Hoppa yfir valmynd
14. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Degi landbúnaðarins

Ágæta samkoma,

Það er mér ánægja og heiður að fá að ávarpa þetta málþing í dag þar sem við ræðum áskoranir og framtíðarverkefni í landbúnaði enda eru fáar atvinnugreinar sem eiga jafn mikið undir baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Það á ekki bara við um landbúnað á heimsvísu, heldur einnig, og jafnvel sérstaklega, landbúnað hér á Íslandi, sem mun verða fyrir margvíslegum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga.

Þó að hlýnun loftslags hér á norðurslóðum fylgi almennt aukin gróska eru einnig í náttúrunni ýmis ferli sem hlýnun og breytingar gróðurfars geta haft mikil og óvænt áhrifa á. Þó viðbúið sé að hlýrri sumur og lengri vaxtartími geti aukið uppskeru í ræktun, er á sama tíma líklegt að sveiflur í veðurfari geti valdið tíðari og alvarlegri röskun í ræktun en við höfum áður kynnst. Vetrarhlýindi og vorhret munu mögulega í auknum mæli trufla hefðbundna uppskeru og kalár og sumarþurrkar verða algengari ógn við hefðbundna ræktun.

Sumra þessara áhrifa er þegar farið að gæta hérlendis. Gróðureldar eru tíðari og eru raunveruleg ógn. Sömuleiðis eru merkjanlegar breytingar á fartíma og beitarhegðun álfta og gæsa. Borið hefur á nýjum tegundum skordýra sem eru misvelkomin og hafa numið hér land á undanförnum árum. Okkar fyrsta viðbragð er að efla og viðhalda þekkingu okkar á þessum áhrifum svo við séum viðbúin þessum breytingum, þeim sem kunna að eiga sér stað og að við séum tilbúin til að nýta okkur þau færi sem gætu gefist.

Nýverið settum við Grænbók um líffræðilegan fjölbreytileika í samráðsgátt stjórnvalda. Landbúnaður þrífst ekki án líffræðilegrar fjölbreytni dýra og plantna. Við verðum að virða og tryggja viðgang vistkerfa, sérkenni landslags og varðveita nytjaland og kjörlendi gróðurs og dýra ef við ætlum að viðhalda sjálfbærri nýtingu, svo sem í landbúnaði og veiðum. Við þurfum að efla skilning á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni fyrir okkar eigin afkomu og ljá henni sess sem sjálfstæðu verðmæti.

Landbúnaður er órjúfanlegur hluti af lausn loftslagsvandans sem við glímum við. Metnaðarfullt markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland felur í sér miklar áskoranir en jafnframt ótrúleg tækifæri til að vera í farabroddi þegar kemur að loftslagsvænum landbúnaði. Við vitum að landbúnaður er oft uppistaðan í lífsviðurværi og atvinnu á dreifbýlissvæðum landsins. En hér eru jafnframt mikil tækifæri til öflugrar nýsköpunar. Verkefni okkar er að draga úr losun um 1,3 milljónir tonna CO2 fyrir árið 2030 og því verður ekki náð án þátttöku bænda.

Við þurfum að leita leiða til að nýta íslenskar auðlindir og aukaafurðir og þróa ferla til að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Við þurfum efla hringrásarhugsun í landbúnaði og ná fram betri nýtingu afurða líkt og tekist hefur í sjávarútvegi. Með því að beisla skapandi hugsun og horfa á virðiskeðjuna frá frumframleiðanda til neytenda, getum við nýtt auðlindina betur, dregið úr sóun, minnkað losun og skilað af okkur betra landi til komandi kynslóða.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkir verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem hefur það að markmiði að bændur sem taka þátt fái heildstæða ráðgjöf og fræðslu um það hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar. Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði hefur verið því sem næst óbreytt síðastliðna áratugi. Verkefnið fram undan er að hreyfa við þessari kyrrstöðu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stjórnvöld í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið muni setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira atvinnulífsins. Útfærsla á þessu verkefni er þegar hafin í samstarfi við ákveðna geira. Það verður spennandi að hefja þetta samtal við forystu bændasamtakanna í þeim tilgangi að setja niður markmið og móta aðgerðaáætlun fyrir íslenskan landbúnað í samstarfi við stjórnvöld, sem endurspeglast mun í enn skýrari mælanlegum markmiðum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Góðir gestir ég hlakka til samstarfsins fram undan og ég veit að við munum í sameiningu láta verkin tala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum