Hoppa yfir valmynd
15. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 15. maí 2020

Heil og sæl!

Upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins heilsar ykkur á ný á fallegum og sólríkum föstudegi. Megi þeir verða sem flestir í sumar! Síðustu vikur hafa verið ansi annasamar og um margt óvenjulegar en þrátt fyrir það hefur utanríkisþjónustan hvergi slegið slöku við undanfarna daga.

Í vikunni bar hæst það samkomulag sem Ísland og Bretland gerðu með sér um samstarf ríkjanna til næstu tíu ára. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu þess efnis og er henni ætlað að efla tvíhliða samskipti ríkjanna með sameiginlegum framtaksverkefnum. Vegna kórónaveirunnar fór fundurinn að sjálfsögðu fram með fjarfundabúnaði. 

Samstarfsyfirlýsingin, sem ber heitið Sameiginleg sýn fyrir 2030, byggir á sameiginlegum gildum ríkjanna á margvíslegum sviðum með það að markmiði að efla hagsæld, sjálfbærni og öryggi, jafnt innan ríkjanna sem og á alþjóðavísu.

Í síðustu viku fögnuðu ráðherrarnir fyrsta fundi aðalsamningamanna um framtíðarsamband ríkjanna og voru þeir sammála um mikilvægi þess að hefja samningaviðræður um fríverslunarsamning sem fyrst með það að markmiði að hann taki gildi við lok árs. Þórir Ibsen er aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum við Breta um framtíðarsamband ríkjanna. Í nýjasta þætti Utanríkisvarpsins, sem kom út í dag, er einmitt rætt við Þóri, ásamt Jóhönnu Jónsdóttur, sérfræðingi, þar sem þau fara yfir gang mála hvað Brexit og framtíðarsamband Íslands og Bretlands varðar.

Í tilefni af 80 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Bretlands birti sendiráð okkar í London einnig áhugaverða tímalínu um helstu atburði í sögu landanna tveggja. Tímalínuna má sjá hér.

Að öðrum jákvæðum og áhugaverðum málum.

Við sögðum frá því í dag að Ísland hefði gerst formlegur aðili að kjarnahópi ríkja um málefni hinsegin fólks (UN LGBTI Core Group) á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Markmið hópsins er að vinna að réttindum hinsegin fólks í málefnastarfi Sameinuðu þjóðanna, tryggja virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi, með áherslu á vernd gegn mismunun og ofbeldi.

Síðustu ár hafa íslensk stjórnvöld beitt sér af meiri þunga í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og er þátttaka Íslands í hópnum hluti af þeirri stefnu sem mörkuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en í gær var tilkynnt um að Ísland hefði hækkað um fjögur sæti á milli ára á Regnbogakortinu, úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu. Situr Ísland nú í 14. sæti.

Þá sögðum við einnig frá því í vikunni að Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefði nýverið hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að greina tækifæri á vettvangi Uppbyggingarasjóði EES fyrir íslenska aðila á sviði nýsköpunar, samkeppnishæfni, rannsókna, menntunar og menningar. Verkefnið er unnið í samstarfi við utanríkisráðuneytið og RANNÍS.

Þá fór Nordic Innovation Summit fram í þriðja skipti í gær en líkt og svo margir aðrir viðburðir á tímum kórónaveirunnar þurfti fundurinn að fara fram með fjarfundabúnaði. Þátttakendur frá 35 löndum tóku þátt en Bergdís Ellertsdóttir sendiherra flutti ávarp, og Alma Möller, landlæknir, tók þátt í pallborðsumræðum um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við COVID-19 heimsfaraldrinum hér á landi. Norræna safnið í Seattle skipulagði viðburðinn

Í næstu viku mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra meðal annars sækja fjarfund utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum