Hoppa yfir valmynd
14. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 14. maí 2021

Heil og sæl!

Við hefjum leik á útgáfu nýjustu skýrslunnar úr smiðju utanríkisráðuneytisins en í dag var boðað til blaðamannafundar í ráðuneytinu í tilefni af því að skýrslan Norðurljós er komin út. 

Skýrslan hefur að geyma tillögur um hvernig Ísland geti sem best staðið að því að vernda og efla efnahagslega hagsmuni Íslands á norðurslóðum til framtíðar en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði starfshópinn í október 2019. Guðlaugur Þór segir að áhugi umheimsins á norðurslóðum sé sífellt að aukast og ljóst sé að miklar breytingar muni eiga sér stað á svæðinu á næstu árum og áratugum. Mikilvægt sé að huga að því hvernig best megi búa í haginn svo að Ísland geti nýtt þau tækifæri sem muni felast á svæðinu í framtíðinni. 

„Ísland er að mörgu leyti í sérstöðu sem norðurslóðaríki og það þurfum við að nýta okkur vel. Landið allt er innan þess svæðis sem skilgreint er sem norðurslóðir – höfuðborgin einnig. Þá býr Ísland við góða innviði, íslausar hafnir árið um kring, hér er gott og vel menntað starfsfólk, samheldið og öflugt samfélag og við erum vel staðsett í miðju Atlantshafi. Ísland er því í lykilaðstöðu til að laða til sín ýmis verkefni og tækifæri og er mikilvægt að við hugum vel að því hvernig við getum nýtt sérstöðu okkar og styrkleika sem best,“ segir Guðlaugur Þór.

Fundurinn var vel sóttur og þegar hefur verið skrifað um hann á mbl.is. 

Þetta er raunar ekki eina skýrslan sem hefur litið dagsins ljós í vikunni því ný skýrsla um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum (e. Pan-Arctic Report: Gender Equality in the Arctic) kom út í dag. Í tilefni af útgáfu hennar efndi Norðurslóðanet Ísland til rafræns útgáfufundar þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði fundargesti.  

Norðurslóðir eru heldur betur í brennidepli þessa dagana enda fer ráðherrafundur Norðurskautsráðsins fram í næstu viku þar sem Rússar munu taka við formennskukeflinu af Íslandi. Í frétt mbl.is frá því í síðustu viku segir frá komu Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundinn.

„Þetta er fagnaðarefni. Það má alltaf búast við því að eitthvað gott komi út úr svona fundum, sérstaklega þegar utanríkisráðherrar ríkja hittast augliti til auglitis,“ sagði Guðlaugur Þór við Morgunblaðið en einnig var fjallað um fundinn á RÚV.

Ráðherra var svo í stóru viðtali við Fréttablaðið um síðustu helgi þar sem farið er um víðan völl.

Fyrr í vikunni undirritaði Guðlaugur Þór nýjan rammasamning við UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, ásamt Henrietta Fore, framkvæmdarstjóri UNICEF. Samningurinn gildir til loka árs 2023 og veitir heildræna umgjörð um samstarf Íslands og stofnunarinnar. Ísland leggur áherslu á kjarnaframlag sem veitir stofnuninni sveigjanleika til að bregðast við þar sem þörfin er mest. Kjarnaframleg Íslands til UNICEF fyrir árið 2021 nemur 130 milljónum íslenskra króna.

Á þriðjudag var svo sagt frá árangursríkri þátttöku Íslands í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna. Ísland tók þátt í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna 2005-2015 og hefur innri rýni ráðuneytisins á þeirri þátttöku nú verið gefin út, auk samantektar.

Þá á sendiskrifstofum okkar.

Í London heimsótti Sigrún Davíðsdóttir, fjölmiðlakona og rithöfundur, sendiráð Íslands þar sem hún ræddi við Sturlu Sigurjónsson um frestinn til að sækja um Settled/Pre-Settled Status sem rennur út þann 30. júní, mikilvægi þess að sækja um og nýja innflytjendakerfið sem tók við í Bretlandi um áramótin.

Í Tókýó fór um síðustu helgi fram með þátttöku fjölda annarra á mörgum tímabeltum þriðji fundur vísindamálaráðherra um norðurskautið, ASMIII (e. Arctic Science Mininsterial) og voru Ísland og Japan sameiginlegir gestgjafar. Alls tóku 28 ríki þátt og sex frumbyggjasamtök. Meginmarkmið fundarins var að efla alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.

Í Berlín er svo okkar fólk afar spennt vegna vaskrar framgöngu knattspyrnumannsins og tónlistarmannsins Rúriks Gíslasonar í dansþættinum Let's Dance.

Fjölmargar sendiskrifstofur okkar hafa svo vakið athygli á öðrum þætti af fjórum um íslenska myndlist sem Iceland Naturally (markaðsverkefnið sem rekið er í samstarfi aðalræðisskrifstofu okkar í New York og Íslandsstofu) og KÍM hafa unnið að í sameiningu.

Í Osló tók svo Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra á móti sendiherra Ghana Jennifer Lartey í embættisbústað Íslands á Bygdøy. Við það tilefni var Ingibjörgu afhent afrit trúnaðarbréfs Jennifer Lartey sem sendiherra Ghana gagnvart Íslandi, með aðsetur í Osló ásamt afriti afturköllunarbréfs forvera hennar.

Í næstu viku verður nóg um að vera og meðal annars margumræddur ráðherrafundur Norðurskautsráðsins.

Þangað til næst!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum