Hoppa yfir valmynd
04. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Loftslagsmóti 2022

Ágæta samkoma,


Það er mikill heiður að fá að opna Loftslagsmótið í ár, í þriðja sinn sem það er haldið. Þetta er mikilvægur viðburður sem er komin til að vera. Ég vil byrja á að þakka Grænvangi og RANNÍS fyrir að standa að viðburðinum í samstarfi við Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð og okkur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Það er nauðsynlegt að hafa öfluga aðila til að ná fólki saman. Fólki úr ólíkum áttum, fyrirtækjum, stofnunum og öðrum aðilum sem sinna nýsköpun, til að ræða vegferðina að kolefnishlutleysi. Þessi viðburður fellur þess vegna einkar vel að áherslum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Eitt helsta hugðarefni mitt og áherslumál sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er að efla þátttöku íslensks atvinnulífs í mótun og framkvæmd loftslagsaðgerða. Að ólíkir aðilar, úr öllum kimum samfélagsins, stigi inn af fullum þunga og vinni saman til að leita allra þeirra lausna sem við þurfum til að leysa og mæta loftslagsvánni. Án öflugrar þátttöku allra og þá sérstaklega atvinnulífsins munum við ekki ná þeim markmiðum í loftslagsaðgerðum sem sett hafa verið fram.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að sett verði áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira í samstarfi við sveitarfélög og atvinnulíf. Næsta skref í mínu ráðuneyti er að vinna með fulltrúum atvinnulífisins að útfærslu markmiða og geiraskiptingu.

Ég vil fá að heyra hvernig atvinnulífið og stuðningsumhverfi þess vill nálgast verkefnið fram undan. Hvernig viljið þið ná kolefnishlutleysi? Hvernig viljið þið nálgast lausnir loftslagsvandans? Hverjar eru ykkar hugmyndir um það hvernig við tryggjum samkeppnishæfni atvinnulífsins í kolefnishlutlausu hagkerfi?
Ég treysti því að þetta góða fyrirkomulag fundarins í dag nýtist til þess að gera kveikja nýjar hugmyndir og byggja ný tengsl. Ég hvet ykkur til þess að ræða hugmyndir ykkar við hvert annað og velta fyrir ykkur möguleikum til samstarfs um loftslagslausnir. Við þurfum að styðja hvert annað til góðra verka, styrkja tengslin og leggjast saman á árarnar í átt að kolefnishlutleysi.

Orkuskiptin eru sérstaklega mikilvæg og gott dæmi til þess að taka varðandi þátt atvinnulífsins og styrkjaumhverfisins í loftslagsaðgerðum. Tækni til orkuskipta er komin mislangt á veg komin. Við sjáum til dæmis mikla sókn í þessum á málum í fjölgun vistvænna bíla, en lengra er í lausnir í sjóflutningum og flugi. Stuðningur stjórnvalda og hvatar varðandi nýsköpun og grænar fjárfestingar skipta miklu máli til að tryggja samkeppnishæfni Íslands í breyttum heimi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að ríkisstjórnin ætlar að auka aðgengi að fjármagni til loftslagsverkefna, samhliða því að nýsköpunar- og tækniþróunarsjóðum verði gert kleift að styðja í auknum mæli við grænar lausnir.

Nú horfum við bjartsýn til framtíðar og leitumst við að sjá tækifæri í áskorununum. Fjölmargar lausnir leynast í atvinnulífinu og fjölmörg fyrirtæki hafa þegar tekið þennan málaflokk föstum tökum í sínum rekstri. Bestu hugmyndirnar eru líka oft mótaðar í samstarfi ólíkra aðila. Höfum það í huga hér í dag.

Ný tegund iðnaðar er að verða til. Fyrirtæki sem horfa til þess að grípa kolefni úr andrúmslofti. Þetta er atvinnugrein þar sem Íslendingar hafa verið brautryðjendur og byggt upp verðmæta þekkingu fyrir allan heiminn á síðastliðnum árum. Svona líta nýju tækifærin út sem varða brautina í átt að grænu velsældarhagkerfi.

Metnaðarfullt markmið um kolefnishlutlaust Ísland felur í sér miklar áskoranir, en jafnframt tækifæri til þess að vera í farabroddi þegar kemur að loftslagsvænum og jafnvel loftslagsmiðuðum iðnaði, sem hefur það að leiðarljósi að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu.

Brýnt er að tryggja að raddir sem flestra í samfélaginu heyrist og að sérstaklega sé hlustað eftir röddum unga fólksins. Markmið loftslagsvegferðarinnar er kolefnishlutlaus, réttlát, samkeppnishæf framtíð sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfis.

Ég óska ykkur velgengni í dag. Og ég treysti því á að þið leyfið hugmyndum ykkar að hljóma og mótast. Engin hugmynd er of stór eða lítil frammi fyrir þessari áskorun. Ræktið sköpunargleðina og hugmyndaauðgina til að leysa vandamálin af útsjónarsemi.

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum