Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 19. febrúar 2021

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í björtu og fallegu veðri og förum yfir það helsta sem gerðist í utanríkisþjónustunni í vikunni.

Hvað dagskrá ráðherra varðar bar hæst tveggja daga fund varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fór fram á miðvikudag og fimmtudag. Fælingar- og varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins, styrking pólitískrar samvinnu og samheldni bandalagsríkjanna auk málefna Afganistans og Íraks voru meðal umræðuefna en um var að ræða fyrsta ráðherrafund bandalagsríkja eftir að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum.

„Það er jákvætt að sjá þessi skýru skilaboð frá Biden-stjórninni um styrkingu Atlantshafstenglanna og að standa eigi vörð um okkar sameiginlegu gildi," var meðal annars haft eftir Guðlaugur Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem ræddi við mbl.is eftir fundinn í gær.

Í gær opnaði svo ráðherra fund Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins þar sem fjallað var um skýrslu Grænlandsnefndar um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Ráðherra undirstrikaði mikilvægi náinnar samvinnu Grænlands og Íslands, ekki síst nú á tímum loftslagsbreytinga þar sem sérstaða Grænlands er mikil, og lagði áherslu á mikla sameiginlega hagsmuni þjóðanna.

Á mánudag tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi á vegum kanadískra stjórnvalda um ólögmæta fangelsisvistun á erlendum ríkisborgurum í pólitískum tilgangi. Markmið fundarins var að vekja athygli á sameiginlegri yfirlýsingu 57 ríkja sem fordæma slíkar fangelsanir og frelsissviptingar.

„Alþjóðasamfélagið þarf að vinna saman til að standa vörð um mannréttindi, líkt og tjáningarfrelsi og mannhelgi. Við vonum að með þessari samstöðu getum við hvatt önnur ríki til að koma í veg fyrir og binda enda á handtökur án dóms og laga,” sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu.

Þessu næst ætlum víkjum við að starfsemi sendiskrifstofa okkar í vikunni.

Á mánudag dró til tíðinda í Genf þegar tilkynnt var um skipun Dr. Ngozi Okonjo-Iweala frá Nígeríu í starf framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Ngozi Okonjo-Iweala varð fyrst kvenna fjármálaráðherra Nígeríu og gegndi því embætti í tvígang. Hún á einnig 25 ára starfsferil hjá Alþjóðabankanum. Fastafulltrúi Íslands, Harald Aspelund, sat sem kunnugt er í þriggja manna valnefnd sem mælti með því að hún yrði skipuð í stöðuna eftir nokkuð langt og strangt ferli. Harald og valnefndin fengu mikið lof frá aðildaríkjunum á fundinum fyrir vel unnin störf, heillindi og trúmennsku við krefjandi aðstæður. Á fundinum bauð Harald Ngozi Okonjo-Iweala velkomna og sagðist hlakka til að starfa með henni að umbótum WTO á þessum umbrotatímum.

Í Genf hélt fastanefndin einnig formlegan fund með frjálsum félagasamtökum til að kynna stöðu mannréttinda í Íran en samtökin ræddu þar alvarlega stöðu í landinu þar sem dauðarefsingunni er misbeitt í pólitískum tilgangi, ofbeldi og pyntingum beitt gegn þeim sem mótmæla stjórnvöldum og öðrum þeim sem berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum, réttindi kvenna mjög takmörkuð og trúfrelsi virt að vettugi, m.a. gagnvart þeim sem eru Bahá´í trúar eða hafa snúist til kristinnar trúar.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhenti í vikunni utanríkisráðherra Úsbekistans, Abdulaziz Kamilov, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Moskvu. Athöfnin fór fram í utanríkisráðuneytinu í Tashkent. 

 

Ambassador of Iceland 🇮🇸 Árni Þór Sigurðsson presented his credentials to Abdulaziz Kamilov, Minister of Foreign Affairs...

Posted by Embassy of Iceland in Moscow on Thursday, 18 February 2021

Í ferð sinni til Úsbekistan fjallaði Árni Þór einnig um vatnsorku í ræðu sinni á alþjóðlegri ráðstefnu í Tashkent.

Í Osló tók Ingibjörg Davíðsdóttir á móti sendiherrum í embættisbústað Íslands í Bygdøy þar sem fram fóru fóru afhendingar afrita trúnaðarbréfa og afturköllunarbréfa. Í gær afhentu sendiherra Grikklands Anna Korka og sendiherra Spánar José Ramon Garcia-Hernandez afrit trúnaðarbréfa sinna sem sendiherra Grikklands annars vegar og sendiherra Spánar hins vegar gagnvart Íslandi, með aðsetur í Osló og ásamt afturköllunarbréfum forvera sinna í embætti. Í dag tók hún svo á móti sendiherra Perú, Gustavo Otero Zapata og sendiherra Eistlands, Lauri Bambus sem í sömu erindagjörðum.

Ingibjörg hefur raunar haft í nógu að snúast í vikunni. Á miðvikudag þurfti hún að grípa í skófluna og moka snjó!

Stundum þurfa sendiherrar að moka snjó!❄️☃️ Noen ganger må ambassadører måke snø🌨☃️

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Wednesday, 17 February 2021

Starfsfólk sendiráðs okkar í Osló kynnir þessa dagana ræðismenn Íslands í Noregi sem eru átta talsins. Arne W. Aanesen er ræðismaður Íslands í Haugesund:

🇳🇴Vi ønsker å fortelle dere om Islands 8 konsuler i Norge. Første mann ut er Arne W. Aanesen, Islands honorære konsul i...

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Wednesday, 17 February 2021


Í Malaví heldur sendiráð Íslands í Lilongve áfram stuðningi sínum við héraðsyfirvöld í Mangochi þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu mæðra- og ungbarnaverndar. Nú styttist í opnun nýrrar fæðingardeildar sem styttir ferðir barnshafandi kvenna svo um munar til þess að nálgast fæðingarþjónustu. Nánar um málið hér.

Í Færeyjum birtist svo skemmtileg umfjöllun um fund Benedikts Jónssonar, aðalræðismanns í Færeyjum, þar sem hann hitti fyrir Heðin Mortensen, fyrrverandi borgarstjóra í Þórshöfn.

Fleira var það ekki í bili. Við tökum upp þráðinn að viku liðinni.

Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum