Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi Læknadaga um stöðu umhverfismála á Íslandi

Ágætu málþingsgestir,

Umhverfismál koma okkur öllum við enda er umhverfið samofið öllu okkar lífi og athöfnum. Það er vel til fundið að umhverfismál fái veglegan sess á Læknadögum enda er beint samhengi milli heilsu þjóðarinnar og umhverfismála.

Í dag munið þið fá fyrirlestra úr ýmsum áttum varðandi ólík viðfangsefni sem tengjast málefninu. Ég veit að það er mikil umræða í hópi lækna um hvaða áhrif mengun og loftslagsbreytingar hafa á heilsu manna.

• Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og í ráðuneyti mínu vinnum við hörðum höndum að því að skapa þá umgjörð að þau markmið náist. Aðalmarkmið okkar í loftslagsmálum er skýrt. Við stefnum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi árið 2040. Það er eftir sautján ár, sem er afar skammur tími. Með orkuskiptum í samgöngum munu loftgæði aukast enda losa rafmagnsbílar ekki NO2 en undanfarna daga höfum við fundið verulega fyrir slíkri mengun.

• Náttúruvernd hefur á undanförnum árum fengið stóraukið vægi í samfélagsumræðu bæði hér heima og erlendis. Sífellt fleiri hafa áttað sig á að vernd náttúrulegra landsvæða, bæði lífríkis svæða og landslags, er gríðarlega mikilvæg. Mikilvægið felst í því að við viljum tryggja líffræðilega fjölbreytni og þá mikilvægu vistkerfaþjónustu sem náttúran innir af hendi. En mikilvægið felst líka í því að tryggja að við og komandi kynslóðir getum notið þess að eiga stund í ósnortinni náttúru. Slíkar stundir geta ekki síður stuðlað að því að styrkja okkur mannfólkið andlega og líkamlega.

• Mikilvægt er að innleiðing hringrásarhagkerfis hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig og þannig verði leitast við að allar auðlindir verði að verðmætum í stað úrgangs. Íslendingar hafa náð forystu á þessu sviði m.a. í nýtingu sjávarafurða en á mörgum öðrum sviðum er þörf á markvissum aðgerðum sem bæta úrgangsstjórnun og hvetja til hugarfarsbreytingar og nýsköpunar í sambandi við endurnýtingu og áframvinnslu hérlendis.

• Mikilvægt er að halda vel utan um fráveitumálin og úrbóta er þörf á því sviði á Íslandi. Ýmis efni bæði frá þéttbýli og iðnaði geta verið í fráveituvatni sem valda álagi á vatn sem getur án hreinsunar valdið skaða á vatnaumhverfi og verið heilsuspillandi fyrir fólk. Ég staðfesti nýverið fyrstu vatnaáætlun Íslands og í henni er að finna fjölmargar aðgerðir sem snúa að úrbótum tengdum fráveitumálum.

• Lyfjaleifar og örplast berast út í umhverfið bæði í gegnum fráveitu og ofanvatn. Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir skimun á lyfjaleifum í íslensku vatnaumhverfi og komið hefur í ljós að töluvert magn lyfjaleifa er að berast út í vatn á Íslandi. Samhliða lyfjaleifum berast einnig út í umhverfið svokallaðar lyfjaónæmar bakteríur sem valda sýklalyfjaónæmi sem er talin ein helsta heilbrigðisógn í heiminum í dag. Hér er því afar mikilvægt að fylgjast vel með lyfjaleifum í umhverfi og ráðast í þær aðgerðir sem starfshópur lagði fram árið 2021 vegna sýklalyfjaónæmra baktería.

Ég trúi því að samstarf og samtal sé lykillinn að því að okkur takist vel upp við að ná markmiðum okkar og lýsi mig hér með búinn og boðinn til að eiga við ykkur samstarf á komandi árum með það að markmiði að gera enn betur í umhverfismálum.

Ég óska ykkur góðs málþings.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum