Hoppa yfir valmynd
06. desember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 6. desember 2019

Þótt aðventan sé gengin í garð halda annirnar í utanríkisþjónustunni áfram sem aldrei fyrr. Í vikunni bar hæst leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem að þessu sinni var haldinn í Lundúnum. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, auk embættismanna úr utanríkisþjónustunni og forsætisráðuneytinu. Til viðbótar við leiðtogafundinn átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með hollenska utanríkisráðherranum Stefan Blok og sótti móttöku Bretadrottningar í Buckingham-höll.

Í dag greindum við svo frá því að á fjórða hundrað ákvarðana um upptöku gerða í EES-samninginn hafa verið teknar á þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fjöldi upptekinna EES-gerða á þessu ári hefur stuðlað að því að upptökuhallinn hefur ekki verið minni í sex ár.

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að fjölgun afgreiðslustaða Schengen-vegabréfsáritana til Íslands til að bregðast við mikilli fjölgun umsókna. Í dag var opnað fyrir afgreiðslu umsókna í Kuala Lumpur í Malasíu, en umsóknir verða fluttar þaðan til sendiráðsins í Nýju Delí til meðferðar.

Guðni Bragason, fastafulltrúi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), ávarpaði ráðherrafund í Bratislava í vikunni fyrir hönd utanríkisráðherra. Í ávarpinu var ítrekaður stuðningur Íslands við sjálfstæði Úkraínu innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra.

Þórir Ibsen heimasendiherra, tók í vikunni á móti Evrópuhópnum svokallaða í utanríkisráðuneytinu. Um er að ræða óformlegan hóp þeirra íslensku stofnana sem hafa umsjón með evrópskum og norrænum samstarfs- og styrktaráætlunum á Íslandi. 

Kristín A. Árnadóttir, sendiherra jafnréttismála, stýrði ásamt Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands, málstofunni Women, Peace and Security Agenda - A Platform for Transformative Change á heimsþingi alþjóðasamtakanna WPL, Women Political Leaders, Global Forum sem haldið var í Hörpu í nýliðnum mánuði.

Þórður Ægir Óskarsson afhenti Fernando Arias, aðalframkvæmdastjóra Efnavopnastofnunarinnar í Haag, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnuninni fyrir skemmstu. Efnavopnastofnunin sér um framkvæmd á samningi um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna. 

Nú í vikunni fór fram ársfundur Uppbyggingarsjóðs EES í Ríga þar sem farið var yfir þau fjölmörgu og ólíku verkefni sem sjóðurinn styrkir í Lettlandi. Sigrún Bessadóttir tók þátt í fundinum fyrir hönd sendiráðsins í Helsinki en það er einnig sendiráð Íslands gagnvart Lettlandi.

Sendiráðið í Kanada og Þorleikur Jóhannesson, verkfræðingur og jarðvarmasérfræðingur hjá Verkís, hafa undanfarna daga gengist fyrir viðamikilli kynningu á nýtingu jarðvarma. Þeir Pétur Ásgeirsson sendiherra hafa ferðast vítt og breitt um landið og flutt fyrirlestra um þennan græna orkugjafa.

Í frétt á vefsíðu sendiráðsins í Stokkhólmi segir frá sýningunni Sweden International Horse Show sem þar fór fram. Sendiherra Íslands, Estrid Brekkan, ávarpaði keppendur og áhorfendur. Íslandsstofa var einnig á staðnum í gegnum verkefnið Horses of Iceland.

Lyfjafyrirtækið Florealis hélt í síðustu viku viðburð í embættisbústað sendiherrans í Stokkhólmi þar sem stjórnendum fyrirtækisins og fjárfestum gafst tækifæri til að ræða framtíðaráform sín og kynna kosti til fjárfestinga fyrir gestum.

Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis var á meðal þátttakenda á ráðstefnunni Nordic-America Life Science Conference sem haldin var vestanhafs í vikunni. Íslandsstofa og aðalrræðisskrifstofan í New York höfðu milligöngu um þátttökuna.

Sendiráðið í Brussel fékk í vikunni góða heimsókn frá stjórnmálafræðinemum frá háskólanum í Lille. Gunnar Pálsson sendiherra ávarpaði hópinn sem fékk síðan kynningu á störfum fastanefndarinnar.

Í gær bauð Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, til jóladjassmóttöku í embættisbústaðnum þar sem ljúfir íslenskir jólatónar frá Marínu Ósk, Stínu Ágústs og Mikaels Mána ómuðu. Jóladjassinn dunar svo í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í kvöld. Fyrr í vikunni hitti okkar fólk í norsku höfuðborginni sjálfa Línu langsokk, eða öllu heldur sænsku leikkonuna Inger Nilsson sem lék hana í sígildum sjónvarpsþáttum.

Sendiráð Íslands í Nýju-Delí tók annað árið í röð þátt í Times Literature-bókmenntahátíðinni. Guðrún Eva Mínervudóttir tók þátt í umræðum og sagði frá verkum sínum.

Og talandi um bókmenntir sem bragð er af þá voru Fjalla-Bensi, hundurinn Leó og hrúturinn Eitill í aðalhlutverki í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín í vikunni, þar sem Aðventa Gunnars Gunnarssonar var lesin upp í þýskri þýðingu. María Erla sendiherra bauð viðstadda velkomna en um árvissa hefð er að ræða.

Í tilefni af Alþjóðadegi mannréttinda á þriðjudag standa utanríkisráðuneytið, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fyrir áhugaverðu málþingi. Þar verður rætt mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið standi vörð um mannréttindi og hvernig smærri ríki geta látið til sín taka á þeim vettvangi, en kjörtímabili Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna lýkur nú um áramótin. Utanríkisráðherra flytur opnunarávarp en Lina al-Hathloul, baráttukona fyrir mannréttindum kvenna í Saudi Arabíu, flytur hátíðarávarp. Í framhaldinu verða svo pallborðsumræður en á meðan panelista er Harald Aspelund, fastafulltrúi okkar í Genf.

Á fimmtudag á utanríkisráðherra svo fund í Kaupmannahöfn með utanríkisráðherra Færeyja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum