Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 17. apríl 2020

Heil og sæl. 

„Borgaraþjónustan, hvernig get ég aðstoðað?“ hefur verið upphafið að þúsundum símtala sem starfsfólk utanríkisþjónustunnar hefur tekið á undanförnum vikum frá Íslendingum sem staddir hafa verið í útlöndum og viljað koma heim á þessum óvissutímum. Starfsemi utanríkisráðuneytisins hefur enda snúist um fátt annað en þetta: að aðstoða fólk, veita upplýsingar og í sumum tilfellum skipuleggja heimför með sérstökum borgaraflugum sem fjölmörg ríki hafa staðið að frá fjarlægum löndum, þar sem áætlunarflug hefur verið fellt niður. Á annað hundrað Íslendingar hafa notið góðs af þessum flugferðum, sem verið hafa fyrsti leggurinn í löngu ferðalagi heim; síðasti leggurinn hefur svo verið með Icelandair frá London, Boston og í sumum tilfellum Stokkhólmi, en fyrr í vikunni framlengdu íslensk stjórnvöld einmitt samninginn við Icelandair um að fljúga áfram til þessara áfangastaða fram í maí að minnsta kosti. 

Langflestir sem ætluðu sér að koma heim eru komnir, eða búnir að skipuleggja heimferð, sem er eins gott, því áætlunarferðum og borgaraflugum er óðum að fækka. Það kom einmitt fram á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í dag föstudag, þar sem ráðherrarnir fóru yfir stöðu mála á Norðurlöndunum og það þétta samstarf sem borgaraþjónustur ríkjanna hafa átt með sér að undanförnu. „Það eitt að deila upplýsingum um hugsanlegar lausnir er mikilvægt en okkar samvinna hefur gengið lengra, við komum hvert og eitt fram við borgara hinna ríkjanna sem okkar eigin,“ var haft eftir Guðlaugi Þór, að afloknum einum þessara funda nýlega. 

Rétt eins og allir Íslendingar voru hvattir til að ferðast innanhúss um páskana, þá eru fundaferðir utanríkisráðherra allar innandyra þessa daga – af skrifstofunni á fjórðu hæð í fjarfundaherbergið tveimur hæðum neðar. Þar „hittast“ norrænir utanríkisráðherrar, og stundum með baltneskum kollegum sínum og þar ræða saman norrænir þróunarsamvinnuráðherrar. Uppi á þriðju hæð, í sérstöku fundaherbergi, sat Guðlaugur síðan fjarfund varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins síðasta miðvikudag, þar sem meðal annars var rætt um hvernig herlið bandalagsríkjanna styður núna við borgaralega viðbragðsaðila vegna COVID-19 faraldursins, meðal annars með því að setja upp sjúkrahúsaðstöðu og flytja lækningavörur. 

Talandi um lækningavörur, þá kom utanríkisþjónustan með virkum hætti að því þegar heilbrigðisyfirvöld hér á landi ákváðu að senda farþegavél Icelandair í sögulegt flug til Kína um páskana, til að ná í 17 tonn af slíkum vörum. Sendiherra Íslands í Kína, Gunnar Snorri Gunnarsson vann að því, í samráði við stjórnvöld hér heima, að festa kaup á þessum vörum og tryggja leyfi fyrir útflutningi. 

10. apríl fögnuðum við áttatíu ára afmæli utanríkisþjónustunnar, með því að setja í loftið veglega vefsíðu þar sem farið er yfir sögu þjónustunnar í máli og myndum. Þar er meðal annars ítarleg grein um Önnu Stephensen sem var fyrsta íslenska konan sem öðlaðist diplómatísk réttindi. Anna starfaði í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í samfleytt 43 ár, frá 1929 til 1972, og geri aðrir betur! 

Þessum tímamótum var vissulega fagnað í skugga heimsfaraldursins, en á hinn bóginn má segja að starfsemi utanríkisþjónustunnar hafi sjaldan verið Íslendingum sýnilegri en nú – og á það minntist Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í afmæliskveðju sem hann sendi utanríkisráðherra. „Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Starfslið hér heima hefur bjargað mörgum landanum úr bráðum vandræðum eins og ótal dæmi sýna. Órækara dæmi um gildi utanríkisþjónustunnar er vandfundið,“ sagði Guðni í sinni kveðju. 

Í tengslum við afmælið, var Utanríkisvarpinu, nýju hlaðvarpi utanríkisþjónustunnar hleypt af stokkunum, þar sem fjallað verður meðal annars um alþjóðamál, þróunarsamvinnu, öryggismál og norðurslóðamál. Tveir þættir eru þegar komnir á netið; í þeim fyrsta var Guðlaugur Þór gestur Sveins Guðmarssonar, en í þeim næsta fjallaði Rún Ingvarsdóttir um starfsemi borgaraþjónustunnar. Í næsta hlaðvarpi ætlar Sveinn svo að ræða við Sigríði Snævarr, en hún var fyrsta konan til gegna embætti sendiherra. Hér má finna alla þætti Utanríkisvarpsins, en þættirnir eru einnig aðgengilegir í helstu hlaðvarpsveitunum, eins og Soundcloud og Spotify.

Allt önnur hlið af íslenskri menningu var áberandi hjá aðalræðisskrifstofu Íslands í New York í upphafi vikunnar, þegar Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor á Árnastofnun kom fram í beinni útsendingu á Facebooksíðu Iceland Naturally – sem er samstarfsverkefni ræðisskrifstofunnar og Íslandsstofu. Gísli sat á skrifstofunni sinni í Árnagarði í Reykjavík og ræddi um Íslendingasögurnar undir yfirskriftinni „What is so special about the sagas?“ Íslendingasögurnar eru auðvitað mjög sérstakar – og það var nokkuð ljóst að margir eru þeirrar skoðunar, því þegar þetta er skrifaðá föstudagseftirmiðdegihafa næstum fjörutíu þúsund manns horft á fyrirlestur Gísla. Í ráði er að halda þessar kynningar vikulega, og næsta mánudag ætlar jarðeðlisfræðingurinn góðkunni Magnús Tumi Guðmundsson að fræða áheyrendur um jarðfræði Íslands. 

Íslensk matarmenning fékk fína kynningu á heimasíðu sendiráðsins okkar í Beijing í síðustu viku, þegar sagt var frá því að fyrsti farmurinn af íslensku lambakjöti hefði verið fluttur til Kína. 20 tonn voru flutt í þetta skiptið og kjötið verður framreitt á dýrum og fínum veitingastöðum

Kínverjar fengu einnig að sjá tónlistarmyndbandið sem fór eins og eldur í sinu um íslenska netheima (og víðar) fyrir páska, þar sem helstu poppstjörnur landsins og þríeykið góðkunna, Almar, Víðir og Þórólfur, sungu sig inn í hug og hjörtu landsmanna með laginu um góða páskaferð innanhúss. 

Á Facebooksíðu aðalræðiskrifstofu Íslands í Nuuk á Grænlandi, mátti sjá aðalræðismanninn við snjómokstur á fallegum föstudegi og sendiráðið okkar í Berlín hélt áfram að fjalla um sýninguna Hafið – í dag með ítarlegum pósti um söngvaskáldið Bubba Morthens. 

Aðrar sendiskrifstofur og sendiráð hafa ekki látið sitt eftir liggja á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Sendiráð Íslands í Helsinki sagði til dæmis frá símafundi Katrínar Jakobsdóttur og Sanna Marin, kollega hennar í Finnlandi í dag, sendiráðið í Kaupmannahöfn skrifaði fallega afmæliskveðju til Margrétar Þórhildar Danadrottningar í gær, og flest allar sendiskrifstofur, þar á meðal í Moskvu, birtu myndarlega pósta á miðvikudaginn, í tilefni afmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta lýðveldisins.

Sendiráð Íslands í París birti að sjálfsögðu ítarlega umfjöllun í tilefni afmælis forsetans fyrrverandi, enda hefur Vigdís ávallt ræktað sín sterku tengsl við Frakkland og franska menningu. Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO sendi líka árnaðaróskir til Vigdísar, en fáir Íslendingar hafa komið jafn mikið að starfi UNESCO eins og hún. 

Góða helgi!
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum