Hoppa yfir valmynd
31. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Páskapósturinn 31. mars 2021

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur í miðri dymbilviku og förum yfir það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni undanfarna eina og hálfa viku.

Í síðustu viku voru sóttvarnarreglur hertar vegna útbreiðslu breska afbrigðis kórónuveirunnar og starfsfólk á Rauðarárstíg rifjaði upp gamla takta og hóf heimavinnu á ný. Það dró svo til tíðinda í bóluefnamálum og fréttir voru fluttar um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði ákveðið að banna útflutning á bóluefni gegn kórónuveirunni til Íslands auk annarra landa. Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins fyrir viku síðan kom fram að ekki væri ástæða til að ætla að nýrri reglugerð ESB yrði beitt gegn Íslandi né að hún hefði einhver áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands auk þess sem boðaðar útflutningshömlur gengju í berhögg við EES-samninginn.

Guðlaugur Þór beitti sér einnig gegn reglugerð ESB um hömlurnar á bóluefnisútflutningi. „Það er skýrt af okk­ar hálfu að þetta er ekki boðlegt," sagði Guðlaugur Þór m.a. sagði í fjölmiðlum. Viðbrögðin við reglugerðinni voru einnig ofarlega á baugi á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á föstudag en áður hafði Guðlaugur Þór farið þess á leit við alla ráðherrana að þeir aðstoðuðu við að tryggja að reglugerðin hefði ekki áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands. „Þessar nánu vinaþjóðir standa þétt saman og Evrópusambandsríkjunum í hópnum er fyllilega ljóst hversu alvarlegt það er fyrir framkvæmd EES-samningsins ef reglugerðir sambandsins mismuna EES-ríkjunum með þessum hætti, sem verður að teljast skýrt brot á samningnum,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn á föstudag.

Í vikunni skiluðu svo íslensk stjórnvöld endurskoðaðri greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kveðst vongóður um að landgrunnsnefndin fallist á röksemdir Íslands í málinu. "„Ég bind miklar vonir við að landgrunnsnefndin fallist á röksemdir Íslands í þessu mikilvæga hagsmunamáli enda byggist greinargerðin á vandaðri vinnu okkar helstu sérfræðinga á þessu sviði," segir Guðlaugur Þór Þórðarson. 

Að öðru sem var á dagskrá ráðherra í síðustu viku:

Á mánudag sagðist Guðlaugur Þór harma ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda frá því í þar
síðustu viku að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimililsofbeldi en samningurinn hefur jafnan verið kenndur við borgina Istanbúl í Tyrklandi.

Á miðvikudag greindi Guðlaugur Þór frá stuðningi Íslands við stofnun alþjóðlegs vettvangs félagasamtaka sem hefur það hlutverk að afla og varðveita sönnunargögn fyrir alvarlegum mannréttindabrotum í Belarús (International Accountability Platform Belarus – IAPB). Ísland mun styðja við starf IAPB með framlagi að upphæð 50 þúsund evra, eða tæplega átta milljónum íslenskra króna. 

Á fimmtudag var svo umræða um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á dagskrá á Alþingi. Þar lagði ráðherra áherslu á ráðdeild og sveigjanleika til þess að takast á við ný verkefni, ekki aukin ríkisútgjöld: 

Í dymbilvikunni hefur ráðherra svo haft í nógu að snúast. Í gær ávarpaði hann bæði alþjóðlega jarðhitaráðstefnu og tilkynnti um 700 milljóna króna heildarframlag Íslands á áheitaráðstefnu um Sýrland.

„Hrikaleg átök hafa nú geisað í Sýrlandi í heilan áratug og er stuðningur alþjóðasamfélagsins mikilvægari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni á ráðstefnunni. „Við megum ekki líta undan.“

Áður en við lítum til sendiskrifstofa okkar er vert að minnast á góða frammistöðu Íslands á sviði jafnréttismála en Ísland vermir toppsæti kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins tólfta árið í röð.

Þessu næst ætlum við að líta til sendiskrifstofa okkar.

Í Armeníu afhenti Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands þar í landi. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Jerevan og tók forseti landsins, Armen Sarkissian við bréfinu. Í kjölfarið átti sendiherra fund með forsetanum þar sem rætt var um tvíhliða samskipti ríkjanna og möguleika til að efla þau enn frekar. Í sömu ferð opnaði sendiherra formlega nýja ræðisskrifstofu Íslands í Jerevan ásamt nýskipuðum kjörræðismanni, Levon Hayrapetyan. Ferðin var skemmtilega tímasett þar sem landsleikur Íslands og Armeníu í undankeppni HM fór fram á sama tíma og að sjálfsögðu lét Árni Þór sig ekki vanta á leikinn.

Sendiráð okkar í Finnlandi, ásamt öðrum sendiráðum okkar á Norðurlöndum, fagnaði degi Norðurlandanna 23. mars sl. en Finnar eru í formennsku í norrænu samstarfi á þessu ári.  Sendiherra tók þátt í pallborðsumræðum um menntun, atvinnu og kórónuveiruna á vegum iðnskólans Arcarda í Helsinki.  Auk Eystrasaltsríkjanna er Úkraína umdæmisríki sendiráðsins í Helsinki. Nýr sendiherra Úkraínu í Finnlandi heimsótti sendiráðið á föstudaginn og fundaði með sendiherra en hún mun síðar á árinu afhenda trúnaðarbréf á Íslandi

Í Genf samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem ríkjahópur undir forystu Íslands lagði fram. Ályktunin, sem lögð er fram árlega, tryggir áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í Íran. 

Í Brussel sótti Kristján Andri Stefánsson sendiherra óformlegan ráðherrafund ESB og EFTA um samkeppnishæfni. Portúgal, formennskuríki leiðtogaráðs Evrópusambandsins, stóð fyrir fundinum sem fór fram í síðustu viku. Kristján Andri sótti fundinn fyrir Íslands hönd ásamt Þordísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem jafnframt er ráðherra samkeppnismála. Þá birtist ný færsla Brussel-vaktarinnar á laugardaginn sl. sem ber titilinn: Vík milli vina vegna bóluefna.

Í Brussel tók einnig Hermann Örn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, þátt í tveggja daga fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins. Tillögur um eflingu á starfi Atlantshafsbandalagsins voru efst á baugi en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti ekki heimangengt að þessu sinni.

Í Berlín var nóg um að vera í síðustu viku. Á þriðjudagskvöld fór fram listamannaspjall (e. Artist Talk) með þremur íslenskum listamönnum sem skipulagt var af sendiráði Íslands í Berlín í samstarfi við Íslandsstofu, KÍM (Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar) og Künstlerhaus Bethanien. Á miðvikudag fór fram vefspjall meðal íslenskra fyrirtækja og þýskra fyrirtækja í Hamborg og Norður-Þýskalandi í orkugeiranum varðandi samstarf á sviði vetnismála. Skipuleggjendur viðburðarins voru Orkuklasinn á Íslandi og Renewable Energy Hamburg í samstarfi við sendiráðið í Berlín og viðskiptaráðherra Hamborgar, Michael Westhagemann. Sendiherra Íslands María Erla Marelsdóttir ávarpaði samkomuna ásamt sendiherra Þýskalands á Íslandi, Dietrich Becker, og Ingva Má Pálssyni frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Á fimmtudag sendi svo María Erla íslenska karlalandsliðinu baráttukveðju fyrir leik liðsins gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2022. Við þurfum hins vegar ekkert að fara nánar út það hvernig leikurinn fór.

Aðalræðisskrifstofa okkar í New York stóð einnig fyrir viðburði í síðustu viku í gegnum markaðsverkefni sitt Nordic Innovation House þar sem fjallað var um tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki í bandaríska rafíþróttageiranum. 

Fastanefnd okkar í New York sagði svo frá því að tveggja vikna fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna væri lokið en þema fundarins í ár var hvernig full og skilvirk þátttaka kvenna í ákvörðunum og opinberu lífi, ásamt útrýmingu ofbeldis, tryggir jafnrétti kynja og valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Nánar má lesa um málið og hliðarviðburði fundarins hér.

Á Grænlandi kom nýstofnað grænlenskt félag áhugamanna um utanríkismál í heimsókn á aðalræðisskrifstofuna til að fræðast um íslensku utanríkisþjónustuna og utanríkisstefnu Íslands. Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður kynnti starfið og ræddi við viðstadda.

Á Indlandi fór fram ársfundur Íslensk-indverska viðksiptaráðsins. Kristín Eva Sigurðardóttir, starfandi forstöðumaður sendiráðsins á Indlandi, sótti fundinn.

Við látum þetta gott heita í bili og óskum ykkur um leið ánægjulegra páska! 

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum