Hoppa yfir valmynd
02. ágúst 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 2. ágúst 2019

Heil og sæl.

Sumarleyfistíminn stendur nú sem hæst og því hefur oft verið meira að frétta úr okkar ástkæru utanríkisþjónustu en akkúrat núna. Þó má tína sitthvað til og hnoða úr því ofurlítinn föstudagspóst.

Í gær tóku gildi flutningar á forstöðumönnum sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni. Með breytingunum eru konur nú í meirihluta forstöðumanna í tvíhliða sendiráðum Íslands í fyrsta sinn.

Til viðbótar við þá flutninga sem raktir voru í fréttinni sem vísað er til að ofan tóku fleiri breytingar gildi í gær eða gera það á næstunni. Anna Sigríður Alfreðsdóttir flyst úr sendiráðinu í Lundúnum yfir á rekstrar- og þjónustuskrifstofu. Árni Helgason kemur frá Kampala yfir á þróunarsamvinnuskrifstofu. Friðrik Jónsson kemur einnig á þróunarsamvinnuskrifstofu en hann var áður hjá fastanefndinni hjá Atlantshafsbandalaginu. Garðar Forberg tekur við stöðu Friðriks en Garðar var áður á varnarmálaskrifstofu. Ingibjörg Aradóttir og Sigríður Eysteinsdóttir koma til starfa í ráðuneytinu en þær voru í sendiráðinu í Brussel. Ingibjörg fer í bókhaldsdeild en Sigríður á laga- og stjórnsýsluskrifstofu. Í staðinn flyst Ragnheiður Harðardóttir frá Ósló til Brussel og Helga Þórarinsdóttir sinnir störfum bæði fyrir sendiráði og fastanefndina í borginni. Nína Björk Jónsdóttir fer úr sendiráðinu í Genf yfir á viðskiptaskrifstofu en Katrín Einarsdóttir fer til Genfar í hennar stað. Á næstunni fer svo Ragnar Þorvarðarson, sem starfað hefur á upplýsinga- og greiningardeild, til fastanefndarinnar í New York og leysir þar af Hildigunni Engilbertsdóttur á meðan hún fer í fæðingarorlof. Finnur Þór Birgisson á laga- og stjórnsýsluskrifstofu hverfur brátt til annarra starfa hjá EFTA.

Auk breytinga vegna reglubundinna flutninga hafa fleiri mannabreytingar tekið gildi í ráðuneytinu. Jón Erlingur Jónasson tekur við stjórnartaumunum á þróunarsamvinnuskrifstofu. Stefán Skjaldarson færir sig úr deild innra eftirlits yfir á alþjóða- og öryggisskrifstofu. Sigurlilja Albertsdóttir og Ragnhildur Arnórsdóttir koma úr leyfi og hefja á ný störf á þróunarsamvinnuskrifstofu. Vilborg Ólafsdóttir kemur úr fæðingarorlofi og fer á Norðurlandadeild. Guðrún Þorbjörnsdóttir fer í fæðingarorlof en Álfrún Perla Baldursdóttir leysir hana af á meðan í borgaraþjónustunni.

Fyrr í sumar höfðu stólaskipti þær Berglind Bragadóttir, í mannauðsdeild, og Sigríður Jónsdóttir, sem starfaði í sendiráðinu í París. Þá fór Kristjana Sigurbjörnsdóttir af þróunarsamvinnuskrifstofu til sendiskrifstofunnar í Lilongve í Malaví. Í júlíbyrjun færði svo Petrína Bachmann, sig um set úr utanríkisráðuneytinu yfir í sendiráðið okkar í Lundúnum.

Af öðrum fréttum má nefna að samkvæmt nýbirtu frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA á eftir að innleiða 0,7 prósent EES-gerða hér á landi. Þetta er í þriðja sinn í röð sem innleiðingarhalli Íslands er eitt prósent eða minna, en það hefur aldrei gerst áður.

Um miðjan júlímánuð kynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stöðu innleiðingar Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á árlegum ráðherrafundi um heimsmarkmiðin í höfuðstöðvum SÞ. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar lagði gjörva hönd á verkið, ekki síst fastanefndin í New York og upplýsingafulltrúi heimsmarkmiða. Forsætisráðherra tók svo þátt í sameiginlegri málstofu Íslands og Malaví um ungmenni.

Í tengslum við heimsmarkmiðafundinn flutti Sesselja Sigurðardóttir, sendiráðunautur hjá fastanefnd Íslands í New York, ræðu fyrir Íslands hönd um áherslur í innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Íslenskur ungmennafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda verður valinn í næsta mánuði. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland skipar ungmennafulltrúa en hann kemur til með að sitja í umboði íslenskra ungmenna og sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september.

Fyrir skemmstu greindum við frá því að sendiráðið í Brussel og fastanefnd Íslands gagnvart ESB, væru flutt í nýtt húsnæði á Rue Archimède 17 þar sem fyrir eru á fleti sendiráð og fastanefnd Noregs.

Ingveldur Ásta Björgvinsdóttir, verkefnisstjóri útflutnings hjá Íslandsstofu, heimsótti sendiráð Íslands í Moskvu á dögunum til skrafs og ráðagerða um kynningar á viðskiptatækifærum í Rússlandi. 

Þurý í sendiráðinu okkar í Lundúnum ávarpaði þing Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í nýliðnum mánuði og ræddi þar meðal annars málefni norðurslóða og Norðurskautsráðsins.

Íslensku forsetahjónin voru í einkaheimsókn í Kanada fyrir skemmstu og tóku sendiherrahjónin í Ottawa á móti þeim í síðdegisheimsókn.

Tónlistarhátíðin Winnipeg Folk Festival var haldin í júlí þar sem íslenskir tónlistarmenn komu fram. Komu þeir að sjálfsögðu í heimsókn á aðalræðisskrifstofuna í Winnipeg og fengu þar góðar móttökur.

Fleira er ekki fréttum að sinni. Um leið og við óskum ykkur ánægjulegrar verslunarmannahelgar hvetjum við alla til að spenna beltin og ganga hægt um gleðinnar dyr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum