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum