Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 29. nóvember 2019

Heil og sæl.

Nóvember er senn á enda runninn og aðventan að ganga í garð – og 101 árs fullveldisafmæli á sunnudag! Að venju er eitt og annað að frétta úr okkar ranni sem full ástæða er til að halda til haga.

Í vikunni bar hæst heimsókn utanríkisráðherra til Moskvu þar sem hann hitti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Tvíhliða samskipti, viðskipti og norðurslóðamál voru efst á baugi en ráðherrarnir undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf innan Norðurskautsráðsins. Í lok fundar afhenti Guðlaugur Þór Lavrov íslenska landsliðstreyju með áletruninni „Viktorsson“ en rússneski utanríkisráðherrann heitir fullu nafni Sergei Viktorovich Lavrov.

Auk þess að hitta Lavrov tók utanríkisráðherra þátt í viðskiptaviðburði í sendiráði Íslands í Moskvu en viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum nítján fyrirtækjum, Íslandsstofu og fleiri aðilum var með í för. Þá flutti hann erindi í rússnesku diplómataakademíunni sem vakti lukku og ræddi við rússneska fjölmiðla um Ísland og íslensk utanríkismál.

Í dag ávarpaði utanríkisráðherra alþjóðlega ráðstefnu um málefni norðurslóða sem haldin var í Helsinki. Hann ræddi meðal annars alþjóðamál og tvíhliða samskipti á fundi með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands.

Við vendum nú kvæði okkar í kross og höldum frá Helsinki til Lundúna þar sem 31. allsherjarþing alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) fór fram. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, lagði áherslu á kynjajafnrétti, málefni norðurslóða og árangur Íslands í fækkun sjóslysa þegar hún ávarpaði þingið. Þurý Björk Björgvinsdóttir, varafastafulltrúi og Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og fastafulltrúi báru hitann og þungann af undirbúningi og tóku virkan þátt í þinginu.

4. endurskoðunarráðstefna samningsins um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra (APL samningurinn) hefur staðið yfir í Osló þessa vikuna og sóttu fulltrúar sendiráðs Íslands í Osló hana fyrir hönd Íslands.

Nú í vikunni fór fram ársfundur Uppbyggingarsjóðs EES í Aþenu þar sem farið var yfir þau fjölmörgu og ólíku verkefni sem sjóðurinn styrkir í Grikklandi. Karí Jónsdottir tók þátt í fundinum fyrir hönd sendiráðsins í Ósló en það er einnig sendiráð Íslands gagnvart Grikklandi.

Okkar fólk í sendiráði Íslands í Lundúnum hélt á miðvikudag ráðstefnu með kollegum í norrænu sendiráðunum þar meðal annars var fjallað um réttindi borgara í kjölfar Brexit, bresku lögregluna og hvernig hún bregst við þegar hryðjuverkaárásir eiga sér stað í landinu og norrænt lögreglusamstarf.

27. nóvember sóttu Nikulás Hannigan skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu og fulltrúar fastanefndar Íslands árlegan fund Global Strategy Group hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Í ár var þema fundarins öldrun þar sem aðildarríkin skiptust á skoðunum um hvernig þau gætu best mætt þeirri miklu áskorun sem vaxandi hlutfall aldraðra felur í sér.

Ísland leiðir ásamt Rúanda sérstakt átak til hagræðingar hjá mannréttindaráði SÞ. Fastafulltrúarnir kynntu tillögur sínar um hagræðingu á opnum fundi í síðustu viku en þær gera ráð fyrir u.þ.b. tólf prósenta fækkun funda án þess að draga úr skilvirkni ráðsins.

Í frétt á vefsíðu sendiráðsins okkar í Peking er greint frá óvenjumikilli Íslandstengdri menningarstarfsemi í Kína í mánuðinum sem nú er að líða. Dans, tónlist og uppistand og meira að segja fótbolti koma þar við sögu.

Talandi um menningu, þá var Jón Kalmann Stefánsson sérstakur gestur á bókmenntaviðburði í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín, í vikunni í tilefni af því að Saga Ástu er þar bók mánaðarins. Auður Ava Ólafsdóttir gladdi á meðan Stokkhólmsbúa með skáldskapargáfu sinni á viðburði sem sendiráðið okkar í borginni kom að.

Opnuð var í vikunni sérstök sýning helguð Uppbyggingarsjóði EES í húsakynnum utanríkisþjónustu ESB (EEAS). Samanstendur sýningin af veggspjöldum sem gefa eiga mynd af hinu margbreytilega starfi sjóðsins í hinum fimmtán samstarfsríkjum hans innan ESB.

Norræn matargerðarvika stendur nú yfir í Nýju-Delí í Indlandi þar sem tveir íslenskir kokkar, þau Hrefna Sætran og Gissur Guðmundsson, elda ásamt fleirum ljúffenga rétti úr úrvals hráefni. Go Nordic India stendur fyrir þessum viðburði með stuðningi sendiráða Norðurlanda í borginni.

Og fyrst við erum byrjuð að tala um matarmenningu og aðra menningu er við hæfi að ljúka þessari yfirferð á þessari skemmtilegu mynd sem sendiráðið okkar í Berlín birti af tveimur sannkölluðum meisturum á sínu sviði. Víkingur Heiðar Ólafsson var ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð um Þýskaland sem við sögðum frá í síðasta pósti og Friðrik okkar Sigurðsson sá um að allir væru vel mettir við það tækifæri.

Í næstu viku fer fram leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Lundúnum og sækja forsætisráðherra og utanríkisráðherra fundinn fyrir Íslands hönd. Auk þess sækir utanríkisráðherra reglubundna fundi hér heima.

Við óskum ykkur ánægjulegrar aðventu og gleðilegs fullveldisdags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum