Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 18. september

Heil og sæl.

Í vikunni sem er að líða sýndi kórónuveiran enn á ný hversu skæð hún er. Eftir sem áður heldur utanríkisþjónustan áfram sínu striki á þessum undarlegu tímum og það hefur raunar verið nóg um að vera.

Rétt er að hefja leik á alþjóðlega jafnlaunadeginum sem haldinn var í fyrsta skipti í dag af EPIC (e. Equal Pay International Coalition) alþjóðasamtökum um launajafnrétti sem Ísland á aðild. Af því tilefni hvatti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra alþjóðasamfélagið til að leita leiða og úrræða sem stuðla að jafnrétti kynjanna í grein á vef alþjóðasamtakanna Women Political LeadersAf sama tilefni var efnt til málþings í dag undir yfirskriftinni Ákall til aðgerða en á meðal þeirra sem flutti ávarp var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Guðlaugur Þór, sem fór utan í vikunni og fundaði bæði í London og á Borgundarhólmi, vakti einnig athygli á deginum í ávarpi á Twitter. Að sögn Guðlaugs er Ísland stolt af því að hafa komið að stofnun þessa dags ásamt öðrum ríkjum í alþjóðasamtökum um launajafnrétti. Auk þess veiti dagurinn tækifæri til þess að vekja athygli á mikilvægi þess markmiðs að jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga.

„Við viljum ganga á undan með góðu fordæmi og hvetja alþjóðasamfélagið til að leita leiða til að breyta og framfylgja stefnu sem kemur jafnt fram við konur og karla,“ sagði Guðlaugur Þór.

 

Á mánudag og þriðjudag fundaði Guðlaugur Þór með breskum ráðherrum og þingmönnum í Lundúnum vegna framtíðarviðræðna við Bretland. Á fundi með Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta, lagði Guðlaugur Þór áherslu á að ljúka viðræðum um nýjan fríverslunarsamning í tæka tíð svo hann gæti tekið gildi í árslok. Þá áttu þau Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, fund þar sem sterk tengsl Íslands og Bretlands voru efst á baugi en einnig ástandið í Hvíta-Rússlandi og eitrunin sem Alexej Navalní, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, var nýverið fyrir. Þá hitti Guðlaugur Þór Tom Tugendhat, formann utanríkismálanefndar breska þingsins, og ræddi sameiginlega hagsmuni varðandi viðskipti með sjávarafurðir við þingmenn Grimsby- og Humbersvæðið, þau Martin Vickers og Lia Nici.  

 „Markmið okkar eru skýr þar sem við vinnum út frá sérstöðu Íslands og kjarnahagsmunum. Það er mikilvægt að nota þetta tækifæri til að bæta viðskiptakjörin þar sem hægt er og tryggja samkeppnisstöðu okkar fyrirtækja. Fríverslunarsamningur styrkir enn fremur pólitísk tengsl landanna og það er ekki síður mikilvægt.“

Í gær tók ráðherra þátt í fundi norrænna utanríkisráðherra á Borgundarhólmi í Danmörku þar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, kynnti skýrslu um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. 

Á fundinum gerðu norrænu ráðherrarnir góðan róm að skýrslu Björns og sammæltust um að skoða tillögur úr öllum þremur köflum hennar sem fjalla um loftslagsmál, fjölþáttaógnir og fjölþjóðakerfið í því augnamiði að koma þeim í framkvæmd.

„Norðurlöndin standa okkur næst og við njótum góðs af okkar nána samstarfi. Við viljum gjarnan sjá tillögur Björns um enn nánara samstarf verða að veruleika, ekki síst hvað varðar fjölþáttaógnir,“  sagði Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundi norrænna utanríkisráðherra á...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Thursday, 17 September 2020


Guðlaugur Þór átti jafnframt tvíhliða fund með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, og ræddu þeir m.a. öryggismál og tillögur þar að lútandi í skýrslu Björns Bjarnasonar. Ríkin vinna náið saman á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og samstarfs norrænu ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, NORDEFCO

Á mánudag ákvað ráðherra að íslensk stjórnvöld skyldu veita tuttugu milljónum króna til neyðaraðstoðar vegna eldsvoða í búðum hælisleitenda á grísku eynni Lesbos í nýliðinni viku. Þá verður tuttugu milljónum króna varið til mannúðarstarfs í Líbanon vegna sprenginganna í Beirút í ágústbyrjun og bætist framlagið við það sem greint var frá á sínum tíma. 

En þá að starfsemi sendiskrifstofa okkar.

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, heimsótti Múrmansk í norðvestur Rússlandi undir lok síðustu viku en tilefnið var m.a. opnun nýrrar fiskvinnsluversksmiðju Murman Seafood. Verksmiðjan er búin tækjum og búnaði frá íslenska fyrirtækinu Völku Hf. Við opnun verksmiðjunnar flutti Árni Þór ávarp og lagði hann áherslu á mikilvægi samstarfs íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja í Múrmanskhéraði sem væri umfangsmikið. Íslensk hönnun og tæknilausnir væru vel kynntar á svæðinu og þættu framúrskarandi. Þá nefndi hann að rússneskt-íslenskt viðskiptaráð hefði verið stofnað á Íslandi á síðasta ári og um 40 fyrirtæki ætti þar aðild og væru í tengslum við rússneskt viðskiptalíf. Auk heimsóknarinnar til Murman Seafood heimsótti sendiherra fiskvinnsluna Polar Sea, Hampiðjuna og Moretron, en öll fyrirtækin tengjast Íslandi og íslenskum fyrirtækjum.

Þessa dagana stendur yfir val á nýjum framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart alþjóðastofnunum í Genf, á sæti í þriggja manna nefnd sem hefur umsjón með valferlinu en niðurstöður fyrstu umferðar voru kynntar á sérstökum fundi WTO í dag. Það er óhætt að segja að mikið muni mæða á Harald í þessu ferli næstu vikur en við fylgjumst spennt með framvindu mála.

Þá var Ísland í hópi 17 aðildarríkja ÖSE sem settu í dag af stað rannsókn á alvarlegum mannréttindabrotum og misnotkun fyrir og eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst sl. Var það gert með því að virkja Moskvu-aðgerðina svokölluðu sem gert er þegar alvarleg ógn steðjar að mannréttindum og öryggi á ÖSE-svæðinu.

Í Genf hófst 45. lota mannréttindaráðsins af krafti í vikunni með sameiginlegri yfirlýsingu um mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu sem Danmörk flutti fyrir hönd nærri 30 ríkja, þ.m.t. Íslands. Er það nú þriðja slík yfirlýsingin sem flutt er frá því að Ísland braut ísinn með fyrstu yfirlýsingunni á síðasta ári.

Í New York var 75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sett með formlegum hætti. Við setningu þingsins var nýr forseti allsherjarþingsins, Volkan Bozkir, settur formlega í embætti og var ekki annað að sjá en fundarhamarinn góði, gjöf Íslands til Sameinuðu þjóðanna, færi vel í hendi forsetans. Saga hamarsins er annars nokkuð áhugaverð og geta áhugasamir lesið nánar um hana hér.

Föstudaginn 11. september sl. á degi íslenska hestsins, voru afhent verðlaun í málverkasamkeppni sem efnt var til í samstarfi við Horses of Iceland og Landssamband hestamannafélaga íslenska hestsins í Þýskalandi IPZV. Samkeppnin stóð yfir á Facebook-síðu sendiráðs okkar í Berlín frá 30. mars til 30. júlí og var íslenski hesturinn að sjálfsögðu þema samkeppninnar. Alls bárust 460 myndir frá 15 löndum, eftir unga sem aldna, lærða og ólærða listamenn og hlutu 12 listamenn í fjórum aldursflokkum vegleg verðlaun í boði styrktaraðila. Verðlaunaafhendingin fór fram í menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín, Felleshus undir ströngum reglum um sóttvarnir og gæddu gestir sér að lokinni afhendingu á íslenskum mat og hlýddu á ljúfa tónlist. 

Sama dag tók María Erla Marelsdóttir tók á móti rithöfundinum Andra Snæ Magnússyni, einnig í Felleshus, sem var gestur alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar ilb sem fer fram 9.-19. september. Sunnudaginn 13. september var sendiherra viðstödd opnunar sýningar norrænna listamanna í Kunstverein KunstHaus í Potsdam. Fulltrúi Íslands á sýningunni er Anna Rún Tryggvadóttir sem hefur starfað í Berlín um árabil.  

Í Malaví hlaut héraðssjúkrahúsið í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í heilbrigðismálum þar í landi en valið byggist á mælanlegum stöðlum sem meta framfarir og settir eru af yfirvöldum.

 

Congratulations to Mangochi District Health Office on being awarded the Best Performing District Health Office in...

Posted by Embassy of Iceland in Lilongwe on Thursday, 17 September 2020

Í Stokkhólmi var Hannesi Heimissyni, sendiherra, boðið til hádegisfundar með fulltrúum úr sænsku atvinnu- og stjórnmálalífi ásamt fulltrúum frá sænska utanríkisráðuneytinu.

Þá hefur Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Brussel afhent Charles Michel forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins trúnaðarbréf sitt.

Fleira var það ekki í bili. Framundan er auðvitað fyrst og fremst barátta við veiruna, eða eins og ráðherra orðaði það ágætlega í Facebook-færslu sinni fyrr í dag: Nú tekur við 😷.

Kær kveðja,

uppló

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum