Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 19. júní 2020

Heil og sæl.

Við heilsum á ný á föstudegi og í þetta skiptið á kvenréttindadeginum 19. júní.

Það hefur verið nóg að gerast á þeim tveimur vikum sem liðnar eru frá síðasta pósti. Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í sendiskrifstofum okkar um víða veröld í vikunni en það sem ber hæst á tímabilinu sem nú er til yfirferðar eru án vafa breyttar reglur um komur ferðamanna til Íslands sem tóku í gildi 15. júní. Ekki er að sjá á öðru en að skimunarferlið hafi gengið vel fyrir sig fyrstu dagana og er það vel!

Hvað dagskrá ráðherra varðar þá tók Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á dögunum þátt í ráðherrafundi EFTA þar sem COVID-19 og fríverslunarviðræður voru í brennidepli en samtarf EFTA-ríkjanna, samskiptin við Evrópusambandið og önnur ríki og horfur í alþjóðaviðskiptum voru einnig til umfjöllunar.

Í síðustu viku áttu Ísland, Noregur og Liechtenstein einnig sinn fyrsta fund með utanríkisviðskiptaráðuneyti Bretlands. Um var að ræða mikilvægan þátt í undirbúningi fyrir fríverslunarviðræður við Bretland en áætlað er að formlegar viðræður hefjist í lok mánaðarins. „Ég fagna því að Bretland sé komið að borðinu og er tilbúið að hefja viðræður af fullum krafti. Ljóst er að allir aðilar gera sér grein fyrir þeim miklu hagsmunum sem hér eru í húfi og eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að viðhalda og vernda viðskiptatengsl Íslands og Bretlands,“ var haft eftir ráðhera að fundi loknum.

Undir lok síðustu viku sögðum við frá fundi ráðherra með ungliðahreyfingnu Amnesty International sem afhenti Guðlaugi Þór undirskriftarlista þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að vekja athygli á stöðu mannréttinda í Íran. Ráðherra tók við áskoruninni og fagnaði frumkvæði ungliðahreyfingarinnar. Hann tjáði þeim jafnframt að Ísland væri nú þegar búið að stíga skref í þá átt sem kallað væri eftir með því að gerast aðili að svokölluðum „kjarnahópi“ ríkja á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um ályktun sem reglulega er borin fram um stöðu mannréttindamála í Íran.

Svo bárust þær skemmtilegu fréttir í síðustu viku að Ísland væri friðsælasta land í heimi samkvæmt Global Peace Index 2020, tólfta árið í röð!

Eins og gefur að skilja er af ýmsu að taka á tveggja vikna tímabili í starfsemi utanríkisþjónustunnar og verður því stiklað á því helsta.

Sé litið til starfsemi utanríkisþjónustunnar fyrir utan landsteinanna er nærtækast að byrja á frétt frá því í dag frá sendiráði Íslands í Washington. Þar segir frá fundi Bergdísar Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Washington, með sendiherrum Norðurlandanna ásamt Kelley Currie, sérstökum erindreka fyrir málefni kvenna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Sendiherrar Norðurlandanna í Washington eiga í nánu samstarfi og funda reglulega með lykiltengiliðum í bandaríska kerfinu og halda sameiginlega viðburði í tengslum við norræn áherslumál. Á fundinum var rætt um þá vinnu sem Bandaríkin hafa lagt í verkefni á sviði valdeflingu kvenna og þátttöku þeirra í friðarviðræðum og uppbyggingu að átökum loknum.

Á þjóðhátíðardegi Íslands voru höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna opnaðar í fyrsta sinn frá því að heimsfaraldur kórónaveiru hófst í mars en þá fóru fram kosningar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar varð ljóst að Noregur hlaut flest atkvæði í hópi Vesturlanda til öryggisráðsins og mun taka sæti í ráðinu í janúar á næsta ári. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi, kaus fyrir hönd Íslands.

Við höldum okkur við New York en í síðustu viku stóð aðalræðisskrifstofan þar í borg fyrir kynningu ásamt Íslandsstofu um áhrif COVID-19 á smásölumarkaðinn í Bandaríkjunum.

Íslenska sendiráðinu í Kampala barst í byrjun síðustu viku skemmtilegt bréf frá menntamálaráðherra Úganda, þar sem hann þakkaði fyrir stuðning Íslands við íbúa Buikwe héraðs í baráttunni gegn COVID-19. Stuðningurinn felst í 75 milljóna króna framlagi sem að mestu fer í skólamáltíðir fyrir börn en einnig í aðgerðir í heilsugæslu héraðsins til varnar útbreiðslu veirunnar. Unnur Orradóttir Ramette sendiherra segir að stjórnvöldum í Úganda gangi vel að verjast veirunni og hafa aflétt samkomu- og samgöngubanni að hluta. Alls hafa 557 verið greindir með veiruna í Úganda af 84.576 sýnum en engin dauðsföll hafa verið skráð.

Ef við færum okkur til Evrópu má segja að létt hafi verið yfir þeim fastafulltrúum hjá ÖSE, sem sóttu fastaráðsfund í síðustu viku í Hofburg í fyrsta sinn í þrjá mánuði. Var þetta öruggt merki þess, að ástandið væri smám saman að færast í fyrra horf eftir langt fjarfundartímabil.

Nóg hefur verið um að vera í Genf. Á þriðudag kom EFTA-ráðið saman á blönduðum fundi, en vegna heilbrigðisráðstafana sat aðeins hluti fundarmanna í sal og aðrir tengdust með fjarfundarbúnaði. Á fundinum var nýlegur ráðherrafundur EFTA-ríkjanna ræddur og farið yfir stöðu yfirstandandi fríverslunarviðræðna.

Í gær sögðum við svo frá sérstakri umræðu í mannréttindaráðinu um kerfisbundna kynþáttafordóma, viðbrögð lögreglu og þau mótmæli sem hafa átt sér stað um allan heim síðastliðnar vikur. Í ræðu Íslands áréttaði Harald Aspelund, fastafulltrúi, staðfestu okkar í baráttunni gegn kynþáttafordómum og þá von að alþjóðasamfélagið geti sameinast í þessari mikilvægu baráttu.

Danmörk er smám saman að færast í samt horf eftir hápunkt kórónaveirunnar og hefur menningarhúsið við Norðurbryggju opnað á ný en þar er nú m.a. hægt að sjá sýningu um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur í gegnum árin. Áhugasamir ættu auðvitað að reyna að kíkja en nú er einnig orðið ljóst að Íslendingar geta gist í Kaupmannahöfn og Frederiksberg eftir breytingar á reglum þar í landi í síðustu viku.

Þá minnist sendiráð okkar í Rússlandi á þau tímamót er Ísland lék sinn fyrsta leik á lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu þann 16. júní 2018 en þá gerði karlalandsliðið jafntefli við Argentínu, sælla minninga.

Þeir sem hafa ekki enn hlustað á nýjan þátt um Svein Björnsson, fyrsta forseta Íslands og fyrsta sendiherra Íslands sem frumfluttur var á þjóðhátíðardaginn 17. júní eru hér með hvattir til þess. Viðmælendur Dags Gunnarssonar, þáttagerðarmanns á Rás 1, koma margir hverjir úr utanríkisþjónustunni en rætt er við Sturlu Sigurjónsson, ráðuneytisstjóra, Sigríði Snævarr, sendiherra og Sigurð Þór Baldvinsson, yfirskjalavörð. Aðrir viðmælendur eru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur.

Þá birtist einnig nýr hlaðvarpsþáttur Utanríkisvarpsins í dag þar sem rætt um Atlantshafsbandalagið við Hermann Ingólfsson, fastafulltrúa Íslands hjá bandalaginu. Áhugasamir geta hlustað hér eða á helstu hlaðvarpsveitum en ljóst er nóg afþreying er í boði fyrir garðverkin sem framundan eru.

Við endum þessa yfirferð á að minna á upplýsingafund Viðskiptaráðs Íslands næstkomandi mánudag um aukinn ferðamannastraum til Íslands nú þegar boðið hefur verið upp á skimun á landamærum. Þar mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra meðal annarra sitja fyrir svörum. Fundinum verður streymt á Zoom. Í næstu viku mun ráðherra einnig eiga fjarfund með norrænum utanríkisráðherrum. Á þriðjudag eru eldhúsdagsumræður í þinginu og er gert ráð fyrir þingfrestun á fimmtudag, 25. júní.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum