Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 12. júlí 2019

Heil og sæl.

Það er engin gúrkutíð í okkar ágætu utanríkisþjónustu þótt nú sé hásumar. Undanfarnar tvær vikur hafa verið viðburðaríkar, jafnvel sögulegar, og því ekki úr vegi að gera þessum viðburðum skil í laufléttum föstudagspósti.

Að sjálfsögðu ber hæst ályktun um mannréttindaástandið á Filippseyjum sem Ísland bar upp  í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna – og var samþykkt. Ályktunin markar tímamót enda er hún sú fyrsta sem Ísland leggur fram í ráðinu. Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvetur stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku. Þessi merki áfangi hefur vakið verðskuldaða athygli, bæði í íslenskum fjölmiðlum (t.d. hér og hér) en líka í alþjóðapressunni (t.d. hér og hér). Framlag Duterte Filippseyjaforseta til umræðunnar er annars að ekkert mark sé takandi á okkur Íslendingum þar sem við séum síétandi ís. Touché (eða þannig)!

Þessari 41. fundalotu mannréttindaráðsins lauk annars í dag og margt fleira bar þar til tíðinda en ályktunin um Filippseyjar. Meðal annars var ályktun Íslands og fleiri ríkja um jöfn laun til handa konum og körlum samþykkt einróma þegar hún kom til atkvæða í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf síðdegis í gær. Enn ein rósin í hnappagat fastanefndarinnar okkar í Genf og full ástæða til að hrósa þeim og öðrum sem að þessum málum hafa komið fyrir frábært starf!

Í vikunni sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi sem fram fór í Lundúnum. Hann tók meðal annars þátt í pallborðsumræðum um öryggi blaðamanna þar sem hann lagði áherslu á að ríki létu til sín taka á vettvangi alþjóðastofnana og auk þess undirritaði hann yfirlýsingu um fjölmiðlafrelsi.

Á þriðjudaginn voru birtar árskýrslur ráðherra, utanríkisráðherra þar á meðal, og kennir þar ýmissa grasa. Aukið gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna er markmiðið með skýrslunum sem er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.

Sama dag var tilkynnt að tvö verkefni sem byggja á íslensku hugviti og verkþekkingu hefðu fengið styrk úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðuneytið kynnti á síðasta ári nýjan samstarfssjóð við atvinnulífið um heimsmarkmiðin sem ætlaður er samstarfsverkefnum fyrirtækja.

Og talandi um heimsmarkmiðin þá var í mánaðarbyrjun greint frá opnun heimsmarkmiðagáttar þar sem fólki gefst kostur á að koma verkefnum tengdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á framfæri. Tilgangurinn með gáttinni er að virkja samfélagið í heild sinni við innleiðingu heimsmarkmiðanna og tryggja góða upplýsingamiðlun milli stjórnvalda og hagsmunaaðila um markmiðin. Loks má nefna í samhengi heimsmarkmiðanna að í vikunni hófst í New York árlegur ráðherrafundur um markmiðin. Ísland er þar meðal 47 þjóða sem kynna landrýniskýrslur.

Frá sendiskrifstofunum er meðal annars að frétta að Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel afhenti í vikunni bréf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins  um að skoðað verði að opna heimild til að notast við rafræna fylgiseðla með lyfjum.

Ísland er í formennsku fyrir EES-EFTA ríkin seinni helming árs 2019. Gunnar Pálsson sendiherra stýrði því sínum fyrsta fundi hjá sameiginlegu EES-nefndinni í vikubyrjun. Fólkið okkar í Brussel er annars óðum að koma sér fyrir á Rue Archimede 17og þótt enn sé verið að gera síðustu breytingar á húsnæðinu og klára að pakka upp úr kössum, heldur vinnan áfram.

Vatnajökulsþjóðgarður er nú kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Bakú í Aserbaídsjan fyrir viku. Kristján Andri Stefánsson sendiherra fór fyrir íslensku sendinefndinni í Bakú og fór með þakkarræðu fyrir hönd Íslands.

Á mánudag fór fram í London reglubundið tvíhliða samráð íslenskra og breskra stjórnvalda um alþjóða- og öryggismál. Og á dögunum var haldinn vel sóttur viðburður um norðurslóðir í sendiráðinu okkar í borginni í samvinnu við Polar Research and Policy Initiative.

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra, tók í vikunni þátt í sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum í Pétursborg. Íslandsstofa, í samstarfi við sendiráðið, stóð fyrir íslenskum þjóðarbás á sýningunni þar sem ýmis íslensk fyrirtæki kynntu starfsemi sína.

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra í Nýju Delí, Indlandi, afhenti nýverið trúnaðarbréf sitt í Bangladess við hátíðlega athöfn. Forseti Bangladesh, Abdul Hamid, veitti því viðtöku og í kjölfarið áttu þeir viðræður um samskipti ríkjanna.

Guðmundur Árni var svo aftur á ferðinni þegar hann var sérstakur heiðursgestur á indverskri tískuverðlaunahátíð á dögunum. Sendiráðið okkar í Nýju-Delí tók svo þátt í kvikmyndahátíð í borginni Chennai í gær.

Átakavarnir og styrking þeirra í framtíðarstarfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru meginviðfangsefni óformlegs ráðherrafundar stofnunarinnar, sem haldinn var Tatra-fjöllum í Slóvakíu 9. júlí 2019. Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE, sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra.

Grein Árna Þórs Sigurðssonar, sendiherra í Helsinki, vakti athygli í vikunni en þar er rætt hvernig utanríkisþjónustan leggur sitt af mörkum við að kynna íslenskar listir og menningu.

Geir H. Haarde, fyrrverandi sendiherra Íslands í Washington, tók í byrjun mánaðarins við stöðu aðalfulltrúa kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum. Hann kemur til með að stýra skrifstofu kjördæmisins í höfuðstöðvum bankans í Washington um tveggja ára skeið og situr í 25 manna stjórn bankans fyrir hönd kjördæmisins.

Sendiráðið okkar í Lundúnum, ásamt hinum norrænu sendiráðunum, tók virkan þátt í Pride-hátíðarhöldum sem fram fóru í borginni um síðustu helgi. Sama gerði okkar fólk í Genf og New York.

Viðar Birgisson, sem starfað hefur í sendiráðinu í Kaupmannahöfn í 31 ár, var kvaddur í vikunni með pompi og prakt.

Við minnum að lokum á Heimsljós – upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál sem er venju samkvæmt stútfullt af áhugaverðum fréttum.

Góðar helgarkveðjur frá Uppló!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum