Hoppa yfir valmynd
28. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur - á mánudegi 28. september 2020

Heil og sæl.

Síðasta vika var annasöm í utanríkisþjónustunni og ekki að ástæðulausu enda allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna farið af stað með öllu tilheyrandi. Vegna heimsfaraldursins sækja íslenskir ráðamenn ekki allsherjarþingið í ár sem var formlega sett í 15. september og sinnir fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum viðburðum á staðnum.

Allsherjarþingið vekur að sönnu ávallt athygli en við byrjum á því að benda á skemmtilega umfjöllun um þingið í Morgunblaðinu frá því í síðustu viku þar sem m.a. var fjallað um Ásmundarnaut, fundarhamarinn góða.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flytur ræðu í allsherjarþinginu á morgun en hefur þegar tekið þátt í tveimur hliðarburðum sem fram fóru í síðustu viku.

Á föstudag ávarpaði Guðlaugur Þór fund sérstaks bandalags um fjölþjóðasamvinnu, Alliance for Multilateralism og tók einnig þátt í sameiginlegu ávarpi leiðtoga víðs vegar úr heiminum um jafnréttismál. Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á þann góða árangur sem fjölþjóðleg samvinna hefur skilað, en áréttaði jafnframt að fjölþjóðastofnanir þurfi nú að aðlagast breyttum tímum og líta fram á veginn. Þá vísaði hann til mikilvægi þess að jafnréttismálum væri haldið á lofti í þessu samhengi.

Á miðvikudag flutti ráðherra stutt myndbandsávarp á viðburði um málefni hinsegin fólks sem haldinn var á vegum sérstaks kjarnahóps um þau mál sem Ísland hlaut aðild að í maí sl. Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mannréttindi sem hornstein íslenskrar utanríkisstefnu. „Það er einnig mín trú að ef við ætlum að ná að hrinda í framkvæmd áætluninni um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030, með meginmarkmiðið í huga um að engan megi undanskilja, verður að tryggja jafnrétti allra, þar á meðal hinsegin fólks um allan heim, og að engin mismunun eigi sér stað,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpinu. 

Á þriðjudag í síðustu viku var svo greint frá því að íslensk stjórvöld hefðu ákveðið að taka þátt í samkomulagi sem Norðmenn hafa gert um þátttöku í samstarfi ríkja um að tryggja öllum þjóðum aðgang að bóluefni við COVID-19. Noregur og Ísland leggja í sameiningu fé til verkefnisins sem gerir kleift að fjármagna kaup á allt að tveimur milljónum bóluefnaskammta fyrir lágtekjuþjóðir.

„Kórónuveiran fer ekki í manngreinarálit og þess vegna er það réttlætismál að allir jarðarbúar hafi tryggan aðgang að öruggu og skilvirku bóluefni þegar þar að kemur. Það er jafnframt í þágu okkar allra að kórónuveiran verði kveðin niður sem allra fyrst alls staðar og því leggjum við að sjálfsögðu okkar af mörkum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Á laugardag var sagt frá því að Ísland hefði lagt fram ályktun í ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um samstarf stjórnvalda á Filippseyjum við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um úrbætur í mannréttindamálum þar í landi. Var ályktunin lögð fram í samvinnu við filippseysk stjórnvöld sem skuldbinda sig til að vinna með mannréttindafulltrúanum að umbótum. Ályktunin verður tekin til atkvæða í mannréttindaráðinu í næsta mánuði en þess má vænta að hún verði samþykkt samhljóða.

Það var raunar nóg um að vera hjá okkar fólki í Genf en á þriðjudag áréttaði Katrín Einarsdóttir, varafastafulltrúi Íslands í Genf, áhyggjur Íslands af stöðu mála í Hvíta Rússland í kjölfar forsetakosninganna þar í landi en óskað var eftir sérstakri umræðu um þessi mál í mannréttindaráðinu.

Áfram höldum við í Genf en frá því að utanríkisráðherra Íslands átti forystu um sameiginlega yfirlýsingu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um samstarf til að vinna að aukinni efnahagslegri valdeflingu kvenna hefur fastanefnd Íslands í Genf leitt samstarf aðildarríkja WTO um málið. Unnið hefur verið að því að greina betur hvaða hindranir standa í vegi fyrir konum í viðskiptum og hvernig eigi að auka þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum. Á fjarfundi sem Ísland stýrði á miðvikudag náðist sá mikilvægi áfangi að málið er nú komið á dagskrá WTO með stofnum nefndar sem á að fylgja málinu eftir

Á þriðjudaginn í síðustu viku afhenti Auðunn Atlason, sendiherra Íslands í Finnlandi, forseta Eistlands, Kersti Kaljulaid,  trúnaðarbréf sitt, en Eistland er á meðal umdæmislanda sendiráðs okkar í Finnlandi.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn vakti athygli á mikilvægi Kaupmannahafnar sem miðstöð fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf en aðgangur að öflugu tengslaneti í Danmörku getur skipt sköpum fyrir íslensk frumkvöðlafyrirtæki. Nú hefur starfsfólk sendiráðsins tekið saman nytsamlegar upplýsingar fyrir frumvöðla um nýsköpunarumhverfið í borginni en samantektina, sem kemur í kjölfar útgáfu viðskiptaáætlunar sendiráðsins, má sjá hér.

Á föstudag heimsótti Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Noregi, Bergen þar sem hún átti fundi með viðskiptaaðilum, ýmsum samstarfsaðilum og velunnurum Íslands. 

Á þriðjudag efndi María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, ásamt öðrum norrænum sendiherrum þar í borg til viðburðar á Twitter undir myllumerkinu #NordicTownHall þar sem sendiherrarnir voru spurðir spjörunum úr um loftlagsmál og hvað norræn lönd eru að gera í þeim málum.

Í Lundúnum ræddi Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra um jafnrétti kynjanna hvað íslenska utanríkisþjónustu varðar á viðburði sem skipulagður var af Young Professionals in Foreign Policy. Um fjarviðburð var að ræða og spunnust upp líflegar umræður um mikilvægi þessa málafloks á alþjóðavísu.

Á dögunum talaði Pétur Ásgeirsson sendiherra Íslands í Ottawa á fjarráðstefnu sem norrænir sendiherrar þar í borg efndu til í samstarfi við háskólann í Ottawa. Rætt var um orku og umhverfismál á norðlægum slóðum sem áhugasamir geta kynnt sér nánar hér. Þá átti hann einnig fjarfund með fyrrverandi fjármálaráðherra Kanada, Bill Morneau, sem nú býður sig fram til að verða framkvæmdastjóri OECD.

Í Rússlandi hlaut Alexandra Chernyshova nýverið 1. verðlaun í alþjóðlegri tónskáldasamkeppni fyrir tónsmíð sína í verkinu Skáldið og biskupsdóttirin. Verðlaunin voru afhent á sérstökum hátíðartónleikum í Húsi tónskáldanna í Moskvu, sunnudaginn 20. sept. Árni Þór Sigurðsson sendiherra veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Alexöndru og þakkaði hann þessa miklu viðurkenningu sem henni hefði hlotnast. Jafnframt gat hann þess að framlag hennar til menningarlífsins á Íslandi fyllti okkur stolti.

Að endingu er vert að vekja athygli á viðburðinum Beyond the Sagas 
sem fór fram á föstudag þar sem Eliza Reid forsetafrú ræddi íslenskar bókmenntir við rithöfundana Kristínu Eiríksdóttur og Þóru Hjörleifsdóttur. Hægt er að kynna sér það sem fram fór á viðburðinum hér.

Við látum þetta gott heita í bili og tökum upp þráðinn að nýju á föstudag.

Kveðja,

upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum