Hoppa yfir valmynd
20. desember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 20. desember 2019

Heil og sæl.

Nú þegar svartasta skammdegið grúfir yfir okkur freistum við í upplýsingadeildinni þess að lýsa upp svartnættið með síðasta eiginlega föstudagspósti ársins. Tvær vikur eru frá síðasta pósti og því er af ýmsu að taka.

Byrjum á góðum tíðindum úr þróunarsamvinnunni. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO, undirrituðu í vikubyrjun samkomulag um að Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfi undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun. Í miðstöðinni koma saman fjórir skólar sem starfræktir hafa verið á Íslandi. Utanríkisráðherra átti auk þess nokkra fundi og heimsótti franska þingið meðan á heimsókninni stóð.

Rúm vika er síðan þeir Guðlaugur Þór og Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, áttu jákvæðan fund um framtíð Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja. Færeyska lögþingið ákveður fljótlega hvort fallið verður frá uppsögn hans.

Sendinefnd Íslands gerði góða ferð á árlega loftferðasamningaráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fyrir skemmstu. Hún gerði nýja loftferðasamninga við Marokkó og Mósambík og uppfærði eldri loftferðasamninga og viljayfirlýsingar um flugsamgöngur milli Íslands og annarra landa.

Íslensk stjórnvöld og Rauði kross Íslands hafa tilkynnt um sameiginlegar skuldbindingar sínar um aðgerðir og markmið í þágu Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans til næstu fjögurra ára. Í þeim er lögð rík áhersla á forvarnir og stuðning við baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi í vopnuðum átökum og aðgerðir vegna mansals.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, flutti ávarp fyrir Íslands hönd á leiðtogafundi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, sem haldinn var í Genf fyrr í þessari viku.

Lina al-Hathloul, baráttukona fyrir mannréttindum í Sádí-Arabíu, var aðalræðumaður á málþingi sem haldið var í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp og sérfræðingar tóku þátt pallborðsumræðum.

Og talandi um mannréttindi þá hefur mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt tillögu Íslands og Rúanda um sérstakt átak til hagræðingar í starfi þess. Slíkar ákvarðanir ráðsins eru lagðar fram af forseta ráðsins en Ísland og Rúanda hafa leitt samningaviðræður um slíka hagræðingu síðastliðið ár.

Í vikunni var greint frá þeim ánægjulegu tíðindum að Ísland situr ellefta árið í röð í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Slæmu fréttirnar eru þær að samkvæmt skýrslu ráðsins tekur það tæpa öld að ná fram fullkomnu kynjajafnrétti í heiminum ef fram fer sem horfir.

Í gær var svo Martin Eyjólfsson, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins og fyrrverandi sendiherra Íslands í Berlín, sæmdur stórriddarakrossi þýska sambandslýðveldisins.

Formennskunni okkar í norrænu samvinnunni er að ljúka og af því tilefni birti Norðurlandadeildin tölfræði yfir verkefnin á þessu formennskuári.

Utanríkisráðuneytið hefur gefið vilyrði fyrir styrkjum til sjö íslenskra félagasamtaka um ráðstöfun rúmlega 210 milljóna króna til verkefna á sviði þróunarsamvinnu. Flest verkefnanna eru langtímaverkefni sem fá árlegar greiðslur frá ráðuneytinu. Hæstu styrkjunum verður varið til verkefna í þremur Afríkuríkjum, Síerra Leóne, Úganda og Tógó.

Af vettvangi sendiskrifstofanna er venju samkvæmt nóg að frétta. Á miðvikudag var undirritaður samstarfssamningur milli sendiráðs Íslands í Lilongwe fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í Malaví.um að efla kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi unglingsstúlkna og kvenna í Mangochi héraði.

Sendiráðið okkar í Lundúnum tilkynnti í vikunni að tæplega 50 nýjar umsóknir hefðu borist breskum stjórnvöldum frá íslenskum ríkisborgurum um „settled status“ og er þá heildartala umsókna frá þeim hópi komin yfir eitt þúsund.

Árleg umræða um málefni hafsins fór fram í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrr í mánuðinum. Þar flutti Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart SÞ, ræðu og vakti athygli á áherslu íslenskra stjórnvalda á hafið í formennsku Norðurskautsráðsins og norrænu ráðherranefndarinnar, enda heilbrigt lífríki hafsins kjarnaatriði í íslenskri utanríkisstefnu og grundvallarforsenda sjálfbærrar þróunar.

Nokkrum dögum fyrr tilkynnti Jörundur svo á framlagaráðstefnu neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) um árlegt 50 milljón króna framlag Íslands í sjóðinn samkvæmt endurnýjuðum rammasamningi fyrir árin 2020-23.

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Moskvu, er í forsíðuviðtali nýjasta heftis tímaritsins Fiskifréttir.

Í tilefni af afhendingu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2019 í Berlín efndi sendiráðið okkar þar í borg til ýmissa viðburða. Þannig sóttu 250 kvikmyndagerđarmenn, leikarar, stjórnendur, framleiðendur og blaðamenn samkomu í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna. Árið 2020 verður verðlaunahátíðin haldin í Reykjavík.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í London, ræddi um jafnrétti á vinnustöðum og samfélaginu öllu á fundi Westminster Business Forum þann 11. desember. Nokkrum dögum áður tók Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra í Washington, þátt í umræðum um konur og diplómasíu á viðburði sem The Washington Diplomat stóð fyrir.

Frá Kína bárust þau tíðindi fyrir viku að viðtal sem þekkt sjónvarpskona þar í landi tók við utanríkisráðherra í fyrra hefði ratað í viðhafnarrit Phoenix-sjónvarpsstöðvarinnar.

Og ljúkum þessum jólaföstudagspósti með fréttum frá Washington þar sem jólaball var haldið í sendiherrabústaðnum fyrir íslenskar barnafjölskyldur á svæðinu. Kertasníkir lét sig að sjálfsögðu ekki vanta þótt um langan veg hafi verið að fara.

Við í upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins óskum ykkur öllum gleðilegra jóla!

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum