Hoppa yfir valmynd
09. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi um vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð

Kæru gestir,

Það er sérstök ánægja fyrir mig að ávarpa þessa samkomu hér í dag í tilefni af birtingu á Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030.

Það var í september 2020 sem stofnað var til samstarfsverkefnis stjórnvalda og atvinnulífs sem kallast „Byggjum grænni framtíð“ og fólst meðal annars í gerð þessa vegvísis sem við fögnum hér í dag en umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið hefur stutt verkefnið.

Vegvísirinn er unnin í mikilli samvinnu við byggingargeirann með aðkomu ótal fyrirtækja sem hafa lagt mikinn metnað í að skila góðu verki. Í þessari vinnu hefur mátt sjá mikið frumkvæði einkageirans og frábært framlag fyrirtækja og stofnana, auk sérfræðinga víða að, sem lagt hafa málinu lið.

Áætlað hefur verið að á heimsvísu sé byggingariðnaðurinn ábyrgur fyrir um 40% af heildarkolefnislosun heimsins. Í bókhaldi Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda er ekki auðvelt að rekja loftslagsáhrif byggingariðnaðarins en stærsti hluti hennar virðist eiga sér stað á byggingartíma og tengist efnisvali, innflutningi byggingarefna og notkun véla og tækja, meðal annars vegna flutninga á jarðefni. Aðeins lítill hluti losunarinnar, það er að segja notkun véla og tækja, fellur undir beinar skuldbindingar Íslands auk losunar vegna orkunotkunar á rekstrartíma bygginga. En við verðum að hugsa í stóra samhenginu og leggja okkar af mörkum til að draga úr losun sama hvar hún er bókfærð.

Úrgangsmál skipta miklu máli, einnig í baráttunni við loftslagsbreytingar og það er gott að sjá áherslur hringrásar-hagkerfisins rata inn í vegvísinn.

Bestu þakkir til ykkar allra sem hafið lagt lóð á vogarskálarnar. Ég get sagt að frumkvæði allra þeirra sem standa að vegvísinum er mjög verðmætt í baráttunni við loftslagsbreytingar og þarna sést einmitt hugarfarið sem við þurfum að styrkja hjá sem flestum, stofnunum, fyrirtækjum og almenningi til að Ísland nái metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í losun.
Ísland stefnir að kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stjórnvöld í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið muni setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira.

Samtal er þegar hafið við Samtök atvinnulífsins um nálgun verkefnisins og þar verður horft til þess að atvinnugeirar setji sér markmið og aðgerðaráætlanir sem unnar verða í samstarfi við stjórnvöld og hagaðila. Frekari útfærsla á þessari leið verður unnin á næstu mánuðum sem mun endurspeglast inn í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Það blæs byr í seglin hjá þeim er hér stendur að sjá hve vel hefur tekist við gerð vegvísisins – hér höfum við frábæra fyrirmynd að markmiðum í atvinnugeira – sett af þeim sem starfa í greininni.

Þið vitið best hvernig má ná árangri. Nú má ekki draga úr metnaði við innleiðingu aðgerða sem skilgreindar eru í vegvísinum.

Það er ljóst að margt er hægt að læra af þeirri vinnu og samstarfi sem kynnt er hér í dag.

Loftslagið er að breytast og það mun snerta okkar byggða umhverfi. Aðlögun að þeim breytingum sem ekki er hægt að koma í veg fyrir er óhjákvæmileg og mikilvægt að byggja upp viðnámsþrótt samfélagsins og þar skiptir hið byggða umhverfi máli.

Ráðuneytið undirbýr landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum og þar verður einnig mikilvægt að eiga ykkur að.

Afrakstur ykkar vinnu hefur leitt af sér fyrirmyndarverkefni sem sýnir hvað við getum gert þegar við vinnum saman að samdrætti í losun. Ég legg á það mikla áherslu að við drögum lærdóm af þessu verkefni. Ljóst er að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á mikið lof skilið fyrir hvernig haldið hefur verið utan um þessa vinnu. Öll svona verkefni þurfa skýra og staðfasta leiðsögn. En hún er ekkert án góðs hóps sem er tilbúinn til að láta verkin tala. Takk kærlega fyrir ykkar framlag.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum