Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Bransadögum Iðunnar fræðsluseturs

Góðir gestir,

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér hingað í dag til að ræða um vegferð okkar í loftslagsmálum og mikilvægt hlutverk atvinnulífsins og iðnaðarins á þeirri vegferð.

Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við ætlum okkur að ná 55% samdrætti í losun fyrir 2030. Við ætlum að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Þetta er sérstaklega metnaðarfullt þegar þess er gætt að Ísland er nú í dag í nær einstakri stöðu meðal ríkja heims, þar sem rafmagnsframleiðsla og húshitun er nú þegar nær öll fengin með hreinni orku. En við ætlum ekki að dvelja við forna frægð, heldur vera áfram í fararbroddi á heimsvísu í hreinum orkuskiptum. Það er krefjandi verkefni og það er alveg á hreinu að markmiðum verður ekki náð án aðkomu iðnaðar og atvinnulífsins og með nánu samráði.

Hert markmið Íslands um samdrátt í losun og um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nýja nálgun. Sú nálgun mun byggja á sérstökum losunarmarkmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífisins líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Einnig verður aukin áhersla á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins.

Næsti áfangi á leiðinni að loftslagsmarkmiðum okkar er að íslenskt atvinnulíf stigi inn í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með eigin markmiðum og aðgerðum. Stjórnvöld hafa nú þegar hafið samtalið við atvinnulífið vegna losunarmarkmiða hverrar atvinnugreinar. Samvinna atvinnulífs, sveitarfélaga og stjórnvalda er lykilatriði til að ná árangri.

Aðalverkefni okkar í loftslagsmálum – heima fyrir og á heimsvísu – er að takmarka losun og efla kolefnisbindingu. Við munum þó aldrei ná að koma alveg í veg fyrir frekari hlýnun og afleiðingar hennar. Við þurfum því að laga okkur að breyttum heimi. Við þurfum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggð, hugum að vernd lífríkis og náttúru og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag.

Sóknarfærin eru mörg. Ég vil nefna hér tvö verkefni þar sem stjórnvöld og atvinnulíf vinna saman með loftslagsvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

Grænir iðngarðar er verkefni sem aðilar úr ýmsum áttum hafa unnið að á síðustu mánuðum, s.s. Íslandsstofa, þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, Landsvirkjun og Norðurþing. Hringrásarhagkerfið er lykilhugtak í grænum iðngörðum; að draga úr sóun, bæta nýtingu og lágmarka úrgang. Fyrsti áfangi vinnunnar hefur þegar verið kynntur. Þar er gerð grein fyrir því hvernig efla megi atvinnulífið, auka samkeppnishæfni Íslands og treysta byggð á landsbyggðinni með grænum nýfjárfestingum.

Seinna dæmið er stýrihópur um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga sem var nýverið settur á laggirnar. Verkefni hópsins hefur hlotið heitið „Græni dregillinn“ en því er ætlað að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftlagsvæn fjárfestingarverkefni á Íslandi. Markmið Græna dregilsins er að bæta ferla og þjónustu, allt frá hugmynd að rekstri, við slík verkefni.

Næstu skref í loftslagsvegferð Íslands verða unnin með atvinnulífinu. Það er rökrétt og okkar eina leið til að ná markmiðum okkar. Við megum ekki gleyma að loftslagsváin er ekki bara ógn, heldur áskorun um að gera betur og þar liggja tækifæri; ekki síst hjá fyrirtækjum í landi sem hefur getið sér gott orð fyrir nýtingu endurnýjanlegrar orku og grænar lausnir á mörgum sviðum. Við eigum að stefna að hagkerfi sem er í senn kolefnishlutlaust og samkeppnishæft.

Framundan er stórt og mikilvægt verkefni við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja hrein orkuskipti. Ég vonast til að margir góðir liðsmenn í því verkefni komi úr ykkar röðum. Framtíðin er í húfi, en ég er þess fullviss að framtíðin er björt.

Takk fyrir,


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum