Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 17. janúar 2020

Heil og sæl.

Fyrsti föstudagspóstur ársins lítur nú dagsins ljós. Nýárið fór rólega af stað en segja má að nú sé starfsemin í utanríkisþjónustunni komin á fullan skrið.

Kvittum samt fyrir síðustu tíðindi ársins 2019 sem enn á eftir að færa til bókar á þessum vettvangi. Undir lok ársins afturkölluðu Færeyingar uppsögnina á Hoyvíkursamningnum, fríverslunar- og efnahagssamningi Íslands og Færeyja en hann hefði að óbreyttu fallið úr gildi um áramótin.

Á síðustu dögum ársins var jafnframt tilkynnt um stuðning Íslands við Alþjóðaframfarastofnunina en ríki heims hafa heitið henni jafnvirði tíu þúsund milljarða króna til að berjast gegn sárafátækt í heiminum.

Færum okkur yfir á það herrans ár 2020. Ófriðarblikur hafa verið á lofti í Mið-Austurlöndum að undanförnu og lýsti utanríkisráðherra yfir áhyggjum af ástandinu á Twitter í ársbyrjun og hvatti þar til stillingar. Nokkrum dögum síðar var stigmögnun spennunnar umfjöllunarefni í sameiginlegri ræðu Norðurlanda í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þá ræddu varnarmálaráðherrar Norðurlanda ástandið á fundi í vikunni en Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri tók þátt í fundinum fyrir hönd ráðherra.

Fyrr í þessari viku greindum við frá þeim ánægjulegu tíðindum að Ísland væri í hópi átta ríkja sem fá hæstu einkunn, 100 stig, í nýrri skýrslu Alþjóðabankans um konur og atvinnulíf.

Tilkynnt var fyrir skemmstu að utanríkisráðuneytið myndi úthluta 186,5 milljónum króna til félagasamtaka á þessu ári vegna verkefna á sviði þróunarsamvinnu og mannúðarmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var í bráðskemmtilegri nærmynd sjónvarpsþáttarins Íslands í dag á Stöð 2. Þar ræddi hann meðal annars mannréttindamál, fríverslun og þróunarsamvinnu, viðraði hundinn Mána og greindi frá því hvað honum þætti mesti ókosturinn við embættið.

Frá sendiskrifstofunum okkar víða um heim er sitthvað að frétta. Í morgun áttu sendiherrar Norðurlanda í Noregi góðan fund með Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra Noregu, til umræðu voru ýmis alþjóðamál sem eru hvað helst í deiglunni um þessar mundir.

Fastanefndir Íslands gagnvart ESB og Atlantshafsbandalaginu hittust í dag til skrafs og ráðagerða. Fundurinn var mjög gagnlegur og fróðlegur og var ákveðið að viðhalda þessum góða sið og hittast nokkrum sinnum á ári.

Sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, Kristján Andri Stefánsson, leiddi á miðvikudaginn fund fastafulltrúa gagnvart OECD um jafnréttismál. Þar var m.a. fjallað um nýjustu PISA niðurstöðurnar og mismunandi stöðu drengja og stúlkna.

Forseti Íslands heimsótti Danmörku fyrir skemmstu og horfði meðal annars á Ísland sigra Danmörku í bráðskemmtilegum leik á EM í handbolta í góðum félagsskap Helgu sendiherra og Sigurðar móttökufulltrúa. Á meðan dvölinni stóð flutti forsetinn fyrirlestur í boði utanríkismálastofnunar Danmerkur. Í ársbyrjun sóttu sendiherrahjónin svo áramótamóttöku Margrétar Þórhildar Danadrottningar.

Á þrettándanum opnaði sendiráð Íslands í Nýju-Delí móttöku fyrir umsóknir um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands í þremur borgum á Indlandi. Ísland hefur að undanförnu tekið í auknum mæli ábyrgð á útgáfu Schengen-áritana á Indlandi og í Kína.

Sama dag átti Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Ottawa, góðan fund með nafna sínum Óskarssyni hjá Íslandsstofu og fulltrúum Icelandair.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti Stokkhólm í vikunni í þeim tilgangi að kynna sér sænskt menntakerfi og það hvaða ástæður kunni að liggja að baki bættum árangri sænskra nemenda í Pisa-könnuninni. Með í för var sendinefnd sem samanstóð af aðilum sem vinna með menntamál á Íslandi.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra var einnig á ferðalagi og hitti meðal annars Virginijus Sinkevičius ,sem fer með með málefni umhverfis, hafs og fiskveiða í nýrri framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, á fundi í Brussel. Þeir ræddu m.a. stöðuna í samningaviðræðum um makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld auk annarra deilistofna í Norður Atlantshafi.

Og talandi um sjávarútveg og málefni hafsins þá hélt Tómas H. Heiðar, dómari við Alþjóðlega hafréttardómstólinn, erindi í Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf um hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og grundvallaratriði í úrlausn deilumála á hafssvæðum fyrir viðræðunefndina.

Unnur Orradóttir Ramette afhenti þann 9. janúar Arthur Peter Mutharika forseta Malaví trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Malaví, með aðsetur í Úganda.

Sveinn K. Einarsson, staðgengill sendiherra Íslands í Peking, sótti í fyrstu viku ársins árlegt viðskiptaþing í borginni Harbin í norðurhluta Kína. Íslenskum fyrirtækjum stóð til boða að sækja ráðstefnuna og tengda viðburði og var Marel á meðal þátttakenda. Þá sátu þeir Sveinn og Pétur Yang Li, viðskiptafulltrúi sendiráðsins, viðskiptaþing tileinkað netverslun sem fram fór í Peking viku síðar.

Í vikubyrjun stóð sendiráðið í Washington fyrir vel sóttum bókmenntaviðburði í samvinnu við hina þekktu bókaverslun Politics & Prose með rithöfundinum Ólafi Jóhanni Ólafssyni. Bergdís Ellertsdóttir sendiherra ræddi við Ólaf um nýútgefna bók hans, um stöðu bókarinnar á tækniöld og kvenkyns söguhetjur.

Skömmu fyrir jól var Francisco A. Julia sem starfað hafði í sendiráðinu í Washington í heil 33 ár kvaddur með pompi og prakt.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra í Helsinki átti á dögunum fund með forseta Íslands þar sem þeir ræddu m.a. um samstarf forsetaembættisins við sendiráðið. Árni var svo aftur á ferðinni í vikunni þegar hann tók þátt í árlegu Matka-ferðakaupstefnunni sem fram fer í Helsinki en hún er sú stærsta sem fram fer á Norðurlöndum.

Fyrir rúmri viku bárust þær sorgarfréttir að Harutyun Hayrapetyan, kjörræðismaður Íslands í Armeníu, hefði látist 5. janúar langt fyrir aldur fram.

Í tengslum við opnun sýningar listamannsins Sigurðar Guðmundssonar í Galleri Andersson/ Sandström í Stokkhólmi bauð sendiráð Íslands til móttöku í embættisbústað sendiherra. Þar var gestum meðal annars boðið upp á gjörning innblásinn af verkum listamannsins.

Á meðal verkefna utanríkisráðherra má nefna að Alþingi kemur saman í næstu viku eftir jólaleyfi. Þá á hann fund með Susönnu Moorehead, formanni þróunarnefndar OCED (DAC).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum