Hoppa yfir valmynd
25. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á örráðstefnu vegna kynningar á úthlutun úr Orkusjóði og verkefnum

Ágætu fundarmenn!

Það er mér mjög mikil ánægja að ávarpa ykkur hér á fundi Orkusjóðs og Orkustofnunar sem haldinn er í samvinnu við Grænu Orkuna. Hér stíga á stokk fulltrúar verkefna sem hljóta styrki í ár og verða kynningar í formi örfyrirlestra. Markmið með kynningunum er að sýna þá breidd og fjölda verkefna sem sjóðurinn styrkir. Ég vil þakka stjórn og starfsmönnum Orkusjóðs fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt í verkefnin og stuðning við orkuskiptin hingað til sem og undirbúning þessa viðburðar.

Þetta ár hjá Orkusjóði er merkilegt að mörgu leyti en sjóðurinn hefur styrkst ár frá ári, og hefur nú úthlutað langstærstu upphæð hingað til, til orkuskiptaverkefna. Eftirspurnin var mjög mikil eða um fjórföld þeirrar upphæðar sem sjóðurinn hafði úr að spila. Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill, en þeir leggja til meirihluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Við þurfum svo sannarlega að virkja áfram þennan slagkraft sem þar er að finna. Það er afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem koma til greina. Alla þessa grósku og fjölbreytni sjáum við hjá fyrirtækjunum sem stíga á svið hér á eftir. Verkefnin eiga það sammerkt að þau eru strax frá gangsetningu að vinna að orkuskiptum. Ég hef því ákveðið að bæta 200 millj. króna við þá fjárveitingu sem Orkusjóður úthlutar að þessu sinni sem þýðir að samtals er úthlutað 1,1 ma. króna.

Annan punkt má nefna, en það er að vel hefur tekist að styðja við dreifingu verkefna um land allt. Enda mjög mikilvægt að enginn landshluti verði eftir þegar kemur að grænu orkuskiptunum.

Sjóðurinn er áfram að þróast og færa út kvíarnar frá því að vera með í raun einungis eitt einfalt verkefni fyrir nokkrum árum síðan, sem var að styðja við uppbyggingu hleðslustöðva um landið, yfir í það að styðja við orkuskiptin á nýju sviðunum, hafinu og í flugi og fasa út olíu í iðnaði og styðja við framleiðendur rafeldsneytis.

Þá stendur yfir í ráðuneytinu vinna við endurskoðun stofnanafyrirkomulags og þar með einnig styrkjakerfið. Til skoðunar er að efla sjóðinn enn frekar, með nýjum verkefnum sem einnig eru tengd orkuskiptum.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að hvetja fólk af öllum kynjum til að kynna sér sjóðinn og sækja um á næsta ári en samkvæmt þeirri tölfræði sem ég lét taka saman fyrir þennan fund eru konur aðeins 16% umsækjenda en það hlutfall endurspeglar ekki nógu vel samfélagið okkar.

En kæru gestir,

Í anda fyrirkomulags þessa fundar verð ég stuttorður til að hleypa að þeim fjölmörgu frumkvöðlum sem ætla að segja okkur stuttlega frá sínum áhugaverðu verkefnum.

Takk fyrir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum