Hoppa yfir valmynd
12. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við staðfestingu stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Geyissvæðið

Kæru gestir.

Geysissvæðið í Haukadal er eitt þekktasta goshverasvæðið jarðar og hefur það hátt verndargildi bæði á lands- og heimsvísu. Helstu forsendur fyrir vernd svæðisins eru jarðhitinn og goshverirnir, þá fyrst og fremst Geysir, en í heild sinni er það talið þjóðargersemi. Geysissvæðið í Haukadal á sér langa rannsóknasögu og eru elstu ritaðar heimildir um það frá árinu 1294. Rannsóknir á svæðinu hafa m.a. falist í því að kanna goshegðun Geysis og Strokks, en jafnan hafa orðið breytingar á virkni í kjölfar jarðskjálfta. Eins og kunnugt hefur Geysir gefið fræðiheitinu goshver „geyser“ og hverahrúður „geyserite“ nafn sitt.

Menn gerðu sér snemma grein fyrir nauðsyn þess að tryggja vernd Geysis, en árið 1953 var Geysisnefnd skipuð og hafði nefndin umsjón með Geysissvæðinu, þá alls 15 ha svæði.

Það var með tilkomu umhverfisráðuneytisins að Náttúruverndarráði var falið að fara með málefni Geysissvæðisins frá og með 1. janúar 1990. Var ráðinu falið að undirbúa formlega friðlýsingu svæðisins. Með samþykkt Alþingis á þingsályktun um Náttúruverndaráætlun 2004-2008 var gerð tillaga um að friðlýsa Geysissvæðið alls 2,2 km2 með formlegum hætti. Í áætluninni er lagt er til að svæðið verði verndað sem náttúruvætti á grundvelli jarðhita og hveravirkni.

Þrátt fyrir nokkrar tilraunir til að friðlýsa Geysissvæðið var það ekki fyrr en 17. júní 2020 að friðlýsing þess var staðfest og er friðlýsta svæðið 1,2 km2 að stærð. Með friðlýsingunni er áhersla lögð á að vernda jarðfræðilega fjölbreytni með ferlum og fyrirbærum sem gefa samfellt yfirlit um jarðsögu landsins, ásamt fjölbreytni landslagi sem er sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis. Friðlýsing Geysissvæðisins sem náttúruvætti tryggir vernd jarðminja, örvera og gróðurs, en jafnframt skal svæðið nýtast til vísindarannsókna og fræðslu ásamt möguleika til útivistar og ferðaþjónustu.

Í stjórnunar- og verndaráætluninni eru kynntar leiðir til að tryggja að markmið friðlýsingarinnar nái fram að ganga. Við uppbyggingu innviða á að taka tillit til deiliskipulags sem byggir á vinningstillögu í „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal“. Uppbygging innviða á svæðinu á að leiða gesti um svæðið og tryggja að verndargildi haldist.

Við síðustu ríkisstjórnarskipti urðu þær breytingar að málaflokkur menningarminja fluttist til umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins. Innan friðlýsta svæðisins eru einnig friðlýstar menningarminjar og eru þekktastar konungssteinarnir sem eru vitnisburður um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins, þeirra Kristjáns IX árið 1874, Friðriks VIII árið 1907 og Kristjáns X árið 1921.

Auk friðlýsingar svæðisins sem náttúruvætti á grunni náttúruverndarlaga og menningarminja á grunni laga um menningarminjar þá nýtur svæðið einnig verndar á grunni rammaáætlunar. Sú friðlýsing var staðfest í mars 2021 og tryggir vernd háhitasvæðisins þar sem orkuvinnsla er óheimil.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum