Hoppa yfir valmynd
29. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 29. maí 2020

Heil og sæl.

Upplýsingadeild heilsar í þetta sinn á nokkuð tíðindamiklum föstudegi en í dag tilkynntu Danir opinberlega um opnun landamæra sinna fyrir Íslendingum þann 15. júní.  Þetta eru auðvitað gleðitíðindi. Hlutirnir eru að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, smám saman að færast í rétta átt en fréttirnar frá Danmörku vöktu skiljanlega mikla athygli og mætti ráðherra í kjölfarið í viðtöl á BylgjunniRÚVmbl.is og Fréttablaðinu.

„Stjórnvöld í Noregi og fleiri löndum hafa verið jákvæð gagnvart því að opna landamæri sín fyrir Íslendingum vegna þess góða árangurs sem hér hefur náðst, svo þetta er smám saman að færast í rétta átt,“ sagði Guðlaugur Þór, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á vef utanríkisráðuneytisins en Íslendingar geta einnig ferðast til Færeyja frá og með 15. júní og til Eistlands frá og með 1. júní.

Vikunni lauk þannig með látum en hún fór einnig af stað með krafti.

Á mánudag sótti ráðherra fund EES-ráðsins ásamt utanríkisráðherrum Noregs, Liechtenstein og fulltrúum ESB sem í fyrsta skipti var haldinn í formi fjarfundar. Það kemur kannski ekki mikið á óvart að viðbrögð við COVID-19 hafi verið í brennidepli á fundinum en þó kom ráðherra því einnig á framfæri að í ljósi náinna efnahagslegra tengsla milli Íslands og ESB væri óeðlilegt að íslenskar sjávarafurðir nytu ekki fulls tollfrelsis við innflutning til ESB-ríkja líkt og sambærilegar afurðir frá ýmsum þriðju ríkjum sem hafi minni tengsl við sambandið.

Á þriðjudag átti ráðherra símafund með Toshimitsu Motegi, utanríkisráðherra Japans. Ræddu ráðherrarnir mikilvægi alþjóðasamvinnu og þess að skiptast á upplýsingum og reynslu í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Möguleg aflétting ferðatakmarkana á milli landanna var einnig rædd en neyðarstigi hefur verið aflétt í báðum löndum. 

Á miðvikudag skellti ráðherra sér í heimsókn til Akureyrar þar sem hann skrifaði undir þjónustusamning á milli Háskólans á Akureyri og utanríkisráðuneytisins. Í samningnum felst meðal annars að vinna að því að styrkja þekkingargrunn íslensks háskólasamfélags um málefni norðurslóða og að efla ungmenni á norðurslóðum. Markmið samningsins er enn fremur að styðja við leiðtogahlutverk Íslands hvað varðar vinnu sérfræðihóps Norðurskautsráðsins um heilsufar á norðurslóðum og ekki síst að auka skilning á störfum ráðsins almennt.

En nú að starfsemi sendiráðanna.

Það dró til tíðinda í Helsinki en í dag lauk Árni Þór Sigurðsson störfum sem sendiherra í Finnlandi eftir tveggja og hálfs árs dvöl þar í landi. Árni Þór færir sig austur á bóginn og mun taka við starfi sendiherra í Moskvu að loknu sumarleyfi.

„Kynni mín af landi og þjóð hafa verið afar jákvæð og hið sama á við um Íslendinga sem hér búa. Mér var strax tekið vel og fjölmargir hafa lagt mér lið í lífi og starfi og fyrir það er ég mjög þakklátur,“ sagði Árni Þór meðal annars í færslu á Facebook

Við höldum okkur við Moskvu en á Facebook-síðu sendiráðsins kom fram að Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Moskvu, hefði verið gerð að fyrsta heiðursmeðlimi rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins. 

Í dag kynnti svo sendiráðið í Kaupmannahöfn nýja greiningu sem það vann á danska markaðnum um þróun viðskipta á milli landanna og þau tækifæri sem þar er að finna fyrir íslensk atvinnulíf. Áhugasamir geta kynnt sér greininguna hérÁhersla var lögð á að skilgreina hvernig sendiráðið getur lagt sitt af mörkum við framkvæmd nýju stefnunnar, kortleggja þau verkefni sem fram undan eru og tryggja samhljóm við starf Íslandsstofu.

Undanfarna daga hafa staðið yfir samráðsfundir UNESCO og Norðurlandanna þar sem farið hefur verið yfir árangur verkefna síðastliðið ár og framtíðarsýn starfsins til næstu ára. Á fundunum lagði Kristján Andri Stefánsson, sendiherra okkar í París, m.a. áherslu á mikilvægi menntunar á tímum COVID og að tryggja þurfi menntun fyrir börn um heim allan þrátt fyrir mikla áframhaldandi óvissu vegna faraldursins.

Eftir tvö góð formennskuár í jafnréttishópi fastafulltrúa OECD, stýrði Kristján Andri einnig sínum síðasta fundi á vegum hópsins í dag en að þessu sinni voru til umræðu áhrif COVID-19 á jafnrétti í þróunarríkjum. Áhersla var lögð á mikilvægi þess að faraldurinn valdi ekki bakslagi í jafnréttismálum.

Við endum þessa yfirferð svo á nýjum þætti Utanríkisvarpsins sem hefur verið birtur á afmælissíðu ráðuneytisins. Að þessu sinni er rætt við þau Jörund Valtýsson, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og Helen Ingu S. von Ernst, sérfræðing, um Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegan jafnlaunadag stofnunarinnar sem að tillögu Íslands verður haldinn í fyrsta sinn í haust.

Í næstu viku mun ráðherra taka þátt í fjarfundi á vettvangi NORDEFCO og norrænu þróunarmálaráðherrarnir munu eiga fund með forseta Alþjóðabankans. Þá munu utanríkisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkjanna eiga með sér fjarfund.

Við segjum þetta gott í bili og óskum ykkur gleðilegrar hvítasunnu.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum