Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 28. febrúar 2020

Heil og sæl.

Þessa vikuna hefur COVID-19 veiruna borið hæst í fréttum en mikill viðbúnaður er um allan heim vegna hennar, meðal annars á Íslandi. Í dag var greint frá því að fyrsta tilfellið hefði greinst hér á landi. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og utanríkisþjónustan í heild sinni hefur tekið virkan þátt í viðbrögðum við faraldrinum. Í vikunni var opnaður sérstakur gagnagrunnur fyrir Íslendinga erlendis sem óska eftir að vera á skráðir hjá utanríkisráðuneytinu og upplýstir um ferðaráð vegna COVID-19 veirunnar á meðan á dvöl þeirra stendur. Síðdegis á föstudag nam heildarfjöldi skráðra hátt í 1.500 manns. Í morgun ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum að setja á fót sérstakan stýrihóp ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta um samfélagsleg og hagræn viðbrögð við Covid-19. Í lok síðustu viku unnu borgaraþjónustan og sendiskrifstofurnar í Peking og París, í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samstilltu átaki að heimflutningi íslenskrar fjölskyldu frá Wuhan í Kína.

Rétt eins og í síðasta föstudagspósti er mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna áberandi í þessum pósti hér en 43. fundalota ráðsins hófst í vikunni. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra gagnrýndi stjórnvöld í Venesúela harðlega í ávarpi sínu í ráðinu á þriðjudag og lagði jafnframt sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks. Þá skoraði hann á utanríkisráðherra Sádi-Arabíu að láta baráttufólk fyrir mannréttindum tafarlaust úr haldi á fundi þeirra í Genf á mánudag. Fjölmiðlar fjölluðu talsvert um þessa viðburði, til dæmis Stöð 2 og RÚV.

Í gær undirrituðu utanríkisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og framkvæmdastjóri Íslandsstofu nýjan þjónustusamning um starfsemi Íslandsstofu. Nýi samningurinn liggur til grundvallar starfsemi Íslandsstofu til þess að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis – og þróunarsamvinnuráðherra, og Una Hildardóttir, formaður Landssambands Ungmennafélaga (LUF) undirrituðu í gær samstarfssamning ráðuneytisins við LUF fyrir árin 2020-2022. Markmið samningsins er m.a. að auka þátttöku íslenskra ungmenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og efla kynningu og fræðslu á heimsmarkmiðunum og málefnum SÞ, en það er hluti af stefnu ráðuneytisins um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2019-2023.

Sigríður Snævarr sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu með aðsetur í Reykjavík átti fund með íslenskum hagsmunaaðilum í Ástralíu á dögunum en nú standa yfir viðburðalotur á vegum heimasendiherra.

Af vettvangi sendiskrifstofanna má nefna að í vikunni fór fram reglubundið tvíhliða pólitískt samráð íslenskra og japanskra stjórnvalda þegar Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fundaði í Tókýó með Yasushi Masaki, skrifstofustjóra Evrópuskrifstofu japanska utanríkisráðuneytisins.

Norðurslóðamálin voru ofarlega á baugi í Washington í vikunni. Einar Gunnarsson, formaður embættisnefndar Norðurskautsráðsins, og Friðrik Jónsson, fulltrúi Íslands í embættismannanefndinni, auk okkar fólks í sendiráðinu í Washington, áttu fundi með bandarískum embættismönnum og fræðimönnum í vikunni og tók Einar auk þess þátt í ráðstefnu um öryggi á norðurslóðum.

Það hefur verið nóg að gera hjá sendiráðinu okkar í Berlín að undanförnu – venju samkvæmt. 22. febrúar var The Iceland Party þar sem Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir var heiðursgestur kvöldsins, og samstarfsaðilarnir Íslandsstofa, KÍM, ÚTON og Icelandair. Um það bil 400 gestir mættu á viðburðinn. Daginn eftir var svo Nordic Film Commissioners B2B Brunch í Felleshus, þar sem fólki gafst tækifæri á því að kynna sér verk þeirra sem tilnefnd voru fyrir Harpa Music Award tónlistarverðlaunahátíðinni sem fram fór í Felleshus kvöldið eftir. Fyrr þann dag (24. febrúar) hafði Hildur Guðnadóttir rætt um tónlist sína á Nordic Film Music Days í Felleshus. 25. febrúar var svo haldin fjölsótt European Film Academy-móttaka í Felleshus. Síðast en ekki síst afhenti María Erla Marelsdóttir Andrzej Duda, forseta Póllands, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Póllandi með aðsetur í Berlín 26 febrúar.

Annirnar hafa ekki verið síður miklar hjá fastanefndinni okkar hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Hér er stiklað á stóru yfir það helsta sem þar hefur verið á seyði að undanförnu.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í Washington tók í vikunni þátt í umræðum um hlutverk diplómasíu í við að takast á við ýmsar hnattrænar áskoranir á ráðstefnu Meridien Center for Diplomactic Engagement og samtökum kvensendiherra í Bandaríkjunum (WASA).

Og talandi um kvensendiherra þá átti Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Moskvu, fund með sex öðrum kvensendiherrum í borginni í gær. Fáeinum dögum fyrr hafði hún tekið þátt í pallborðsumræðum í tengslum við Women in Diplomacy Moscow Forum (WDMF) ásamt sendiherum Kanada og Mexíkó. Á dögunum ávarpaði Berglind svo samkomu lyfsala víðs vegar að úr Rússlandi en margir þeirra selja íslenskt lýsi í apótekum sínum.

Fjölmörg málefni voru til umræðu á 19. vetrarfundi þingmannasamtaka Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vínarborg 20.-21. febrúar. Þingmennirnir fjölluðu um viðfangsefni í hinum þremur víddum stofnunarinnar; öryggisnefnd, efnahags- og umhverfisnefnd og mannréttindanefnd.

Ísland tók þátt í hátíðarhöldum vegna alþjóðlega dags móðurmálsins sem haldinn var hátíðlegur í höfuðstöðvum UNESCO í París. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi, flutti ræðu um íslenska tungu og mikilvægi hennar fyrir íslenska menningu og sjálfsmynd. Fastanefndin í New York tók líka þátt hátíðarhöldum í tilefni af deginum

Í vikunni var sagt frá því í Heimsljósi að til skoðunar væri að hefja undirbúning að verkefnum í nýju samstarfshéraði í Úganda. Nýja héraðið, Namayingo, er í austurhluta landsins, og nær bæði til eyja úti á Viktoríuvatni og samfélaga uppi á landi. Þá greindi Heimsljós frá því í dag að einnig væri til skoðunar nýtt þróunarsamvinnuverkefni á sviði landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar. Um yrði að ræða samstarfsverkefni Íslands og Norræna þróunarsjóðsins (NDF) í samvinnu við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Í næstu viku verður dagskrá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með hefðbundnu sniði en auk þess má nefna að hann flytur opnunarávarp á Planet Youth ráðstefnunni fimmtudaginn, 5. mars.

Fleira er það ekki að sinni. Við óskum ykkur ánægjulegrar helgar.

Upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum