Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 22. nóvember 2019

Heil og sæl.

Það er full ástæða að taka saman föstudagspóst í dag því af nógu er að taka þegar viðburðir undangenginnar viku eru gerðir upp.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gerði góða ferð til Brussel í vikunni þar sem hann tók þátt í fundum annars vegar EES-ráðsins og hins vegar Atlantshafsbandalagsins. Á þeim fyrrnefnda undirstrikaði hann gildi EES-samningsins um leið og hann ítrekaði að ekki kæmi til greina að Ísland tæki upp tilskipun um innistæðutrygginga nema að tryggt væri að þeim fylgdi ekki ríkisábyrgð. Á fundinum hjá NATO voru afvopnunarmál og ástandið í Sýrlandi til umræðu en einnig var ákveðið að skilgreina himingeiminn sem aðgerðasvið, eins og þegar hefur verið gert um loft, land, haf og netið.

Í vikunni hittust fulltrúar ríkjanna átta og sex samtaka frumbyggja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu í fyrsta skipti í formennskutíð Íslands, auk fulltrúa vinnuhópanna sex og yfir þrjátíu áheyrnaraðila, á allsherjarfundi embættismannanefndarinnar. Hótel Örk í Hveragerði var vettvangur fundarins og vakti hann athygli fjölmiðla.

Í dag tók utanríkisráðherra á móti Mariu Ressa, reyndri og margverðlaunaðri blaðakonu og stofnanda fjölmiðilsins Rappler á Filippseyjum, sem hér var stödd í tengslum við kvennaráðstefnuna í Hörpu. Hún greindi utanríkisráðherra frá því að frumkvæði Íslands á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sl. sumar, sem lyktaði með samþykkt ályktunar um mannréttindaástandið á Filippseyjum, hefði skipt miklu máli.

Varnarmálaráðherrar NORDEFCO, varnar- og öryggismálasamstarfs Norðurlanda, funduðu í Stokkhólmi fyrr í þessari viku en áttu auk þess fundi með varnarmálaráðherrum Eystrasaltsríkja og öðrum sem tilheyra svonefndum Norðurhópi. Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, sótti fundinn í fjarveru utanríkisráðherra. Tíu ár eru um þessar mundir frá því að NORDEFCO-samstarfið hófst og af því tilefni rituðu ráðherrarnir sameiginlega blaðagrein.

Sandie Okoro, annar tveggja varaforseta Alþjóðabankans og aðallögfræðingur bankans, átti í vikubyrjun fund með Sturlu Sigurjónssyni ráðuneytisstjóra. Okoro er baráttukona og talsmaður jafnréttismála, valdeflingar kvenna og mannréttindamála.

Þróunarsamvinnuskrifstofa fékk svo forseta þjóðþings Malaví, Catherine Gotani Hara og tveimur þarlendar þingkonur í heimsókn.

Af vettvangi sendiskrifstofanna er að venju sitthvað að frétta. Embættisbústaðnum í Ósló var breytt í vinnustofu í á þriðjudag þegar Íslandsstofa í samstarfi við sendiráðið skipulagði þar ferðaþjónustuviðburð. Átta íslensk fyrirtæki kynntu áfangastaðinn Ísland og starfsemi sína fyrir fullu húsi. Daginn eftir tók sendiráðið okkar í Stokkhólmi við þessum sama hópi og í gær efndi svo sendiráðið í Kaupmannahöfn til sambærilegs viðburðar.

Í tilefni af sérstökum loftslagsdegi stóðu sendiherrar Norðurlanda í Washington, þar á meðal Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands, fyrir svokölluðum Townhall-viðburði á Twitter þar sem þeir svöruðu spurningum fólks um loftslagsmál. Viðburðurinn heppnaðist prýðilega.

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Helsinki, og Helen Talli, kjörræðismaður Íslands í Eistlandi, tóku þátt í Norðurlandaviku sem fram fór í eistnesku borginni Narva. Sama dag sótti Sigrún Bessadóttir, sendiráðinu í Helsinki, ársfund Uppbyggingarsjóðs EES og Eistlands í Tallinn.

Á fundi vísindanefndar UNESCO fyrr í þessari viku samþykktu aðildarríki stofnunarinnar að nýstofnuð Þekkingarmiðstöð þróunarlanda á Íslandi geti starfað undir merkjum UNESCO.

Sendiráð Íslands í Peking skipulagði í samvinnu við Íslandsstofu og Icelandic Startups þátttöku íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á tæknisýningunni China Hi-Tech Fair í Shenzhen fyrir skemmstu.

Gert hefur verið samkomulag um vinnustofudvöl fyrir íslenska myndlistarmenn við listastofnunina Künstlerhaus Bethanien í Berlín, til næstu fimm ára. Dvölin veitir listamönnum sem þar dvelja aðgengi að öflugu alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans.

Nú standa yfir bókahátíðir í Stuttgart og Karlsruhe (Baden-Württemberg) þar sem Ísland er á báðum stöðum heiðursland. María Erla Marelsdóttir endiherra skrifaði formála í dagskrárbækling Stuttgart hátíðarinnar og staðgengill tók þátt í pallborðsumræðum á báðum stöðum á sitt hvoru opnunarkvöldinu. Ekki er svo hægt að ræða um íslenska menningu og Þýskaland þessa daga án þess að nefna tónleikaferð Víkings Heiðars og Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. 

Sendiráðið í London fékk góðan gest í dag, engan annan en Sir David Attenborough. Það var sannarlega heiður að ræða við þennan merkilega mann m.a. um loftslagsbreytingar, umhverfismál og plast í hafi. Það síðastnefnda er einmitt þema ráðstefnu sem íslensk stjórnvöld standa fyrir í apríl 2020. 

Sendiráðið okkar í Ottawa sýndi á dögunum í samvinnu við Carleton-háskóla heimildarmyndina Seeing the Unseen þar sem sautján íslenskar konur segja frá lífi sínu með einhverfu.

20. nóvember er dagur barnsins og af því tilefni var sagt frá því í Heimsljósi að stór hluti alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands rennur beint og óbeint til verkefna sem tengjast börnum og réttindum þeirra. „Öll þessi verkefni og mörg önnur hafa lífsbætandi áhrif á börn,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í umfjöllun Heimsljóss.

Og að lokum vakti verðskuldaða athygli í vikubyrjun þegar fulltrúa íslensku utanríkisþjónustunnar bar á góma í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Krúnan (e. The Crown).

Á meðal þess sem utanríkisráðherra tekur sér fyrir hendur í næstu viku er ferð til Moskvu þar sem hann hittir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Þá sækir hann fund í Helsinki á vegum finnsku formennskunnar í ESB sem ber yfirskriftina Clean and Global North.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum